Greinasafn fyrir flokkinn: Nýliðastarf

Upphitunarprógram FBSR

Eins og fram kom í fjarkynningu um nýliðastarf FBSR fyrir nokkrum vikum var ákveðið að bíða með að hefja nýliðaþjálfunina formlega á meðan COVID-19 er kraumandi í samfélaginu og sóttvarnaraðgerðir síbreytilegar.

Þess í stað bjóðum við áhugasömum að fræðast, kynnast sveitinni og hita upp fyrir alvöru þjálfun á röð fjarfunda. Netprógramið er þannig fyrst og fremst hugsað sem upphitun fyrir verðandi nýliða en það nýtist þó einnig inngegnum félögum í FBSR, t.d. þeim sem hafa dottið út úr starfi og vilja koma aftur.

Þau Ragna Lára Ellertsdóttir, Hjalti Björnsson og Kristjana Ósk Birgisdóttir hafa umsjón með prógraminu en ýmsir gestir munu koma að fundunum sjálfum. Áætlað er að þeir verði á dagskrá annan hvern þriðjudag næstu vikur og mánuði.

Heildarskipulag prógramsins er ekki fullbúið en verið er að vinna með ýmsar hugmyndir, t.d kynningu á störfum flokka innan FBSR, grunnatriði rötunar (GPS og áttaviti) og jeppafræði, auk þess sem vel valdar hetjusögur félaga munu áreiðanlega fá sitt pláss.

Næsti fundur á þriðjudag 6. október

Á fyrsta fundi, þann 22. september sl., var farið í upprifjun og grunnatriði fyrir ferðamennsku. Sveinn Hákon Harðarson verður svo með næsta fund, þann 6. október nk., og ætlar hann þar að fara yfir hlutverk björgunarsveita og störf þeirra. Sjá Facebook viðburð.

Þegar hafa 30 manns skráð sig í prógramið og ennþá hægt að skrá sig hér. Þó flestum fundum verði deilt á opinni Facebook síðu sveitarinnar gætu einhverjir viðburðir orðið lokaðir og því er vissara að skrá sig á listann.

Fjarkynning FBSR um nýliðastarf haustið 2020

Undanfarnar vikur hafa okkur borist fjölmargar fyrirspurnir um upphaf og fyrirkomulag á nýliðaþjálfun sveitarinnar í haust. Okkur þykir alltaf gaman að heyra af áhuga á starfinu en þar sem okkar margrómaða nýliðaþjálfun krefst mikillar nándar (t.d. í tjaldferðum og við æfingar á fyrstu hjálp) hefur verið ákveðið að bíða með að hefja nýliðaþjálfun formlega þar til COVID-19 lætur sig hverfa.

Í millitíðinni bjóðum við áhugasömum að hita upp fyrir alvöru þjálfun og kynnast starfinu á röð fjarfunda í haust. Meðal efnis á fjarfundaröðinni verður umfjöllun um ferðamennsku, rötun, alls konar græjur og margt fleira sem tengist björgunarsveitarstarfinu.

Fjarkynning á upphitunarprógramminu verður á morgun, þriðjudaginn 8. september kl. 20. Kynningin fer fram yfir netið og verður hlekkur settur á Facebook viðburðinn þegar nær dregur. Fjarfundaröðin er frábært tækifæri fyrir fólk til að kynnast starfi FBSR án skuldbindinga eða tilkostnaðar og hvetjum við öll áhugasöm að fylgjast með kynningunni á morgun.

Nýliðafréttir

Um liðna helgi var mikið um að vera hjá FBSR, eins og yfirleitt er um nýliðahelgar. Nýliðar á fyrsta ári, B1, sóttu námskeið í fyrstu hjálp en nýliðar á öðru ári, B2, fóru í vetrarfjallamennskuferð á Botnssúlur.

Fyrsta hjálp hjá B1

Það reyndi örlítið á taugarnar hjá B1 um helgina þegar hópurinn sótti maraþonnámskeið í fyrstu hjálp. Sjúkrasvið FBSR hélt utan um námskeiðið en á því er farið yfir ýmsa misalvarlega kvilla og aðstæður sem komið geta upp og rétt viðbrögð kennd og prófuð í öruggum aðstæðum. Þríhyrningakerfið var þar mikið æft, sem og endurlífgun, líkamsskoðun, meðferð sára og fleira.

B1-liðar stóðu sig með mikilli prýði og ljóst að um krafmikinn og áhugasaman hóp er að ræða.

Vetrarfjallamennska hjá B2

Nýliðahópur B2 ásamt fylgiliði hélt á laugardaginn á Botnssúlur. Hópurinn taldi rúmlega 30 manns sem öll byrjuðu gönguna við Svartagil á Þingvöllum. Um helmingur stefndi á Syðstusúlu en hinn helmingurinn á Miðsúlu og náðu báðir hópar að toppa, þó skyggni væri lítið sem ekkert og færið erfitt á köflum.

