Leitarflokkur

Leitarflokkur hefur á að skipa þeim aðilum sem hafa sérhæft sig í leitartækni og er sá hópur sem fyrstur er kallaður út þegar um leit að fólki á sér stað. Hlutverk leitarhóps er þá að framkvæma sérhæfð leitarverkefni og beita til þess fagkunnáttu sinni.

Hvað er leitartækni?leitarhopur-1

Leitartækni er ansi víðfeðm fræðigrein og erfitt að lýsa henni í fáum orðum, en kannski má lýsa henni sem „aðferðarfræði við að finna týnt fólk eða týnda hluti með þeirri aðferð og tólum sem þykir   skynsamlegast hverju sinni“.

leitarhopur-2 Leitartækni er ungt fag á Íslandi en hefur þegar margsinnis sannað gildi sitt við að tryggja fagmennsku í leit að týndu fólki og hefur skilað sér í markvissari vinnubrögðum. Gott samstarf er á milli leitarhópa björgunarsveitanna og lögreglunnar.

Meðal þeirra atriða sem fagmenn í leitartækni kunna skil á er ákvörðun og uppsetning leitarsvæðis, sporrakningar, hópstjórn, hegðun týndra, leit í mismunandi landslagi, leit að fórnarlömbum ofbeldismanna (unnið með lögreglu) og margt fleira.

Flugbjörgunarsveitin kennir nýliðum sínum grunnnámskeið í leitartækni og sendir árlega félaga á Fagnámskeið í leitartækni hjá Björgunarskóla Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

leitarhopur-3