Greinasafn fyrir merki: Slysavarnarfélagið Landsbjörg

Nýliðakynningar 2023

Flugbjörgunarsveitin Reykjavík verður með tvær nýliðakynningar í ár, klukkan 20 mánudaginn 28. ágúst og þriðjudaginn 29. ágúst. Kynningarnar fara fram í húsnæði sveitarinnar við Flugvallarveg 7. Frekari upplýsingar verða settar á Facebook síðu FBSR þegar nær dregur.

Tilgangur nýliðaþjálfunar FBSR er að þjálfa upp einstaklinga til að vera fullgildir útkallsfélagar í FBSR og SL. Nýliðaþjálfun hefst að hausti og lýkur á aðalfundi að vori, um nítján mánuðum síðar. Nýliðaþjálfun er skipt í tvö þjálfunartímabil: B1 sem er fyrra ár og B2 sem er seinna ár. Hvort ár eru tvær annir en þó ein samfelld dagskrá.

Til að geta gerst nýliði í FBSR þarf að uppfylla eftirtalinn skilyrði:

  • Að verða að minnsta 18 ára á því ári sem þjálfun byrjar.
  • Að hafa hreint og óflekkað mannorð.
  • Að vera líkamlega og andlega heilbrigður.
  • Að hafa kynnt sér starfsreglur FBSR svo og siðareglur SL.
  • Hafa þekkingu á íslensku máli og geta bjargað sér á því við daglegar aðstæður og í fjarskiptum við inntöku í sveitina.
  • Að vilja starfa í anda gilda FBSR sem eru liðsheild, traust og hæfni.

Krafist er 100% mætingar á skyldunámskeið og að jafnaði 80% mætingar á hvort þjálfunartímabil fyrir sig (B1 og B2) skv. samræmdu skráningarkerfi nýliðaráðs. Frávik frá þessu eru háð samþykki nýliðaráðs (og að endingu stjórnar FBSR). Sumum námskeiðum lýkur með prófi þar sem tekið er tillit til bæði bóklegrar og verklegrar færni. Öðrum námskeiðum lýkur með námsmati leiðbeinanda. Standast þarf þessar kröfur. Nýliði fær tækifæri til að endurtaka próf samkvæmt reglum Björgunarskóla
SL. Á hvoru ári er ætlast til að nýliðar taki þátt í fjáröflunum sveitarinnar.

Hópurinn sem hefur þjálfun í haust verður á námskeiðum og æfingum annan hvorn þriðjudag og aðra hverja helgi næstu tvo vetur. Dagskráin hefst þriðjudaginn 5. september.

Viðbragðsvaktir FBSR í sumar

Í sumar stóð FBSR tvær viðbragðsvaktir. Þá fyrri í Dreka, norðan Vatnajökuls og þá síðari í Skaftafelli. Um er að ræða samvinnuverkefni björgunarsveita á landinu, sem skipta með sér sumrinu. Vakt FBSR sinnti ýmisskonar aðstoð við ferðalanga en tíminn var einnig nýttur til æfinga og landkönnunar.

Meðal verkefna var aðhlynning eftir lítils háttar meiðsli, aðstoð vegna bilaðra bíla á afskekktum stöðum og vegalokun vegna óveðurs. Að auki var unnið að því með landvörðum að kanna og merkja leiðir og leiðbeina ferðalöngum.

Frítíminn var einnig vel nýttur til bæði æfinga og styttri skemmtiferða. Frá Dreka var gengið á Herðubreið og keyrt í Kverkfjöll, auk þess sem straumvatnsbúnaðurinn var prófaður og -tæknin æfð við fossinn Skínandi í Svartá.

Í Skaftafelli var svo gengið á Kristínartinda og farið inn í Núpsstaðaskóga, auk þess sem ísklifur og jöklaganga var æfð á nærliggjandi jöklum.

Þakkir til styrktaraðila

Sveitin leitar árlega til fyrirtækja í matvælaiðnaði til að fá matarstyrki fyrir vaktirnar. Þó ýmsir sjái sér ekki fært að styðja starfið með þessum hætti eru fjölmörg fyrirtæki sem betur fer aflögufær og sum hver hjálpa jafnvel til ár eftir ár. Fyrir það erum við afskaplega þakklát!

Við viljum því formlega þakka eftirtöldum aðilum kærlega fyrir veittan stuðning við að fæða þátttakendur í viðbragðsvöktum FBSR árið 2020:

  • Bæjarins Beztu Pylsur
  • Mjólkursamsalan
  • Ölgerðin
  • Myllan
  • Ó. Johnson og Kaaber
  • Kaupfélag Skagfirðinga (Vogabær)
  • Innnes
  • Grímur kokkur
  • Þykkvabæjar
  • Ásbjörn Ólafsson ehf.
  • Nesbú
  • Flúðasveppir
  • Vilko
  • Olifa
  • Kjarnafæði

Við viljum einnig nota tækifærið til að þakka Björgunarsveitinni Súlum og Björgunarsveitinni Kára fyrir afnot af aðstöðu þeirra á Akureyri og í Skaftafelli.

Minningardagur um fórnarlömb umferðaslysa

Fjöldi viðbragðsaðila kom saman til að heiðra minningu fórnarlamba umferðaslysa.

Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík tók á sunnudaginn þátt í minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa, ásamt öðrum björgunarsveitum og viðbragðsaðilum. Í Reykjavík fór athöfnin fram við þyrlupallinn við Landspítalann í Fossvogi og þar kom fjöldi viðbragðsaðila og annara gesta saman til að heiðra minningu þeirra sem látist hafa í umferðinni. Í ár var sjónum þó beint sérstaklega að aðstandendum.

Sambærilegar athafnir voru haldnar víða um landið á vegum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Á Facebook síðu félagsins kemur fram að  „Þakklæti til viðbragðsaðila, fyrir fórnfýsi og óeigingjarnt starf sitt við björgun og aðhlynningu á vettvangi, [hafi verið] ofarlega í huga þeirra sem fluttu ávörp.“

Guðjón, Ívar og Bergþór, nýliðar í FBSR, sóttu athöfnina ásamt fleiri nýliðum og inngengnum félögum sveitarinnar.