Kvennadeild FBSR

Það voru stórhuga konur sem á vordögum 1966 kom í hug að stofna kvennfélag í tengslum við Flugbjörgunarsveitina Reykjavík og var um sumarið unnið að hugmyndinni með fjáröflunum, svo sem tjaldsölum og kaffisölum. Áður höfðu nokkrar konur FBSR-manna, hópur sem hélt saman á öðrum sviðum, selt kaffi á fundum hjá körlunum þeim til styrktar. Þær voru ef til vill fyrstar með hugmyndina, en driffjörðin Ásta Jónsdóttir framkvæmdi hana svo til fulls og hóaði saman hópi til undirbúnings stofnunar félagsins. Ásta var eiginkona Sigurðar Þorsteinssonar, þáverandi formanns FBSR og voru þau alla tíð mjög áhugasöm um veg og vanda sveitarinnar.

Eiginleg stofnun kvennadeildarinnar var svo 24. nóvember 1966, á 16 ára afmælisdegi FBSR, með samþykkt laga og kosningu stjórnar undir formennsku Ástu. Í lögunum segir m.a. að markmið félagsins sé að styrkja Flugbjörgunarsveitina Reykjavík með fjáröflun og vinna að björgunarmálum. Kvennadeildin hefur þó aðeins farið út fyrir lagarammann í gegnum tíðina, meðal annars þegar gefin var upphæð í hjartabílinn, talstöð til Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu og ekki síst með stórri fjárhæð til stjórnstöðvarbíls Landsbjargar sem þekktur er sem Björninn. Var kvennadeildinni þökkuð sú gjöf sérstaklega.

Á 30 ára afmæli kvennadeildarinnar árið 1996. F. vinstri: Hulda Filippusdóttir, Auður Ólafsdóttir, Ásta Jónsdóttir, Guðbjörg Jónsdóttir, Guðrún Waage, Erla ´´Olafsdóttir, María Karlsdóttir, Ingibjörg Árnadóttir

Stofnendur deildarinnar voru 24 konur samkvæmt fundargerð stofnfundar. Rétt til inngöngu í félagið áttu konur félagsmanna FBSR og konur tengdar þeim. Fljótlega bættust fleiri í hópinn og þegar deildin var sem fjölmennust voru 50 konur í henni, en misjafnlega virkar eins og gengur.

Farið var af stað með krafti strax fyrsta árið með tjaldsölu 17. júní. Næstu árin voru reglulegar kaffisölur, kökubasara, torgsölur o.fl. Þá urðu árlegar kaffisölur kvennadeildarinnar haust hvert frá 1967-1980 á Hótel Loftleiðum frægar að gæðum, en þær áttu sér stað í tengslum við merkjasölu FBSR.  Naut deildin þar velvildar hótelsins um aðstöðu.

Afraksturinn þessi ár var veglegur, því þetta félag með 30-40 virkum konum gaf FBSR stórgjafir. Þannig var björgunarsveitinni færðar peningagjafir og alls kyns tæki og búnaður fyrir starfsemina. Á átta ára afmæli deildarinnar var FBSR þannig færður Ford Econoline. Þá keypti kvennadeildin margt til félagsheimilisins, svo sem borð, stóla, borðbúnað o.fl.

Kvennadeildin hélt uppteknum hætti á níunda og tíunda áratugnum og var FBSR einstaklega sterkur bakhjarl. Þannig lagði deildin það mikið af mörkum til stjórnstöðvarbílsins gamla (Mercedes Benz trukkur – FBSR#1) að bíllinn var merktur kvennadeildinni. Síðasta stóra gjöf deildarinnar var svo stór og sterk yfirbyggð farangurskerra sem gefin var á 60 ára afmæli sveitarinnar og er enn í fullri notkun 10 árum síðar. Var hún sérsmíðuð að fengnum ráðum frá bílaflokki á þeim tíma.

Afhending faragurskerrunnar, gjöf Kvennadeildar á 60 ára afmælinu. Elsa Gunnarsdóttir, form. FBSR, Vigdís Fjeldssted, Margrét Björnsdótir, Margré Fjeldsted, Auður Ólafsdottir, Þóra Filippusdóttir, Hulda Filippusdóttir, Sif Ingólfsdóttir, Guðni Gunnarsson, formaður bílaflokks og Katrín Sæmundsdóttir.

Mánaðarlegir félagsfundir voru haldnir hjá deildinni fyrstu fjóra áratugina, frá september fram í maí, en hefur þó aðeins fækkað síðustu ár. Þar voru allar helstu ákvarðanir teknar sem og boðið upp á fróðleik og allskonar skemmtun. Sá kvennadeildin í nokkur ár um þorrablót FBSR, sem þá var haldið í Rafveituheimilinu í Elliðaárdal, eins og margar aðrar skemmtanir FBSR á þeim tíma.

Kvennadeildin vann mikið starf við að senda út miða í happdrætti sem FBSR stóð fyrir árið 1979 og vélritaði upp úr símaskrá hátt í 2.000 gíróseðla og gekk frá í umslög. Fyrir það framlag eignaðist deildin hlut í núverandi húsnæði svietarinnar þegar það reis áratugi síðar, herbergi á 2. hæð. Hefur aðstaða þeirra verið þar síðan, með þeirri breytingu þó að hafa fært sig milli hæða svo hægt væri að leigja efri hæðina í heilu lagi.

Félagskonur og gestir á 30 ára afmæli Kvennadeildar FBSR

Kvennadeild FBSR varð fljótlega sjálfstæður aðili að Landsambandi Flugbjörgunarsveita, en við stofnun Landsbjörg var deildinni úthýst og meðal annars á þeim forsendum að sjálfstæði deildarinnar var véfengt út frá nafninu sem jú tengdist FBSR. Frá þeim tíma hefur ekki neitt verið gert í að fá því breytt, enda þegar þá farið að þynnast hópurinn. Hefur engin nýliðun verið í félagatali deildarinnar í mörg ár og því eðlilega fækkun í tímana rás. Konurnar hafa elst, fallið frá eða snúið sér að öðrum verkefnum.

Með breyttum tíðaranda hefur ekki verið í tísku að vera í kvenfélagi og ekki jókst áhuginn á deildinni þegar konur fengu að ganga inn í FBSR, sem áður hafði aðeins verið karlaveldi. Eru konur nú stór hluti félaga FBSR og standa sig þar vel í starfi.

Kvennadeild FBSR verður seint þakkað nægjanlega fyrir þann stuðning sem hún hefur sýnt FBSR með gjöfum og aðstoð við að kaupa tæki og búnað. Í gegnum áratugi af ólgusjó hefur verið mikilvægt að eiga slíkan bakhjarl og stuðningshóp sér að baki sveitinni.

Jólafundur 2008: Jenný Guðlaugsdóttir, Unnur Gunnarsdóttir, Sigríður Eiríksdóttir , Edda Karlsóttir, Hulda Filippusdóttir, Þórunn Jónsdóttir, Katrín Sæmundsdóttir, Vigdís Fjeldsted, Margrét Björnsdóttir, Margrét Fjeldsted, Auður Ólafsdóttir, Erla Ólafsdóttir, Þóra Filippusdóttir, Guðrún Inga Guðjónsdóttir