Flugbjörgunarsveitin Reykjavík verður með tvær nýliðakynningar í ár, klukkan 20 mánudaginn 28. ágúst og þriðjudaginn 29. ágúst. Kynningarnar fara fram í húsnæði sveitarinnar við Flugvallarveg 7. Frekari upplýsingar verða settar á Facebook síðu FBSR þegar nær dregur.
Tilgangur nýliðaþjálfunar FBSR er að þjálfa upp einstaklinga til að vera fullgildir útkallsfélagar í FBSR og SL. Nýliðaþjálfun hefst að hausti og lýkur á aðalfundi að vori, um nítján mánuðum síðar. Nýliðaþjálfun er skipt í tvö þjálfunartímabil: B1 sem er fyrra ár og B2 sem er seinna ár. Hvort ár eru tvær annir en þó ein samfelld dagskrá.
Til að geta gerst nýliði í FBSR þarf að uppfylla eftirtalinn skilyrði:
- Að verða að minnsta 18 ára á því ári sem þjálfun byrjar.
- Að hafa hreint og óflekkað mannorð.
- Að vera líkamlega og andlega heilbrigður.
- Að hafa kynnt sér starfsreglur FBSR svo og siðareglur SL.
- Hafa þekkingu á íslensku máli og geta bjargað sér á því við daglegar aðstæður og í fjarskiptum við inntöku í sveitina.
- Að vilja starfa í anda gilda FBSR sem eru liðsheild, traust og hæfni.
Krafist er 100% mætingar á skyldunámskeið og að jafnaði 80% mætingar á hvort þjálfunartímabil fyrir sig (B1 og B2) skv. samræmdu skráningarkerfi nýliðaráðs. Frávik frá þessu eru háð samþykki nýliðaráðs (og að endingu stjórnar FBSR). Sumum námskeiðum lýkur með prófi þar sem tekið er tillit til bæði bóklegrar og verklegrar færni. Öðrum námskeiðum lýkur með námsmati leiðbeinanda. Standast þarf þessar kröfur. Nýliði fær tækifæri til að endurtaka próf samkvæmt reglum Björgunarskóla
SL. Á hvoru ári er ætlast til að nýliðar taki þátt í fjáröflunum sveitarinnar.
Hópurinn sem hefur þjálfun í haust verður á námskeiðum og æfingum annan hvorn þriðjudag og aðra hverja helgi næstu tvo vetur. Dagskráin hefst þriðjudaginn 5. september.