Fundur hjá útkallshóp

Það verður hittingur hjá Útkallshóp þriðjudaginn 13. nóv kl 20:00

Á fundinum tökum við fyrir eftirfarandi málefni:

– Kynnt verður ný skipan á útkallsmálum sveitarinnar (í framtíðinni verður bara einn flokkur, Útkallsflokkur)
– Farið verður yfir verkefni sem þarf að gera (í dag er vinnan að skiptast á of fáar hendur)
– Skipuleggjum æfinguna sem við ætlum að vera með næsta laugardag
– Förum yfir dagskrána sem er framundan (ferðir, æfingar og fleira)
– Búnaðarmál, hvað á að kaupa
– Næsta skemmtun, sem verður laugardagskvöldið 17. nóv (mjög mikilvægur liður) 

 kv. Doddi

{mosimage}

Sprungubjörgun á Sólheimajökli, 10. nóv. 2007

Um korter í 8 að morgni laugardagsins 10. nóvember var B2 mættur á svæðið, þar voru Einar, Eyþór, Gulli, Jóhann, Svanhildur, Tommi og síðan fóru Addý og Andrés með líka. Umsjónamenn voru Hjörtur og Doddi.

Við tíndum til það sem við þurftum, og síðan var lagt af stað, svona um 9. eitthvað ruglaðist Hjörtur á leiðarvalinu útúr bænum, og okkur sýndist á öllu að hann ætlaði bara vestur í bæ. En eftir smá útúrdúr, komumst við nú á rétta braut og stefndum sem leið lá upp á Shell við Vesturlandsveg, þar sem keypt var kaffi og með því.

Við keyrðum upp að Sólheimajökli undir Eyjafjöllum, fórum framhjá bílveltu, en gátum ekkert hjálpað þar, allt búið.

Við vorum komin innað jökli um 11, og byrjuð að labba upp um hádegi. Byrjuðum á að æfa okkur í að ganga á broddunum, skoðuðum nokkra svelgi og gengum síðan hærra upp jökulinn. Við fundum einn helviti myndarlegan, þar sem við tókum fyrstu æfinguna. Þar var maður látinn síga niðru í svelginn, sem var ekki djúpur, ekki meira en 6 metrar max.  Settum upp doblunarkerfi, og náðum kauða upp. Þetta gerðum við tvisvar til að tryggja að við værum með þetta á hreinu.

Síðan fórum við og fundum okkur stóra og myndarlega sprungu til að taka næstu æfingu, var okkur þá skipt í 2 hópa. Uppsetningin var sjúklingur ofan í sprungu, það þurfti maður að siga niður til hans, festa við hann línu, við þurftum að ná björgunarmanninum upp með doblunarkerfi, sem við þurftum síðan að færa kerfið á línuna hjá sjúklingnum og ná honum upp úr sprungunni. Það gekk allt mjög vel, og vorum við búnir að koma sjúklingnum upp á ca. halftima.

Smá tími fór í pælingar á tryggingunni þar sem Atli var að sýna okkur nokkra mismunandi hnúta og fleira en hann og Stefán höfðu skroppið úr bænum til að kíkja á okkur.

Síðan var gengið frá og haldið niður í bílana.

Á sunnudeginum voru síðan teknar léttar sigæfingar og júmm í húsi.

The end 😉

Andrés Magnússon.

a1
Einar gerir sig kláran niðri við bíl.
a2
Aðeins að kíkja á svelg.
a3
Eyþór að fíflast eitthvað.

a4

Verið að húkka í sjúklinginn áður en honum er kippt upp.

Búnaðarbasar ISALP

Fimmtudaginn 15. nóvember verður ISALP með myndasýningu og búnaðarbasar í klifurhúsinu. ( kort )
Myndasýningin byrjar klukkan 20 og er í umþaðbil hálftíma en þá hefst basarinn.  Nú er um að gera fyrir eldri félaga að losa gamla dótið úr geymslunni og koma því í verð.  Fyrir þá yngri er þetta tilvalið tækifæri til að næla sér í allskonar dót á góðu verði. 

Hvetjum alla til að mæta, sjá flottar myndir og víla-og-díla.

Myndakvöld 1. nóv

Þann 1. nóvember verður haldið myndakvöld í húsnæði FBSR við Flugvallarveg.  Fjöldanum öllum af myndum úr hinum ýmsu ferðum jafnt innan lands og utan verður varpað á vegg og reikna má með skemmtilegum sögum, hvort sem er sönnum eða ekki jafn sönnum, dæmi hver fyrir sig.

