Greinasafn eftir: stjorn

Dróttskátar í heimsókn til FBSR

Við fengum skemmtilega heimsókn í vikunni þegar Dróttskátar frá skátafélaginu Landnemar kíktu til okkar að kynnast björgunarsveitarstarfi FBSR. Dróttskátar eru krakkar á aldrinum 13-15 ára en þau fengu einnig að prófa að síga, júmma og fara í dobblunar reipitog undir dyggri leiðsögn félaga okkar þeirra Sölva, Andreas og Arianne.

Við þökkum þessum flottu krökkum kærlega fyrir heimsóknina!

Ljósmyndir: Arianne Gäwiler

Æfingaferðir á Langjökul og í Bláfjöllum

Um liðna helgi var farið í æfingaferð með B2 nýliðahópin á Langjökul þar sem gönguskíðaárinu var startað. Tjaldað var við skálann í Jaka á föstudagskvöldinu áður en haldið var á jökulinn á laugardeginum. Þó áhersla hafi verið á gönguskíði var engu að síður fríður flokkur tækja með í för þar sem nýliðar m.a. fengu að fræðast um umgengni tækja sveitarinnar. Bílaflokkur sló svo upp í grillveislu á laugardagskvöldinu fyrir alla.

B1 Nýliðahópurinn fór á sama tíma í gönguskíðaferð í Bláfjöllum.

Vel heppnaðar æfingaferðir og nægur snjór eins og sést á meðfylgjandi ljósmyndum.

Ljósmyndir: Inga Hrönn og Steinar Sigurðsson.

Gleðilegt ár!

Flugbjörgunarsveitin Reykjavík óskar ykkur öllum gleðilegs nýs árs og þökkum við innilega fyrir stuðninginn á fyrri árum!

Nýliðastarfið fór af stað á ný eftir mikla fjáraflanavertíð í desember en FBSR heldur úti jólatrjáasölu og flugeldasölu yfir desember mánuð. Það er með ólíkindum að sjá tvö slík stór verkefni verða að veruleika ár eftir ár við uppsetningu sölustaða flugelda strax eftir tiltekt á jólatrjáasölunni.

Fyrsta mál á dagskrá um nýliðna helgi var Snjóflóð 1 og 2 þar sem báðir nýliðahóparnir okkar æfðu réttu handtökin í leit í snjóflóði og eins að kunna að lesa vel í aðstæður, en öryggi björgunarmanns er alltaf númer 1, 2 og 3.

Meðfylgjandi mynd er af hópnum ásamt frábærum leiðbeinendum.

Flugslysaæfing

Á laugardaginn síðastliðinn fór fram umfangsmikil flugslysaæfing þar sem félagar frá FBSR tóku þátt og nýliðar okkar einnig, bæði sem björgunarfólk og sem leikarar. Æfingin er mikilvægur þáttur þess að æfa samhæfingu og viðbragðsáætlanir á milli fjölmargra viðbragðsaðila. Þátttakendur voru allt frá starfsmönnum ISAVIA til lögreglu, sjúkraflutningamanna, björgunarfólks, slökkviliðs og margra annarra viðbragðsaðila.

Ljósmyndir: Inga Hrönn, Arianne Gäwiler, Bergþór Jónsson.

Neyðarkall til þín!

Dagana 30. október til 3. nóvember fer fram sala á Neyðarkallinum og líkt og síðustu ár verðum við í Flugbjörgunarsveitinni Reykjavík á hinum ýmsu sölustöðum.

Sala á Neyðarkallinum er ein stærsta fjáröflun sveitarinnar og gríðarlega mikilvægur hlekkur í því að halda úti björgunarsveit og gera okkur kleift að þjálfa nýja og eldri félaga, viðhalda tækjum og margt fleira.

Við vonum innilega að þið takið vel á móti félögum okkar sem verða m.a. hér og þar í Kringlunni, Mjóddinni, í Garðheimum, Austurveri og Bónus í Norðlingaholti.

