Saga hunda hjá FBSR

Flugbjörgunarsveitin Reykjavík var fyrst allra viðbragðsaðila sem reið á vaðið að nýta hunda til leitar á Íslandi. Þann 14. júlí árið 1954 fékk sveitin sendan sérþjálfaðan sporhund af blóðhundakyni frá Bandaríkjunum, með góðfúslegu leyfi innflutningsyfirvalda.

Loftleiðir gáfu fragtina á hundinum sem var að jafnvirði 200 dollarar, enda þurfti hann tveggja sæta rúm. Hundurinn var 3 ½ ára og var sagður í góðri þjálfun enda verið þjálfaður í 3 ár. Slíkir hundar kostuðu þá eins og nú mikla fjármuni, en Flugbjörgunarsveitin fékk andvirði hundsins að gjöf, heilar 9.000 kr. frá ónefndum aðila. Veiðafæraverslunin Geysir hafði líka styrkt kaupin á hundinum og fleiri styrktaraðilar höfðu einnig lagt sitt af mörkum. Timburverslunin Völundur gaf efni í kofa, enda þóttu þessir sporhundar ekki hæfir inni í húsum manna og þyrfti að vista þá í eigin hundakofum. Kofinn var byggður upp á Vatnsenda og sagt var að hundurinn, sem nefndur var Jake, enda fæddur vestanhafs, þekkti vel Fordson bíl þjálfara síns og byrjaði að ólátast af spenningi þegar Fordson var ekið upp Vatnsendahæðina.

Hundurinn Jake kominn til landsins.

Gottfred Bernhöft, sem var sagður manna sérfróðastur um hunda, hafði haft milligöngu um að fá hundinn og sagði sporhunda geta rakið slóð allt að 170 mílur. Þessi tegund hunda væri sérlega meinlaus og gerði hvorki barni mein, né skepnum. Helstu áhyggjur manna snéru að kostnaði við fóðrun, enda vó hundurinn 100 pund og því talinn þungur á fóðrum. Upplýst var frá heimildum vestanhafs að kostnaðurinn gæti verið milli 15-20 kr. á dag. Sveitin var þó svo heppin að Hvalur h.f. gaf sporhundinum kjöt og var það sagt að hann hámaði í sig um 1,5 tonn af hvalkjöti yfir árið, en það var soðið ofan í hann og gefið ásamt brauði. Hundurinn var afar heilsuhraustur og hafði ekki fengið nema tvær vítamínsprautur um ævina, en hann var undir reglulegu eftirliti dýralæknis.

Sporhundur Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík hann Jake var fyrst í gæslu Sigurðar Þorsteinssonar lögreglumanns og þriðja formanns félagsins, sem sagði að hægt yrði að fljúga með hundinn hvert á land sem væri, þar sem hans væri þörf hverju sinni. Ráðgert var að fara með hann fljótlega eftir komu á Mýrdalsjökul þegar leit yrði að líkum og braki úr bandarískri flugvél sem þar fórst árinu á undan. Jón Guðjónsson, sem starfaði með Hjálparsveit skáta í Hafnarfirði, en var í góðu samstarfi við Flugbjörgunarsveitina Reykjavík, tók síðar við umsjón Jake og þjálfun. Nokkrar sögur fóru af frammistöðu Jake, en mest var hann notaður á vegum lögreglu. Þegar hann fór að eldast var honum fengin tíkin Dúna til sambúðar í kofanum.  Þeim var ætlað að fjölga kyninu því ljóst var að Jake þyrfti brátt að víkja fyrir yngri og dugmeiri starfsbróður, enda sagt að allir sem til þekktu hafi verið sammála um að sporhundur væri ómissandi.

Sigurður M. Þorsteinsson og Jake.