Á toppnum var ekkert útsýni en stemningin var engu að síður afar góð. Það birti svo til á niðurleiðinni og blöstu Þingvellir þá við hópnum í allri sinni dýrð. Í myndbandinu hér fyrir neðan má upplifa stemninguna hjá Miðsúluhópnum og þar á eftir koma myndir úfrá báðum hópum.

Nýliðakynningar 28. og 30. ágúst

Kynning á nýliðaþjálfun FBSR verður haldin kl. 20 þann 28. ágúst og endurtekin kl. 20 þann 30. ágúst. Kynningin verður í höfuðstöðvum FBSR að Flugvallarvegi 7.

Þjálfunin tekur tvo vetur, sept.-maí 2018-2020. Nýliðar læra á þeim tíma að bjarga sjálfum sér og öðrum við ýmsar aðstæður. Meðal námsgreina eru ferðamennska, rötun, GPS, fyrsta hjálp, fjarskipti, fjallamennska, fjallabjörgun, snjóflóð, straumvatnsbjörgun, leitartækni og jeppamennska. Að auki taka nýliðar virkan þátt í ýmsu öðru starfi sveitarinnar, svo sem fjáröflunum.

Kíkið í heimsókn ef þið hafið áhuga á fjölbreyttu og gefandi starfi með björgunarsveit!

Facebook viðburður fyrri kynningar.

Facebook viðburður seinni kynningar.

Nýliðakynningar haustið 2017

Við erum að leita að öflugu fólki sem hefur áhuga á að starfa í björgunarsveit, hvort sem áhuginn liggur í fjallamennsku, jeppum, björgunarskipulagi, fyrstu hjálp, nýstárlegum leitaraðgerðum eins og drónum eða öðrum sviðum björgunarstarfs. Þann 29. og 31 ágúst verða haldnar nýliðakynningar þar sem áhugasamir einstaklingar geta kynnt sér nýliðastarf sveitarinnar, þá þekkingu og reynslu sem byggð er upp, kröfur auk félagslega þáttarins.

Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík var stofnuð árið 1950 og hefur alla tíð horft til þess að vera leiðandi á sviði björgunarstarfa hér á landi. Sveitin sérhæfir sig í björgun á landi og má rekja stofnun hennar til þess að bæta þurfti úr sérhæfðri fjallabjörgun hérlendis.

Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, sveitin þróast og í dag er hún byggð upp af fjölmörgum öflugum björgunarflokkum. Meðal þeirra eru fjallaflokkur, leitarflokkur, sleðaflokkur, fallhlífaflokkur, bílaflokkur auk almenns björgunarflokks.

Nýliðaþjálfunin nær yfir tvo vetur, en á því tímabili lærir fólk helstu atriðin í fjallamennsku, leitartækni, fjallabjörgun, ferðamennsku og rötun, fyrstu hjálp og að geta bjargað sér í íslenskri náttúru í hvaða aðstæðum sem er. Nýliðar sveitarinnar taka einnig fullan þátt í fjáröflunum sveitarinnar og fjölmörgum öðrum viðburðum á þjálfunartímabilinu.

Að þjálfun lokinni verða nýliðar fullgildir meðlimir og fara þar með á útkallsskrá.

Aldurstakmark 18 ára.

Fyrir þá sem hafa áhuga eru hér tenglar á Facebook viðburði fyrir kynningarnar:

Þriðjudagurinn 29. ágúst

Fimmtudagurinn 31. ágúst

Útkallsæfing B2 – síðustu æfingar fyrir inngöngu

Á mánudagskvöldið mættu B2-liðar sem eru að klára tveggja ára þjálfun sína á útkallsæfingu í boði heimastjórnar. Ásdís og Haukur Elís fóru þar yfir allskonar atriði sem gott er að hafa í huga þegar kemur að kallinu, hvað þurfi að hafa í pokanum, hvernig eigi að græja sig fyrir mismunandi aðstæður og annað mikilvægt sem þarf að hafa í huga áður en lagt er af stað úr húsi.

Þá var farið yfir hlutverk heimastjórnar og þau tæki sem hópurinn hefur yfir að búa sem gagnast til að bæta útkallshæfni sveitarinnar og halda utan um allskonar upplýsingar í tengslum við útköll.

20160502_203919

Ásdís predikar helstu atriðin sem þarf að hafa í huga áður en haldið er úr húsi.

Að lokum voru haldnar þrjár stuttar verklegar útkallsæfingar sem skila sér vonandi í enn flottari hóp þegar kemur að næstu útköllum. Til aðstoðar á æfingunni voru þeir Eyþór Kári, Hákon og Þorsteinn.

