Frumkvöðlar í fjarskiptamálum

Góð fjarskipti eru mikilvægur þáttur við leit og björgun og geta flýtt og auðveldað allt starf björgunarsveita við erfiðar aðstæður. Frá stofnun hefur Flugbjörgunarsveitin Reykjavík verið í fararbroddi í fjarskiptamálum fyrir leitar- og björgunaraðila og átti meðal annars fyrsta fjarskiptabíl í eigu björgunarsveita á Íslandi.

Fyrsti Fjallabíll FBS – Bedford.

Þegar sveitin var stofnuð gengu strax nokkrir starfsmenn Flugmálastjórnar til liðs við hana og var samstarf þar á milli mikið allar götur síðan. Þegar fyrsti bíll Flugbjörgunarsveitarinnar, Bedford árgerð 1942, var keyptur árið 1954 innréttuðu starfsmenn radioverkstæðis Flugmálastjórnar fjarskiptaklefa í bílinn með vönduðum talstöðvarbúnaði þess tíma. Fyrsta talstöð sveitarinnar var úr flugvél, en sendirinn var stór og mikill með tíðnisvið frá 1,8-18 mHz. Samanlögð þyngd sendis og tveggja viðtækja var um 100 kg. Loftnetsstöngin sem var á bílnum var um sex metra langt mastur sem reyst var upp þegar bíllinn var stopp. Á fyrstu árunum voru fjarskipti frá bílnum að mestu við flugturninn í Reykjavík og Reykjavík Radio, enda voru ekki til neinar ferðatalstöðvar  á þessum árum.

FBSR áskotnaðist einnig litlar skammdrægar handstöðvar frá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli eftir sameiginlega æfingu árið 1954. Þær nýttust hins vegar illa og ekki er vitað til þess að þær hafi gagnast við leitarstörf. Á þessum árum kom mest allur fjarskiptabúnaður sveitarinnar frá Flugmálastjórn og komu starfsmenn radioverkstæðisins mikið að viðhaldi hans. Hins vegar bættust einnig nokkrir áhugasamir radioáhugamenn við sveitina og minnkuðu þá afskipti starfsmanna Flugmálastjórnar.

Fyrstu loftskeytatæki FBS frá 1954 ART 13 og BC Receiver

Árið 1958 hóf Landsími Íslands framleiðslu á hentugum talstöðvum í bíla, en stöðin heitir FF-3. Þetta voru straumfrek lampatæki og fyrst um sinn í fjórum kössum. Árið 1961 var úthlutað sérstakri tíðni fyrir bíla, 2790 kHz. Loftskeytastöðin í Gufunesi opnaði sólarhrings vöktun á þessari bílabylgju. Um svipað leiti var björgunarsveitum úthlutuð sérstök tíðni, 2912 kHz. Þar sem þessi tíðni er innan flugbandsins var FBS ábyrðaraðili tíðninnar, enda eina björgunarsveitin sem var kominn með talstöðvar að einhverju leiti. Fljótlega fengu aðrar björgunarsveitir sér fjarskiptatæki en þeim hafði fjölgað mjög á þessum árum, bæði hjá Slysavarnafélaginu og skátunum. Aldrei var neinn ágreiningur með að björgunarsveitir nýttu sér þessa tíðni 2912 sameiginlega, þó FBS væri rétthafi .

Bílatalstöð með fylgihlutum frá 1958.

Landsíminn gerði árið 1962 tilraunir með litla talstöð sem kölluð var „Fuglabjargastöð“ og var hugsuð fyrir björgunarskýli. Gunnar Jóhannesson, rafeindavirki og félagi í FBSR, var á þessum tíma einna helst í forsvari fyrir fjarskiptamál sveitarinnar. Hann gerði tilraunir með þessa stöð og úr varð talstöð á grind sem heppilegt var að bera svipað og bakpoka. Var sú stöð kölluð burðarstöð og reyndist afar vel þar til VHF-stöðvar komu til sögunnar um 1980. Smíðaðar voru 10 stöðvar og átti FBSR fjórar þeirra .

Upp úr 1967 til 1970 fóru að koma svokallaðar CB talstöðvar sem urðu mjög vinsælar á skömmum tíma. Þetta voru lítil tæki á 27 mHz tíðnisviðinu. Langdrægni var þokkalega góð á þeim árum og nýttist því vel á afmörkuðum svæðum. Björgunarsveitir nýttu sér þessi tæki samhliða gömlu AM-bíla og burðastöðvunum og fengu sérrás fyrir sig á CB bandinu.

Árið 1964 fékk Flugbjörgunarsveitin svo afhenda tvo bragga í Nauthólsvík frá Flugmálastjórn og var þar strax komið upp fjarskiptaherbergi. Viðtækin í Nauthólsvík náðu betra merki en aðrir við ákveðin skilyrði en það helgast meðal annars af því að loftnetin fyrir viðtækin voru á milli bragganna sem voru járnklæddir, en með því voru rafmagnstruflanir frá borginni einangraðar. Þá hjálpaði einnig nálægðin við sjó og voru samskiptin við Reykjavík, þegar leit stóð yfir á landinu, oft best í bröggunum.