Jake og Dúna náðu ekki að fjölga kyninu hér á landi svo vitað sé, þó Jake hafi átt afkvæmi með öðrum tíkum sem hann hafði haft kynni af. Jón þjálfari Jake vann þess vegna að því að keyptur yrði til landsins nýr sporhundur, enda Jake farinn að eldast. Þó var haft eftir Jóni að íslenski hundurinn gæti líka orðið góður sporhundur ef hann fengi rétta þjálfun, því í stórum fjárrekstrum hafði ekki verið óvanalegt að hundarnir hafi rakið slóða húsbænda sinna þó þeir hafi þurft að leita um allan bæ. En Jón lést skyndilega í júlí árið 1960 áður en kaup á nýjum sporhundi var alveg í höfn og var sagt skarð hoggið í Hjálparsveit skáta við fráfall hans. Þá lagði Reykjavíkurborg til 16.000 kr ásamt öðrum aðilum til kaupa á nýjum sporhundi. Gottfred Bernhöft hafði aftur milligöngu um að útvega nýjan sporhund og kom hann til landsins gamlaársdag 1962 og fragtin enn í boði Loftleiða. Páll Agnar Pálsson yfirdýralæknir hafði eftirlit með heilsu hundsins og aðbúnaði eftir komuna til landsins. Hundurinn var strax skírður Nonni til heiðurs Jóni Guðjónssyni. Margir vildu leggja verkefninu lið og Loftur Bjarnason, forstjóri Hvals, bauðst til að gefa hundinum allt það kjöt sem hann gæti í sig látið. Einnig buðu fleiri aðilar fram matargjafir fyrir hundinn, því ekki átti leitarhundurinn að svelta. Þjónusta Nonna var í boði fyrir land og lýð og var þeim sem óskaði eftir aðstoð bent á að hafa samband við lögregluna í Hafnarfirði eða Reykjavík, Slysavarnarfélag Íslands eða Flugbjörgunasveitina.

Eftir sporhundinn Jake, fyrsta hund hjá Flugbjörgunarsveitinni Reykjavík og á Íslandi til leitar á týndu fólki, liðu svo 60 ár áður en næsti hundur kom til þjónustu hjá Flugbjörgunarsveit Reykjavíkur. Það var blendingurinn Syrpa. Hún er frá bænum Varghól úr Holtunum, þó sannarlega enginn vargur sé heldur prúðmenni mikið. Hún er af ættum fjárhunda, aðallega border collie með ögn af genum frá íslensku fjárhundakyni. En þráhyggjuna fyrir boltum og leit hefur hún klárlega frá border collie erfðamenginu. Hún nær vart 38 pundum og matarkostnaður því hóflegur. Ekki þarf hún heldur eigin kofa, en lætur sér nægja mjúkt bæli undir borði heima hjá þjálfara sínum, Þóru Jónasdóttur. Eftir lofandi frammistöðu Syrpu á snjóflóðaæfingu haustið 2014 ákvað Þóra að hefja störf með FBSR og þjálfa Syrpu upp og árið 2017 var Syrpa komin með A skírteini í snjóflóðaleit og víðavangsleit.

Fyrsta útkall Syrpu var „leitin að Birnu“ þegar fyrsta vísbendingin fannst. Þá leitaði Syrpa stóran hluta hafnarsvæðisins í Hafnarfirði um nóttina, og eftir 4 klst. hvíld var byrjað aftur á hádegi og leitaður bæði hafnargarðinn og golfvellir í um 8 klst. til viðbótar með stuttum hléum. Oftast er miðað við að hundar þurfi hvíld eftir 3 klst leit, en þarna koma þráhyggja Syrpu sér vel og trúin á að hún fengi boltaleik í verðlaun ef hún finndi hinn týnda hélt henni gangandi með fulla athygli í allan þennan tíma. Flest önnur útköll hingað til hafa verið í víðavangsleit, en Syrpa hefur einnig farið í tvö snjóflóðaútköll.

Hunda- og snjóflóðaleitaræfing.

Síðan Syrpa gekk inn í FBSR hafa fleiri hundar og hundaþjálfarar bæst í hópinn svo leitarhundahópur FBSR er aftur orðinn að veruleika. Til viðbótar við Syrpu eru nú þrír hundar sem stefndu á útkallspróf í snjóflóðaleit í mars 2020, einn border collie, einn labrador retriever og einn blendingur af þessum tveim tegundum.