Námskeiðshelgin mikla

Nýliðar í B2 tóku námskeið í félagabjörgun sl. helgi og fóru æfingar meðal annars fram á Sólheimajökli. Á meðan voru nýliðar í B2 í fyrstu hjálp 1 en námskeiðið fór fram í Reykjavík. Bæði námskeið heppnuðust vel en svo að svona stór námskeiðshelgi gangi upp þurfa margir að koma að verki.

Við hjá FBSR erum heppin að eiga reynslumikið fólk að á mörgum sviðum, líkt og sást um helgina, og færum við okkar félögum sem leiðbeindu og kenndu okkar bestu þakkir fyrir. Einnig þökkum við þeim fjölmörgu sem tóku að sér það mikilvæga verk að leika sjúklinga á sjúkraæfingunum.

Ljósmyndir: Arianne Gäwiler, Ingvi Stígsson og Inga Hrönn.

Tindfjallaferð, óveðursnámskeið og sveitaræfing!

Það var heldur betur nóg um að vera hjá FBSR um nýliðna helgi.


Nýliðar í B1 fóru í æfingaferð í Tindfjöll og gistu þar 2 nætur í tjaldbúðum. Yfir helgina var áhersla á rötun þar sem helsta vopnið var hið klassíska par: Kort og áttaviti! Nýliðarnir fengu þó góðan undirbúning fyrir helgina þar sem farið var yfir grunnatriði í rötun, útreikninga á staðsetningu og hnit og veðurspáin stúderuð enda Tindfjöll ekki þekkt fyrir veðursæld. Þrátt fyrir nístingskulda lék veðrið vel við Tindfjallagesti.

Nýliðar í B2 þreyttu námskeið í Óveðri og björgun verðmæta. Þau fengu kjöraðstæður til æfinga enda langöruggast að æfa slíkt í blíðskaparveðri. Á sunnudeginum var svo slegið til sveitaræfingar með inngengnum og B2 þar sem áhersla var lögð á leitartækni ásamt bland í poka af fyrstu hjálp og fleiri nytsamlegum æfingum.

Ljósmyndir:
Samúel Þór Hjaltalín, Snædís Perla Sigurðardóttir, Ingvi Stígsson og Þórður Björn Sigurðsson.

Fjölskyldudagur

Í dag, sunnudaginn 29. september, var haldinn fjölskyldudagur fyrir félaga FBSR og aðstandendur þeirra. Börnin gátu komið með slasaða eða veika bangsa til aðhlynningar, klifið var í klettum, farið í hina ýmsu leiki, grillaðar pylsur og margt fleira. Veðrið lék við okkur í dag og má með sanni segja að fjölskyldudagarnir séu orðnir ein skemmtilegasta hefðin innan sveitarinnar.
Við þökkum öllum þeim sem komu að skipulagi og aðstoðuðu við að gera daginn ógleymanlegan fyrir félaga og fjölskyldur þeirra.

Ljósmyndir: Eyþór Kári Eðvaldsson.

Nýliðaþjálfun 2024-2025 er hafin

Nú er haustið komið með sínum gulu og appelsínugulu viðvörunum⚠️ og það þýðir: Nýliðaþjálfun FBSR er hafin á ný!
Nýliðahóparnir okkar, B1 og B2, héldu af stað í sína fyrstu æfingaferð þetta haustið um liðna helgi ásamt þjálfurum þar sem m.a. var farið yfir ferðamennsku og rötun. Nýliðarnir fengu kjöraðstæður til æfinga fyrir þessi mikilvægu atriði 🙌

Ljósmyndir: Ásta Ægisdóttir og Þorsteinn Ásgrímsson Melén.

Kynningarkvöld 27. ágúst 2024

Skráning í nýliðaþjálfun FBSR 2024

Fjölmennt var á nýliðakynningar FBSR mánudaginn og þriðjudaginn sl. en samtals um 90 manns sóttu kynningarnar.

Skráning í nýliðaþjálfunina fer fram sem hér segir:

Föstudaginn 30. ágúst kl. 19:00 á bílastæði við Esjurætur

Laugardaginn 31. ágúst kl. 14:00 á bílastæði við Esjurætur.

Gengið verður upp að Steini en við tökum fram að ekki er um neitt próf eða tímatöku að ræða.

Ef það eru einhverjar spurningar er hægt að senda á nylidar2024<hjá>fbsr.is

Nýliðaþjálfun 2024-2026 – Kynningarkvöld

Kynning á nýliðaþjálfun Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík verður haldin kl. 20:00 þann 26. ágúst og endurtekin kl. 20:00 þann 27. ágúst.
Kynningin verður í húsnæði FBSR að Flugvallarvegi 7.

Þjálfunin tekur tvo vetur, september-maí 2024-2026. Nýliðar læra á þeim tíma að bjarga sjálfum sér og öðrum við ýmsar aðstæður. Meðal námsgreina eru ferðamennska, rötun, GPS, fyrsta hjálp, fjarskipti, fjallamennska, fjallabjörgun, snjóflóð, straumvatnsbjörgun, leitartækni og fleira. Að auki taka nýliðar virkan þátt í ýmsu öðru starfi sveitarinnar, svo sem fjáröflunum.