Fyrsta hjálp hjá B1 á Laugarvatni

12191695_10153797493738939_7011999308505258139_n

Síðustu helgina í október skunduðu fjórtán nýliðar á Laugarvatn til að taka þátt í Fyrstu hjálp I. Helgin samanstóð af fyrirlestrum, verklegri kennslu og æfingum í og við húsnæði Menntaskólans. Kennslan gekk vonum framar og óhætt að segja að allir hafi staðið sig vel í þáttöku og námi. Að vanda var haldin stór sjúkraæfing á laugardagskvöld og sönnuðu nýliðarnir ágæti sitt við björgunarstörfin meðan aðrir áttu leiksigur í hlutverki sjúklinga. Mötuneytið framreiddi ágætis kræsingar fyrir okkur í flest mál og gist var í kennslustofum.  Veðrið lék við okkur alla helgina og því voru margar æfingar haldnar undir berum himni.

Það er ánægjulegt að segja frá því að alls komu tólf inngengnir að helginni og færum við þeim bestu þakkir fyrir þáttökuna. Allt gekk að óskum þrátt fyrir „umferðaróhapp“ þristsins sem „keyrði út af“ á heimleið með tilheyrandi „stórtjóni“ á þremur leiðbeinendum, svo „kalla þurfti þyrlu“ til. En snör handtök nýliðanna sýndu að margt höfðu þau lært þessa helgi; með þríhyrningana á kristaltæru sem og að meta lífsmörk, hlúa að áverkum, koma sjúklingi fyrir á börum og veita andlegan stuðning. Svo leiðbeinendurnir hresstust furðu fljótt og haldið var áfram heim á leið eftir vel heppnaða helgi og góða stemningu í hópnum.
12189990_10153797493148939_7318204497702479929_n

Fyrsta ferð B1

Nýliðaþjálfun Flugbjörgunarsveitarinnar skiptist í tvö ár, B1 og B2. Nýliðar á fyrsta ári (B1)

Mynd/Halli - Eins og sjá má var veðrið eiginlega of gott þessa helgi :)

Mynd/Halli – Eins og sjá má var veðrið eiginlega of gott þessa helgi 🙂

héldu í sína fyrstu ferð þann 12. og 13. september.   Auk nýliða mættu nokkrir galvarskir, inngengnir Flubbar – þ.m.t tveir fulltrúar úr stjórn.

Lagt var upp frá Botnsdal í Hvalfirði og gengið upp að hæsta (eða næsthæsta!) fossi landsins, Glym þar sem ófáarmyndir voru teknir og ófáum fötum pakkað þar sem veðrið var eins og best verður kosið á þessum árstíma.

Þaðan lá leiðin norðvestan við Hvalfellið, framhjá Breiðafossi að Hvalvatni þar sem ákveðið var að ganga sunnan megin við vatnið til þess að að freista þess að finna Arneshelli, sem þar ku eiga heimili.  Hellirinn reyndist hinsvegar af heiman þennan dag og því lá leiðin meðfram vatninu, undir Hvalfellinu þar sem nýliðarnir fengu fyrstu reynslu sína í skriðubrölti og grunnáfanga í vaði 101.

Mynd/Halli - Fyrsta uppgangan af fjölmörgum næstu tvö árin.

Mynd/Halli – Fyrsta uppgangan af fjölmörgum næstu tvö árin.

Eftir göngu með fram Hvalvatni (og nokkrar sólbaðsstundir) lá leiðin að fallegum  náttstað við Krókatjarnir þar sem tjöldum var slegið upp og prímusarnir mundaðir.

Á sunnudagsmorgni voru teknar léttar Mullersæfingar við morgunskúri en um leið og lagt var af stað var blessuð sólin aftur mætt og skyggni því rúmlega ágætt þegar hópurinn rölti sem leið lá yfir Gagnheiði, meðfram Súlnabergi Botnssúla í suðurátt að Svartagili.  Þegar á Þingvelli var komið, beið fagurgræn rúta eftir mannskapnum og ferðjaði í bæinn.

 

 

Mynd/Halli - Náttstaðurinn við Krókatjarnir.

Mynd/Halli – Náttstaðurinn við Krókatjarnir.

Um kvöldið fór hersingin á HamborgaraFabrikkuna og fékk sér hamborgara í félagsskaps B2, sem komu syndandi.

Mynd/Halli - Farastjórinn sjálfur, Halli Kristins.

Mynd/Halli – Fararstjórinn sjálfur, Halli Kristins.

 

Skráning í nýliðastarf FBSR

Viljum þakka öllum kærlega fyrir komuna í kvöld. Hægt er að skrá sig í starfið gegnum eftirfarandi form, en það er nokkuð ítarlegra en nafnalistinn sem var notaðu í kvöld. Í framhaldinu verður emailið sem verður skráð hér notað til að senda
út frekari upplýsingar um starfið og dagskrána. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest í komandi viku.