Á flakki í kringum flugvallarsvæðið
Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík hefur frá stofnun haft aðsetur á þremur mismunandi stöðum. Til viðbótar hefur sveitin haft til umráða tvö geymsluhúsnæði, en alltaf hefur það verið á eða við flugvallarsvæðið í Reykjavík.
- Upphafsárin 1950-1952 – Sveitin hafði ekki eigið húsnæði fyrstu tvö ár starfseminnar. Varð sveitin því að leita á náðir annarra félaga, til þess að halda fundi og inniæfingar. Fyrstu tvö árin, frá 1950-1952 fékk sveitin afnot af bragga Félags einkaflugmanna,sem staðsettur var í braggahverfi sem herinn skildi eftir sig á Reykjavíkurflugvelli, skammt frá þar sem flugstjórnarmiðstöðin er nú.Auk þess hafði sveitin afnot af fundarsal í eigu Sanitas við Lindargötu í Reykjavík.
- Á sama tímabili, frá 1950-1952, fékk sveitin að geyma hluta af útkallsbúnaði sínum þar sem Flugmálastjórn rak miðunarstöð fyrir flugvélar. Var húsnæið staðsett til hliðar við braut 25 á Reykjavíkurflugvelli.
- Þvottahúsið 1952-1964 – Á flugvallarsvæðinu þar sem nú er bílastæði á milli Hótel Natura og flugstjórnarmiðstöðvarinnar stóð frá stríðsárunum gamalt þvottahús hersins. Þegar herinn fór tók Flugmálastjórn við þessu húsi sem og fleirum á svæðinu. Árið 1952 afhenti Flugmálastjórn sveitinni húsið til afnota. Var það um 30 fermetrar að stærð og skiptist í tvö herbergi; funda- og kennsluherbergi og svo lítið geymsluherbergi fyrir útkallsbúnað. Skilaði sveitin þessu húsnæði árið 1964.
- Flugmálastjórn átti einnig bragga sem stóð við grjótnámu í Öskjuhlíð, þar sem núverandi húsnæði er staðsett. Hafði grjót þaðan verið notað í hafnargarðana við Reykjavíkurhöfn og flutt þangað á einu járnbrautarlestinni sem notuð hefur verið hér á landi. Á árunum 1952-1964 fékk sveitin þennan bragga einnig til afnota og var hann nýttur undir bíladeildina.
- Braggarnir í Nauthólsvík 1964-1990 – Árið 1964 hafði sveitin stækkað talsvert og var þá farið að svipast um eftir stærra húsnæði á flugvallarsvæðinu. Tveir u.þ.b. 100 fermetra braggar stóðu skammt sunnan við Nauthól í Nauthólsvík og fengu menn augastað á þeim. Ekki er vitað hvaða hlutverki þeir gengdu á stríðsárunum en um þetta leyti var þar starfrækt röra- og gangstéttahellusteypustöð. Agnar Koefoed-Hansen, flugmálstjóri og einn stofnandi sveitarinnar, lét einangra og innrétta syðri braggann til nota fyrir innanhúsverkefni, en hinn bragginn var afhentur kaldur og hrár til geymslu bíla.
- Þegar komið var inn í syðri braggann var fyrst komið inn í litla forstofu, svo inn í gang þar sem fatahengi og salerni voru til vinstri og skrifstofuherbergi til hægri. Þaðan var gengið inn í fundarsal sem var í miðju braggans. Handan salarins var komið inn í rými sem skiptist í eldhús og tvö minni herbergi, annað notað sem radíóherbergi og hitt til geymslu búnaðar og tækja. Dyr voru út úr vesturenda braggans, einskonar flóttaleið ef eldur kæmi upp í miðhlutanum.
- Á árunum 1980-1985 hafði sveitin stækkað nokkuð og mönnum varð ljóst að tímabært væri að svipast eftir stærra húsnæði. Bauð Pétur Einarsson, þáverandi flugmálastjóri, sveitinni svokallað Gróðurhús vestan megin við flugvöllinn, en það var allstórt stálgrindarhús, um 150 fermetrar að stærð á tveimur hæðum. Hátt var til lofts á neðri hæðinni og sú efri með hefðbundna lofthæð. Þó fylgdi boðinu að nýta þyrfti hluta af neðri hæðinni til að geyma sand innandyra sem nota átti til að hálkuverja flugbrautina.
- Húsið var ekki mikið stærra en braggarnir og þá var ekkert rennandi vatn eða rafmagn. Einnig hefði þurft að fara í talsverðar framkvæmdir, meðal annars að einangra betur milli hæða og byggja nýjan stigagang. Ljóst var að slík framkvæmd yrði umtalsvert viðamikil og dýr. Þá var talsvert lengri akstur fyrir flesta að fara vestur fyrir Háskólann á Melunum en að fara í Nauthólsvíkina. Var lán á húsinu því afþakkað.
- Flugvallarvegur 1990- – Á þessum tíma var mönnum orðið ljóst að ekki væri um annað að ræða en að byggja hús frá grunni. Höfðu félagar augastað á lóðinni þar sem hús sveitarinnar stendur á núna og sóttu um hana til Reykjavíkurborgar. Þó talsverðan tíma hafi tekið að fá jákvætt svar fékkst það að lokum og var í kjölfarið skipuð byggingarnefnd og samið við teiknistofuna ARKO, en það var Jón Kaldal sem teiknaði húsið.
- Var ákveðið að hafa tvö hús, annað á tveimur hæðum hugsað fyrir inniæfingar, fundi og stjórnstöð, en hitt vélasal ætlaðan bílum, vélsleðum, snjóbílum og öðrum tækjum og búnaði. Voru húsin tengd með tengibyggingu á einni hæð. Stefán Bjarnason, heiðursfélagi FBSR, endurnýjaði réttindi sín sem byggingameistari og tók að sér það starf. Þegar teikningar voru klárar og félagar höfðu samþykkt þær var samið við Byggingarfélagið Viðar um smíði hússins.
- Sigurður M. Þorsteinsson, fyrrverandi formaður sveitarinnar, tók fyrstu skóflustunguna 11. ágúst 1987. Var vinna við húsið að miklu leyti aðkeypt með hliðsjón af þeim fórnarkostnaði sem svipuð vinna hafði haft í för með sér hjá öðrum sveitum á svipuðum tíma. Alls voru haldnir 48 fundir byggingarnefndar hjá formanni sveitarinnar á þessum tíma, Ingvari Valdimarssyni. Húsið var svo vígt með athöfn á 40 ára afmælisdegi sveitarinnar, 24. nóvember 1990.
- Á lóðinni sem sveitin fékk afhenta lóðina stórð þar gamall braggi (annar en fyrrnefndur bílabraggi). Fékk sveitin braggann afhendan 30. mars 1987, en þá var hann heldur óásjánlegur. Hefur hann síðan verið lagaður talsvert og er í dag notaður sem geymsla og verðandi aðstaða fyrir snjóbíl.
Ef frá er talið núverandi húsnæði sveitarinnar hafði sveitin í gegnum árin fengið alla aðstöðu að láni, sér að kostnaðarlausu, með aðkomu Flugmálstjórnar. Naut sveitin góðs af velvilja stjórnenda og starfsmanna stofnunarinnar sem seint verður þakkað fyrir að fullu. Er þar rétt að minnast aftur á aðkomu Agnars Koefoed-Hansen sem var alltaf boðinn og búinn til að hlaupa undir bagga með sveitinni.