Kíkið í heimsókn ef þið hafið áhuga á fjölbreyttu og gefandi starfi með björgunarsveit!

Aldurstakmark er 18 ár.

Fjölskyldudagur FBSR

Fjölskyldudagur FBSR var haldinn um helgina þar sem fullt af ævintýrum var í boði fyrir stóra sem smáa. Þetta er skemmtileg hefð innan sveitarinnar sem gefur meðlimum og fjölskyldum þeirra tækifæri á að kynnast og gera sér glaðan dag saman. Í þetta sinn var farið á Úlfljótsvatn þar sem m.a. var farið í bogfimi, klifur í turni og farið í skemmtilega leiki á túninu. Grillaðar voru pylsur og á leiðinni til baka var farið í hellaskoðun í Djúpahelli.

Ljósmyndir: Magnús V. Sigurðsson og Þórdís Guðnadóttir.

14 manns gengu inn á aðalfundi FBSR 2024. Hér má sjá hópinn ásamt nýliðaþjálfurum.

Aðalfundur 2024

Aðalfundur FBSR fór fram þriðjudagskvöldið 28. maí síðastliðinn þar sem 14 manns gengu inn í sveitina eftir 2ja ára nýliðaþjálfun.

Eftirfarandi kosningar í stöður innan FBSR fóru fram á aðalfundi:

Kosning stjórnar:
Formaður: Magnús Viðar Sigurðsson (endurkjörinn)
Varaformaður: Erla Rún Guðmundsdóttir (er á miðju kjörtímabili)
Gjaldkeri: Ingvi Stígsson (endurkjörinn)
Meðstjórnandi: Eyþór Kári Eðvaldsson kosinn til 2ja ára
Meðstjórnandi: Stefán Már Ágústsson kosinn til 2ja ára
Meðstjórnendur sem eru á miðju kjörtímabili eru Anna Finnbogadóttir og Þóra Margrét Ólafsdóttir.

Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga:
Haukur Eggertsson og Birgir Valdimarsson.

Kosning tveggja í uppstillingarnefnd:
Þorsteinn Ásgrímsson og Ragna Lára Ellertsdóttir.

Kosning tveggja trúnaðarmanna:
Bjarney Haraldsdóttir og Áslaug Þórsdóttir

Kosning í siðanefnd til tveggja ára:
Agnes Svansdóttir og Anna Marín Þórsdóttir.

Ljósmynd: Jón Svavarsson.

Aðalfundur Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík 2024

Kæru félagar,

Aðalfundur Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík verður haldinn þriðjudaginn 28. maí á Flugvallarvegi 7 og hefst fundurinn kl. 20:00.

Formaður FBSR ásamt aðstoðarfólki mun grilla pylsur frá kl. 19:00. Kaffi og með því í hléinu (Endilega skráið ykkur á D4H til að vita fjöldann).

Samkvæmt lögum FBSR skal á þessum fundi kjósa formann, gjaldkera og tvo meðstjórnendur auk eins félaga í siðanefnd, tveggja til skoðunarmanna reikninga, tveggja í uppstillingarnefnd og tvo trúnaðarmenn nú í ár. Hægt er að hafa samband við uppstillingarnefnd FBSR vilji fólk bjóða sig fram í embætti en einnig má bjóða sig fram á fundinum sjálfum. Í uppstillingarnefnd eru Þorsteinn Ásgrímsson og Ragna Lára Ellertsdóttir. 

Dagskrá aðalfundar, sbr. lög FBSR:

1. Formaður setur fundinn, en fundurinn kýs sér fundarstjóra og fundarritara.

2. Fundarritari fer yfir helstu mál frá síðasta aðalfundi og athugasemdir ef einhverjar eru.

3. Skýrsla stjórnar.

4. Ársreikningur lagður fram til samþykktar.

5. Inntaka nýrra félaga.

Hlé.

6. Lagabreytingar (engar tillögur bárust).

7. Tillögur sem borist hafa kynntar og bornar undir atkvæði (ein tillaga barst, sjá neðar).

8. Kosning stjórnar.

9. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.

10. Kosning tveggja í uppstillingarnefnd.

11. Kosning tveggja trúnaðarmanna sem starfa skulu sjálfstætt.

12. Kosning eins félaga í siðanefnd til tveggja ára og stjórn kynnir val sitt á oddamanni (félagi eða utan sveitar). 

13. Önnur mál.

Tillögur sem hafa borist og verða bornar undir atkvæði:
Ein tillaga barst. Hún varðar framtíð húsnæðismála sveitarinnar og byggir á niðurstöðum könnunar sem lögð var fyrir félaga á Innri síðu fyrr í mánuðinum. Niðurstöður könnunarinnar voru afgerandi og benda til þess að mikill meirihluti félaga vill að farið verði í stækkun húsnæðisins. Niðurstöður verða kynntar nánar á fundinum og eftirfarandi tillaga borin upp til atkvæðagreiðslu.

 „Aðalfundur Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík 2024 samþykkir að ráðist verði í stækkun á húsnæði sveitarinnar við Flugvallarveg 7. Stjórn FBSR er falið að vinna að stækkuninni.“

Kynning húsnæðisnefndar frá því í mars sl. má finna inni á D4H.

Endilega skráið ykkur á fundinn á D4H til að auðvelda skipulagningu.