Halli og Adela á Wildspetze

b1

Við höldum áfram að segja frá félögum okkar á ferðum erlendis. Hallgrímur Kristinsson, fjallageit og eitt sinn varaformaður FBSR, fór ásamt eiginkonu sinni Adelu Halldórsdóttur og tveimur austurrískum ferðafélögum á Wildspetze, sem er næst hæsti tindur Austurríkis.  Í leiðinni gengu þau á Wildes Mannle. Halli sendi okkur myndirnar sem hér fylgja.

Í lok september fór ég ásamt eiginkonunni og tveimur austurrískum ferðafélögum á næst hæsta tind Austurríkis, Wildspetze. Hann er 3770 metra hár, einungis 20 metrum lægri en hæsta fjall Austurríkis. Í leiðinni tókum við Wildes Mannle, 3000 metra tind í nágrenninu.

b2

Í upphafi ferðar. Adela ásamt Austurrísku ferðafélögunum Andreas og Peter. Þessi skíðalyfta var tekin í 2000 metra hæð. Enginn var þó snjórinn.

b3

Að njóta útsýnisins.

b4

Veðrið lék við okkur og fjalladrottningin naut þess.

b5

Hópurinn fikrar sig upp á Wildes Mannle (3020 metrar)

b6

Síðustu metrarnir að toppi Wildes Mannle.

b7

Toppnum náð. Útsýnið er fagurt.

b8

Hjónakornin á toppi Wildes Mannle. Wildspitze (3770 m.), takmark morgundagsins og næst hæsta fjall Austurríkis í bakgrunni.

b9

Eitt sinn var jökull þar sem þau standa. En svo kom „global warming“.

b10

Komið að skálanum (2480 m.) þar sem gist var um nóttina..

b11

Kvöldsólin er falleg í Austurrísku Ölpunum.

b12

„Alpa start“. Klukkan er 6:30 og tími til að leggja af stað.

b13

Komið í snjólínu

b14

Eiginkonan fylgir með… og fögur er hlíðin.

b15

Komin í 3500 metra og tími fyrir brodda, exi og línu. Hér ákvað eiginkonan að snúa við.

b16

og þá byrjar bröltið.

b17

Fyrsta spönnin að baki og við blasir fallegur jökullinn.

b18

3650 metrar og stutt í toppinn.

b19

Síðustu metrarnir á toppinn

b20

Vestur hryggurinn, séður frá toppnum.

b21

Á toppi Wildspetze, næst hæsta fjalls Austurríkis!

b22

Á niðurleið…

b23

… og á niðurleið

b24

… og á niðurleið

b25

Komið niður í skála og verðlaunin drukkin.

Myndir og texti Hallgrímur Kristinsson.

 

Dagskráin framundan

Á fimmtudag klukkan 20 verður haldinn auka-Aðalfundur FBSR í húsnæði sveitarinnar við Flugvallarveg.  Allir félagar ættu að hafa fengið bréf þess efnis í síðustu viku en hafi það ekki borist þá vinsamlegast látið ritara vita.

Nú um helgina fer B1 í gönguferð á Reykjanesi á meðan B2 verður á námskeiði í Leitartækni uppi á Akranesi.  Við hvetjum alla félaga til að mæta í annanhvorn dagskrárliðinn, það er alltaf gaman í ferðum með B1 og öll þurfum við að rifja upp leitartæknina reglulega.

Þá verður farið í haustferðina helgina 2.-4. nóvember og verður sú ferð algjört dúndur.

Minnum svo á að dagskránna má sjá hér á vefnum.

Hraðapróf

Minnum alla flubba á að mæta á Kópavogsvöllinn við hliðina á Sporthúsinu í hraðaprófið klukkan 18:15.  3000 metrar, 7 1/2 hringur á tíma segir helling um hvort formið er kúla eða eitthvað annað. 

Landsæfing undir Eyjafjöllum

Á laugardag var haldin Landsæfing björgunarsveita.  Að þessu sinni var hún haldin í nágrenni Skóga en svæðið er alveg stór skemmtilegt og býður uppá mikla fjölbreytni í verkefnum.  8 fjallabjörgunarmenn úr FBSR héldu á svæðið ásamt bílstjóra og sinntu þar krefjandi verkefnum sem undirbúin voru af félögum okkar úr björgunarsveitum á Suðurlandi.

