Í september á hverju ári tekur Flugbjörgunarsveitin við nýliðum til þjálfunar og kennslu.
Nýliðanámið er tveir vetur og skiptist í fjórar annir, rétt eins tíðkast í skólakerfinu. Fyrra árið kallast B1 og það seinna B2. Námið sjálft er þó talsvert frábrugðið því sem fólk þekkir í skólum, því fáir skólar geta boðið upp á jafn spennandi nám og klettaklifur, ísklifur, leitartækni, fjallabjörgun, fjarskiptatæki og stjórnun fjallajeppa svo dæmi séu tekin.
Getur hver sem er sótt um?
Aldurstakmark er 18 ára. Nýliðar verða að vera við góða andlega og líkamlega heilsu. Félagar geta gengið inn í sveitina á aðalfundi í maí, tveimur árum eftir að nýliðanámið hefst. Reynslan sem árin kenna okkur er vissulega dýrmæt og nýtist mjög vel í björgunarstörfum. Björgunarstörf eiga því alls ekkert síður við fólk sem er á „besta aldri“.
Þarf maður að vera hraustur?
Þú þarft ekki að vera í toppformi til að gerast nýliði, en í lok námsins verður þú það! Nýliðanámið er hvað þetta varðar eins og fyrirtaks einkaþjálfun. Þú byrjar hæfilega rólega en byggir þig síðan hratt upp. Þegar líður á námið fara kröfurnar að herðast.
Hvað veitir námið?
Fyrst og fremst færðu að starfa með einni af fremstu og öflugustu björgunarsveitum á landinu. Í nýliðanáminu öðlast nýliðar færni til að sinna öllum helstu björgunarstörfum og útskrifast með titilinn Björgunarmaður 2 samkvæmt skilgreiningu Björgunarskóla Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Mikil áhersla er lögð á þjálfun í fjallamennsku og í lok námsins eiga nýliðar að geta nýtt sér þjálfun og búnað til að bjarga sér og bjarga öðrum á fjöllum við nánast hvaða aðstæður sem er. Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík er auk þess eina björgunarsveit landsins sem getur sent björgunarmenn og búnað á vettvang úr lofti. Að nýliðaþjálfun lokinni gefst kostur á að fara á námskeið og gerast „björgunarstökkvari“. Þeir þurfa að standast svokallað bronspróf en það er sama prófið og stökkvarar í danska flughernum þurfa að standast.
Er hægt að fá nýliðanámið metið?
Hægt er að fá fyrstu hjálpar námskeiðin sem kennd eru í nýliðanáminu metin til eininga í flestum framhaldsskólum.
Símenntun að loknu nýliðanámi
Flugbjörgunarsveitin styrkir á hverju ári inngengna félaga til ýmissa námskeiða og þjálfunar bæði hér heima og erlendis. Björgunarmaður getur alltaf bætt við sig þekkingu og færni með símenntun. Mörg þessara sérhæfðu námskeiða geta félagar einnig nýtt sér þegar þeir afla sér ýmissa starfsréttinda, t.d. sem leiðbeinendur í skyndihjálp eða fjallaleiðsögumenn. Það skal þó tekið fram að styrkur til námskeiða er veittur gegn því að félagar nýti þekkingu sína í björgunarstörfum og/eða miðli þekkingunni til annarra björgunarmanna.
Nánar um B1 | Nánar um B2. |