Spurt og svarað um nýliðaþjálfun FBSR

Hvers konar verkefnum sinna björgunarsveitir?
Sveitirnar sinna leit, fjallabjörgun, slysum, óveðursaðstoð og ýmsu öðru. Stærstur hluti verkefna FBSR er á suðvesturhorninu en við förum í útköll um allt land sé þess þörf. Björgunarsveitirnar vinna saman að lausn verkefna og oft með öðrum viðbragðsaðilum eins og lögreglu og Landhelgisgæslu.

Hver er munurinn á Flugbjörgunarsveitinni og öðrum sveitum?
Allar björgunarsveitir eru hluti af Slysavarnarfélaginu Landsbjörg og þjálfunin er í grunninn samræmd og það sama gildir um útköll, einkennisfatnað og fleira. Það er þó blæbrigðamunur á sveitunum. Í FBSR er mikil áhersla á útivist og fjallamennsku og þjálfunin er umfangsmikil. FBSR hefur einnig sérstaka tengingu við flug.

Hver er tilgangur nýliðaþjálfunar?
Megin tilgangurinn er að undirbúa ykkur fyrir útköll. Þið fáið fjölbreytta þjálfun í að bjarga ykkur sjálfum og öðrum við ýmsar aðstæður. Þið kynnist hvert öðru og fólkinu í sveitinni ásamt þeim fjölbreyttu störfum sem þarf að vinna til að halda björgunarsveit gangandi.

Hvernig er þjálfunin uppbyggð?
Þjálfunin tekur tvo vetur. Á tímabilinu september til maí eru æfingar og námskeið að jafnaði annað hvert mánudagskvöld og svo helgina eftir það (fjáraflanir í des.). 80% mætingarskylda er í heildardagskrá. Í undantekningartilfellum er hægt að teygja námið yfir lengri tíma en tvo vetur. Athugið að þjálfunin er krefjandi fyrir bæði ykkur og þjálfara. Því er rétt að gera það fljótt upp við sig hvort áhugi er á starfi til framtíðar.

Hvað er kennt?
Ferðamennska, rötun, GPS, ýmiss konar fjallamennska, fjallabjörgun, snjóflóð, straumvatnsbjörgun, fyrsta hjálp, leitartækni, fjarskipti, jeppamennska, óveðursaðstoð og ýmislegt fleira.

Hvaða búnað þarf ég?
Í byrjun er það almennur búnaður til útivistar, þ.e. góður fatnaður, gönguskór og bakpoki. Á fyrsta ári í þjálfun býður sveitin sérhæfðan búnað til láns en eftir því sem líður á þjálfunina bætist við búnaðarkröfurnar. Nánar verður fjallað um búnað í upphafi þjálfunar.

Er annar kostnaður en búnaðarkostnaður?
Hóflegt gjald fyrir bækur og lánsbúnað. Ferðir og námskeið eru á kostnað FBSR.

Þarf ég að taka þátt í fjáröflunum?
Gerð er krafa um a.m.k. 35 klst. í fjáröflunum á hvoru ári. Megin fjáraflanirnar eru Neyðarkallinn (fyrsta helgi í nóv.), jólatrjáasala og flugeldasala. Fjáraflanirnar eru samvinnuverkefni allrar sveitarinnar og í þeim er mikið fjör.

Er aldurstakmark?
Já, nýliðar þurfa að vera orðnir 18 ára þegar þjálfun hefst.

Þarf ég að kunna íslensku?
Já, vegna þess að allt námsefni er á íslensku og útköll fara fram á íslensku (fjarskipti o.s.frv.). Nánari upplýsingar gefa nýliðaráð og nýliðaflokkstjórar.

Þarf ég að vera í súperformi?
Gott form til göngu með bakpoka auðveldar lífið í þjálfuninni. Það er því afar æskilegt að vera í a.m.k. þokkalegu gönguformi í upphafi.

Er þetta gaman?
JÁ! Fyrir marga er þjálfun og starf í björgunarsveit það ævintýralegasta sem þeir hafa tekið sér fyrir hendur. Nýliðahópurinn þjappast fljótt saman og sterk vinabönd myndast.

Hvað tekur við eftir þjálfunina?
Mjög fjölbreytt og gefandi starf í útköllum og öðru. Flokkar / hópar sveitarinnar eru bílaflokkur, björgunarflokkur, drónahópur, fallhlífahópur, fjallaflokkur, heimastjórn, hundahópur, leitarflokkur, RNF hópur, sjúkraflokkur, sleðaflokkur, snjóbílahópur og straumvatnshópur. Að auki er alltaf þörf fyrir vinnufúsar hendur í almennu innra starfi.

Hvaða fólk sér um þjálfun?
Nýliðaþjálfarar eru félagar í sveitinni. Sérstakt nýliðaráð er þjálfurum og nýliðum til halds og trausts. Að auki kemur fjöldinn allur af félögum sveitarinnar að námskeiðum og æfingaferðum.

Ég er með fleiri spurningar. Hvert leita ég?
Hægt er að senda fyrirspurnir til nýliðaráðs ([email protected]), til stjórnar ([email protected]) eða sem facebook skilaboð til sveitarinnar (Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík á facebook).