Greinasafn fyrir merki: Nýliðar

Nýliðaþjálfun 2024-2025 er hafin

Nú er haustið komið með sínum gulu og appelsínugulu viðvörunum⚠️ og það þýðir: Nýliðaþjálfun FBSR er hafin á ný!
Nýliðahóparnir okkar, B1 og B2, héldu af stað í sína fyrstu æfingaferð þetta haustið um liðna helgi ásamt þjálfurum þar sem m.a. var farið yfir ferðamennsku og rötun. Nýliðarnir fengu kjöraðstæður til æfinga fyrir þessi mikilvægu atriði 🙌

Ljósmyndir: Ásta Ægisdóttir og Þorsteinn Ásgrímsson Melén.

Nýliðakynningar 2023

Flugbjörgunarsveitin Reykjavík verður með tvær nýliðakynningar í ár, klukkan 20 mánudaginn 28. ágúst og þriðjudaginn 29. ágúst. Kynningarnar fara fram í húsnæði sveitarinnar við Flugvallarveg 7. Frekari upplýsingar verða settar á Facebook síðu FBSR þegar nær dregur.

Tilgangur nýliðaþjálfunar FBSR er að þjálfa upp einstaklinga til að vera fullgildir útkallsfélagar í FBSR og SL. Nýliðaþjálfun hefst að hausti og lýkur á aðalfundi að vori, um nítján mánuðum síðar. Nýliðaþjálfun er skipt í tvö þjálfunartímabil: B1 sem er fyrra ár og B2 sem er seinna ár. Hvort ár eru tvær annir en þó ein samfelld dagskrá.

Til að geta gerst nýliði í FBSR þarf að uppfylla eftirtalinn skilyrði:

  • Að verða að minnsta 18 ára á því ári sem þjálfun byrjar.
  • Að hafa hreint og óflekkað mannorð.
  • Að vera líkamlega og andlega heilbrigður.
  • Að hafa kynnt sér starfsreglur FBSR svo og siðareglur SL.
  • Hafa þekkingu á íslensku máli og geta bjargað sér á því við daglegar aðstæður og í fjarskiptum við inntöku í sveitina.
  • Að vilja starfa í anda gilda FBSR sem eru liðsheild, traust og hæfni.

Krafist er 100% mætingar á skyldunámskeið og að jafnaði 80% mætingar á hvort þjálfunartímabil fyrir sig (B1 og B2) skv. samræmdu skráningarkerfi nýliðaráðs. Frávik frá þessu eru háð samþykki nýliðaráðs (og að endingu stjórnar FBSR). Sumum námskeiðum lýkur með prófi þar sem tekið er tillit til bæði bóklegrar og verklegrar færni. Öðrum námskeiðum lýkur með námsmati leiðbeinanda. Standast þarf þessar kröfur. Nýliði fær tækifæri til að endurtaka próf samkvæmt reglum Björgunarskóla
SL. Á hvoru ári er ætlast til að nýliðar taki þátt í fjáröflunum sveitarinnar.

Hópurinn sem hefur þjálfun í haust verður á námskeiðum og æfingum annan hvorn þriðjudag og aðra hverja helgi næstu tvo vetur. Dagskráin hefst þriðjudaginn 5. september.

Aðalfundur FBSR 2023

Á aðalfundi Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík í maí síðastliðnum var samþykkt innganga 27 nýrra félaga. Við óskum bæði þeim og sveitinni til hamingju með þessi tímamót!

Á aðalfundi var einnig kjörin ný stjórn og hana skipa nú Magnús Viðar Sigurðsson (formaður), Erla Rún Guðmundsdóttir (varaformaður), Ingvi Stígsson (gjaldkeri), Þóra Margrét Ólafsdóttir (ritari), Anna Finnbogadóttir, Gyða Dröfn Jónudóttir Hjaltadóttir og Ólafur Magnússon.

Meðfylgjandi eru myndir af stærstum hluta nýinngenginna og nýrri stjórn. Gaman er að segja frá því þetta er í fyrsta sinn sem konur eru í meirihluta í stjórn Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík.

Nýliðafréttir

Um liðna helgi var mikið um að vera hjá FBSR, eins og yfirleitt er um nýliðahelgar. Nýliðar á fyrsta ári, B1, sóttu námskeið í fyrstu hjálp en nýliðar á öðru ári, B2, fóru í vetrarfjallamennskuferð á Botnssúlur.

Fyrsta hjálp hjá B1

Það reyndi örlítið á taugarnar hjá B1 um helgina þegar hópurinn sótti maraþonnámskeið í fyrstu hjálp. Sjúkrasvið FBSR hélt utan um námskeiðið en á því er farið yfir ýmsa misalvarlega kvilla og aðstæður sem komið geta upp og rétt viðbrögð kennd og prófuð í öruggum aðstæðum. Þríhyrningakerfið var þar mikið æft, sem og endurlífgun, líkamsskoðun, meðferð sára og fleira.

B1-liðar stóðu sig með mikilli prýði og ljóst að um krafmikinn og áhugasaman hóp er að ræða.

Vetrarfjallamennska hjá B2

Nýliðahópur B2 ásamt fylgiliði hélt á laugardaginn á Botnssúlur. Hópurinn taldi rúmlega 30 manns sem öll byrjuðu gönguna við Svartagil á Þingvöllum. Um helmingur stefndi á Syðstusúlu en hinn helmingurinn á Miðsúlu og náðu báðir hópar að toppa, þó skyggni væri lítið sem ekkert og færið erfitt á köflum.

Á toppnum var ekkert útsýni en stemningin var engu að síður afar góð. Það birti svo til á niðurleiðinni og blöstu Þingvellir þá við hópnum í allri sinni dýrð. Í myndbandinu hér fyrir neðan má upplifa stemninguna hjá Miðsúluhópnum og þar á eftir koma myndir úfrá báðum hópum.