Fyrsta hjálp á Laugarvatni okt 2007

Um helgina voru fréttamenn B1 með í för er hópur nýliða ásamt fleirum FBSR meðlimum fóru á Laugarvatn til að læra og sumir að rifja upp „Fyrstu Hjálp“.

f1Um það bil 30 manns í B1 var komið fyrir á Menntaskólanum á Laugarvatni og völdu menn sér ýmist svefnpláss í kennslustofum eða öðrum vel völdum stöðum innan eða utan veggja skólans. Fyrirlestrar hófust strax hjá Sigurbirni Gíslasyni í Björgunarfélagi Akraness, en Sibbi eins og hann kýs að kalla sig er léttlyndur Skagastrákur sem býr að miklum slysasöguforða og oftar en ekki gat komið með „first hand“ sögur tengdar efninu. Kennslu lauk uppúr 22 á föstudagskvöldið og hafði þá fólk lausan hala frammað háttatíma. Sumir fengu sér smá göngutúr meðan aðrir horfðu á videó eða enn aðrir fóru í göngutúr í hraðbankann sem endaði síðan á Lindinni á Laugarvatni.

Það sem lesendur þurfa að gera sér grein fyrir er hvernig er að sofa í skólastofu með hóp þar sem meðalaldur er 26 ára. Það er nefnilega ekkert öðruvísi en það var þegar maður var 10-12 ára 🙂
Eftir langt en gott galsabrandara-session náðu flestir að sofna og var síðan ræs kl. 08.30 á laugardeginum.

Til að gera langa sögu stutta þá voru fyrirlestrar fram á kvöld ásamt verklegri kennslu inn á milli. Þegar var komið á seinnihluta fyrirlestranna var komin smá vottur af galsa í menn og þá fóru fimmaurarnir að fljúga:

Sibbi: „Þetta er semsagt SAM-spelka.“

Sigurbjartur: „Nennirðu að láta hana ganga?“

Helgi: „Hún getur ekkert gengið.“

Sibbi: „Hryggjasúlan er ekki bein.“

Vimmi: „Nú hvað er hún þá? Brjósk?“

Sibbi: „Hvar á að geyma tennur?“

Doddi: „Utanum hálsinn.“

Sibbi: „Hvernig hitum við alvarlega ofkældan sjúkling innanfrá?“

Doddi: „Setjum hann í örbylgjuofn.“

Seinna um kveldið var síðan æfing úti sem tókst bærilega vel m.v. aldur og fyrri störf allra sem sátu námskeiðið. Eftir „de-briefing“ á æfingunni hófst kvöldvakan sem haldin var í Stofu 204 sem var betur þekkt sem dönskustofan.

f2Fyrst var farið í Fram, Fram, Fylking og þannig hitað upp með mannskapnum sem endaði í reipitogi þar sem Jarðaberjaliðið sigraði eftir smá backup aðstoð að sögn vitna. Menn voru sko ekki á þeim skónnum að hætta því næst tók við Stólaleikur sem síðan endaði í „Mangó mangó“ leiknum, „The Romantic version“.

Ástarfleygið sjálft hafði komið með í för og laðaði Vimmi til sín góða gesti ofaní fleygið. Kvöldvökunni var síðan formlega slitið kl. 03.20 en þá voru lætin orðin of mikil fyrir þá sem hvíla vildu lúin bein.

Ræs var síðan aftur kl. 08.30, svipað kerfi og fyrri daginn, fyrirlestrar og eitthvað smá verklegt. En svo var komið að prófinu. Hópurinn fékk klukkutíma til að hita upp fyrir prófið sem hófst á slaginu 15:00. Eftir próf fóru þeir félagar Sibbi og Ási sveittir yfir prófin og afhentu síðan einkunnir. Ekki var gefin út meðaleinkunn en flestir náðu og var meiri að segja ein 10 gefin :D. Eftir tiltekt var síðan haldið heim á leið.

Kynningakvöld í Everest

Eftirfarandi barst frá Everest:

"Vildi bara láta ykkur vita að Fimmtudaginn 18 okt. og Mánudaginn 22 okt. verða björgunarsveitakvöld í versluninni Everest frá klukkan 18:00 bæði kvöldin. Þar verður góður  afsláttur af öllum vörum og ýmsar vörur á sértilboðum þessi kvöld. "

Þá er löngu búið að senda nafnalista fyrir B1 og B2 í búðirnar þannig að þeir sem ekki eru með félagsskírteini þurfa ekkert að óttast.