Stjórnstöð FBS í bragga sveitarinnar í Nauthólsvík

Loftnetum fyrir móðurstöðina í Nauthólsvík var á þessum tímafjölgað, enda fleiri tíðnisvið tekin í notkun og fjölgaði fjarskiptatækjum nokkuð.  Settur var upp sérstakur standur með nokkrum viðtækjum og fleiri sendar. Nú var hægt frá Nauthólsvíkinni að hafa samband bæði á miðbylgju með hlustun á sex bylgjum samtímis.  Á CB bandinu var hægt að hlusta og senda á öllum almennum rásum og sérrás björgunarsveitanna. Auk þess var komið upp talstöð á VHF bandi flugsins (118-136 mHz) og þar með beint samband við innanlandsflug og vallartíðnir flugturnsins á Reykjavíkur og Keflavíkurflugvelli. Flugfjarskipti innanlands voru flutt árið 1968 af  HF-AM mótuðum sendum yfir á VHF-FM mótaða senda og því var nauðsynlegt að setja þannig tæki í fjarskiptaherbergi FBSR og suma bílana.

Á árunum 1975-80 komu á markað VHF-talstöðvar á viðráðanlegu verði og um mitt árið 1978 var stofnað fjarskiptaráð björgunarsveitanna að frumkvæði almannavarna ríkisins. Ráðið komst að þeirri niðurstöðu að notast ætti við VHF-tíðnisviðið með fjölda endurvarpa á fjöllum og gæti það komið í stað gömlu HF AM mótuðu senditækjanna og CB-tækjanna. Settir voru upp sendar í húsnæði Flugmálastjórnar og hjá Landsímanum til að byrja með, en fyrsti endurvarpinn var settur upp í Bláfjöllum. Sá næsti fór upp á Vatnsnesfjall og sá þriðji á Vaðlaheiði. Þetta dugði skammt og fjölga þurfti sendum, en hvorki var rafmagn eða húsnæði þar sem koma þurfi fleiri sendum fyrir.

Algengur fjalltoppaendurvarpi

Sigurður Harðarson, félagi í FBSR og einn helsti fjarskiptaáhugamaður landsins, hóf þá að smíða endurvarpa sem nýttu sólarorku og gengju fyrir rafgeymum. Var kostnaður við slíkt tæki mun minni en við erlenda fjallatoppsendurvarpa. Flugbjörgunarsveitin Hellu fór með fyrsta slíka tækið á Goðastein á Eyjafjallajökli í ágúst 1986 og var reynslan það góð að ekki var aftur snúið. Fleiri endurvarpar voru smíðaðir og árið 2020 eru tæplega 60 slíkir endurvarpar á vegum björgunarsveita víðsvegar um landið.

Sigurður Harðarson.

NMT-farsímakerfið var svo formlega tekið í notkun 1. júlí 1986 og breytti miklu fyrir björgunarsveitir. Þar með var í fyrsta skipti hægt að hringja beint á milli staða án aðstoðar milliliða. Var á þessum tíma notast við NMT, langdrægar SSB-millibylgjustöðvar og svo þétt net VHF-endurvarpa í starfi björgunarsveitanna. Árið 2000 var svo TETRA-kerfið tekið í notkun, en það er helsta fjarskiptakerfi björgunarsveita í dag, ásamt VHF-kerfinu.

FBSR hefur frá stofnun verið í fararbroddi þegar kemur að fjarskiptalausnum og var með sérútbúna fjarskiptabíla allt frá árinu 1954 þegar gamli fjallabíllinn var innréttaður með stóru flugvélatalstöðinni, HF-AM mótaða sendinum ART-13 og viðtækjum. Allt vigtaði það um 100 kg. Síðan hafa þrír aðrir sérútbúnir bílar á vegum FBSR verið í notkun. FBS-3 var innréttaður 1972-73 og var notaður til 1994. FBS-11 (Skjaldbakan)  var notuð frá 1971-2005 og er nú til sýnis á Skógarsafni og að lokum FBS-1, Benz stjórnstöðvarbíll sem tekinn var í notkun árið 1990 og að lokum afhentur Flugbjörgunarsveitinni Hellu árið 2019 sem áframhaldandi stjórnstöðvar- og fjarskiptabíll.

Í dag notast Slysavarnarfélagið Landsbjörg við Björninn, sameiginlegan fjarskiptabíl fyrir allar björgunarsveitirnar og er hann rekinn auk sameiginlegrar stjórn- og fjarskiptamiðstöðvar í Skógarhlíð, en þar eru einnig Neyðarlínan, Landhelgisgæslan og slökkvilið höfuðborgarsvæðisins. Flugbjörgunarsveitin er því ekki lengur með fjarskiptabíla né virka fjarskiptastarsemi í sínu húsi við Flugvallaveg til nota við stjórnun þegar leit og björgun stendur yfir. Áfram er þó vel haldið utan um fjarskiptabúnað FBSR. Hægt er að sjá alla muni í fjarskiptasögu sveitarinnar á Skógarsafni.