Eins bendum við fyrirtækjum og öðrum áhugasömum á að hægt er að kaupa stóran Neyðarkall af sveitinni. Hafið samband á [email protected] fyrir frekari upplýsingar.

Við hlökkum til að taka á móti ykkur með bros á vör næstu daga!

Námskeiðshelgin mikla

Nýliðar í B2 tóku námskeið í félagabjörgun sl. helgi og fóru æfingar meðal annars fram á Sólheimajökli. Á meðan voru nýliðar í B2 í fyrstu hjálp 1 en námskeiðið fór fram í Reykjavík. Bæði námskeið heppnuðust vel en svo að svona stór námskeiðshelgi gangi upp þurfa margir að koma að verki.

Við hjá FBSR erum heppin að eiga reynslumikið fólk að á mörgum sviðum, líkt og sást um helgina, og færum við okkar félögum sem leiðbeindu og kenndu okkar bestu þakkir fyrir. Einnig þökkum við þeim fjölmörgu sem tóku að sér það mikilvæga verk að leika sjúklinga á sjúkraæfingunum.

Ljósmyndir: Arianne Gäwiler, Ingvi Stígsson og Inga Hrönn.

Tindfjallaferð, óveðursnámskeið og sveitaræfing!

Það var heldur betur nóg um að vera hjá FBSR um nýliðna helgi.


Nýliðar í B1 fóru í æfingaferð í Tindfjöll og gistu þar 2 nætur í tjaldbúðum. Yfir helgina var áhersla á rötun þar sem helsta vopnið var hið klassíska par: Kort og áttaviti! Nýliðarnir fengu þó góðan undirbúning fyrir helgina þar sem farið var yfir grunnatriði í rötun, útreikninga á staðsetningu og hnit og veðurspáin stúderuð enda Tindfjöll ekki þekkt fyrir veðursæld. Þrátt fyrir nístingskulda lék veðrið vel við Tindfjallagesti.

Nýliðar í B2 þreyttu námskeið í Óveðri og björgun verðmæta. Þau fengu kjöraðstæður til æfinga enda langöruggast að æfa slíkt í blíðskaparveðri. Á sunnudeginum var svo slegið til sveitaræfingar með inngengnum og B2 þar sem áhersla var lögð á leitartækni ásamt bland í poka af fyrstu hjálp og fleiri nytsamlegum æfingum.

Ljósmyndir:
Samúel Þór Hjaltalín, Snædís Perla Sigurðardóttir, Ingvi Stígsson og Þórður Björn Sigurðsson.

Fjölskyldudagur

Í dag, sunnudaginn 29. september, var haldinn fjölskyldudagur fyrir félaga FBSR og aðstandendur þeirra. Börnin gátu komið með slasaða eða veika bangsa til aðhlynningar, klifið var í klettum, farið í hina ýmsu leiki, grillaðar pylsur og margt fleira. Veðrið lék við okkur í dag og má með sanni segja að fjölskyldudagarnir séu orðnir ein skemmtilegasta hefðin innan sveitarinnar.
Við þökkum öllum þeim sem komu að skipulagi og aðstoðuðu við að gera daginn ógleymanlegan fyrir félaga og fjölskyldur þeirra.

Ljósmyndir: Eyþór Kári Eðvaldsson.

Nýliðaþjálfun 2024-2025 er hafin

Nú er haustið komið með sínum gulu og appelsínugulu viðvörunum⚠️ og það þýðir: Nýliðaþjálfun FBSR er hafin á ný!
Nýliðahóparnir okkar, B1 og B2, héldu af stað í sína fyrstu æfingaferð þetta haustið um liðna helgi ásamt þjálfurum þar sem m.a. var farið yfir ferðamennsku og rötun. Nýliðarnir fengu kjöraðstæður til æfinga fyrir þessi mikilvægu atriði 🙌

Ljósmyndir: Ásta Ægisdóttir og Þorsteinn Ásgrímsson Melén.