Greinasafn fyrir flokkinn: Atburðir

Flugbjörgunarsveitin Reykjavík 70 ára

Í dag fagnar Flugbjörgunarsveitin Reykjavík 70 ára afmæli sínu, en á þessum degi árið 1950 kom hópur manna saman í kjölfar Geysis slyssins og ákvað að stofna félag sem hefði það að markmið „fyrst og fremst að aðstoða við björgun manna úr flugslysum og leita að flugvélum sem týnst hafa. Í öðru lagi að hjálpa þegar aðstoðar er beðið og talið er að sérþekking og tæki félagsins geti komið að gagni.“

Í dag koma á bilinu 200-300 manns að starfi sveitarinnar á ári hverju, bæði við æfingar, útköll og fjáraflanir. Í tilefni þess verðum við með afmælisstreymi á Facebook síðu sveitarinnar þar sem við lítum aðeins um öxl og förum yfir söguna og heyrum í félögum.

Hægt er að finna streymið í meðfylgjandi tengli.

Húsnæði Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík í bröggum við Nauthólsvík frá 1964-1990.

Aðalfundur FBSR 2020

Aðalfundur Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík var haldinn með pompi, prakt og tveggja metra sætisbili þann 10. september sl. Í venjulegu árferði er aðalfundur sveitarinnar haldinn að vori en vegna sóttvarnaaðgerða síðastliðið vor var ákveðið að fresta honum til hausts.

Aðalfundurinn var haldinn á Hótel Natura, til móts við bækistöðvar FBSR í Öskjuhlíðinni, og þangað mættu ríflega 130 félagar. Að venju var farið yfir skýrslu stjórnar og ársreikninga áður en komið var skemmtilegasta dagskrárliðnum, inntöku nýrra félaga. Árgangurinn var sérstaklega stór og öflugur í ár og inn gengu 28 nýir Flubbar. Hamingjuóskir fá bæði þau nýinngengnu og sveitin öll með frábæra viðbót við hópinn!

Nýinngengir ásamt nýliðaþjálfurum og fráfarandi formanni stjórnar (Mynd: Jón Svavarsson).

Loks voru kjörnir nýir fulltrúar í nokkrar stöður í stjórn, m.a. formannsembættið, og er stjórn FBSR starfsárið 2020-2021 skipuð eftirfarandi:

  • Formaður: Viktor Örn Guðlaugsson
  • Varaformaður: Sveinn Hákon Harðarson
  • Gjaldkeri: Ingvi Stígsson
  • Meðstjórnendur:
    • Andrea Burgherr
    • Ásta Ægisdóttir
    • Leó Gunnar Víðisson
    • Ólafur Magnússon
Stjórn FBSR 2020-2021 (Mynd: Jón Svavarsson)

Um leið og við óskum nýjum stjórnarmeðlimum til hamingju með kjörið viljum við þakka fráfarandi stjórnarfólki fyrir vel unnin störf. Sérstakar þakkir fær Hjalti Björnsson, formaður FBSR 2017-2020, fyrir sitt stóra framlag í þágu sveitarinnar.

Ljósmyndir tók Jón Svavarsson.

Fjarkynning FBSR um nýliðastarf haustið 2020

Undanfarnar vikur hafa okkur borist fjölmargar fyrirspurnir um upphaf og fyrirkomulag á nýliðaþjálfun sveitarinnar í haust. Okkur þykir alltaf gaman að heyra af áhuga á starfinu en þar sem okkar margrómaða nýliðaþjálfun krefst mikillar nándar (t.d. í tjaldferðum og við æfingar á fyrstu hjálp) hefur verið ákveðið að bíða með að hefja nýliðaþjálfun formlega þar til COVID-19 lætur sig hverfa.

Í millitíðinni bjóðum við áhugasömum að hita upp fyrir alvöru þjálfun og kynnast starfinu á röð fjarfunda í haust. Meðal efnis á fjarfundaröðinni verður umfjöllun um ferðamennsku, rötun, alls konar græjur og margt fleira sem tengist björgunarsveitarstarfinu.

Fjarkynning á upphitunarprógramminu verður á morgun, þriðjudaginn 8. september kl. 20. Kynningin fer fram yfir netið og verður hlekkur settur á Facebook viðburðinn þegar nær dregur. Fjarfundaröðin er frábært tækifæri fyrir fólk til að kynnast starfi FBSR án skuldbindinga eða tilkostnaðar og hvetjum við öll áhugasöm að fylgjast með kynningunni á morgun.

Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík 69 ára

Þann 27. nóvember sl., voru liðin 69 ár síðan hópur góðra manna mætti á framhalds stofnfund Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík. Þar var gengið var frá lagamálum og öðru sem fylgdi stofnun félagsins. Þremur dögum áður, eða 24. nóvember, hafði formlegur stofndagur verið en þá mættu 28 menn til að ræða stofnun sveitarinnar auk þess sem stjórn var skipuð, farið var yfir tilgang sveitarinnar og sett í gang lagaskipun sem svo var kláruð á framhaldsfundinum 27. nóvember.

Báðir þessir dagar hafa verið taldir til stofndags/afmælisdags sveitarinnar, en 24. nóvember hefur þó alla jafna verið talinn hinn eini rétti dagur og má meðal annars sjá það á fánum sem sveitin hefur gert sem og visku hinna eldri félaga. Þrátt fyrir að sá dagur sé liðinn finnst mér rétt að segja til hamingju með afmælið!

Á næsta ári verður svo stórt afmælisár, 70 ára afmælið. Afmælisnefnd hefur verið starfandi síðustu mánuði til að skipuleggja heljarinnar dagskrá á afmælisárinu, en hún mun forlega byrja í flugeldakaffinu 29. desember. Frekari dagskrá verður kynnt á næstunni og ættu allir að finna þar eitthvað við sitt hæfi, hvort sem það eru virkustu félgara sveitarinnar, aðrir sem eru lítið eða ekkert virkir en vilja kynnast starfinu betur á ný, þeir sem eru í besta forminu og vilja hlaupa upp öll fjöll eða þeir sem vilja frekar kynna sér sögu sveitarinnar eða koma á fjölskylduviðburði og kynna sveitarstarfið fyrir fjölskyldunni.

Minningardagur um fórnarlömb umferðaslysa

Fjöldi viðbragðsaðila kom saman til að heiðra minningu fórnarlamba umferðaslysa.

Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík tók á sunnudaginn þátt í minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa, ásamt öðrum björgunarsveitum og viðbragðsaðilum. Í Reykjavík fór athöfnin fram við þyrlupallinn við Landspítalann í Fossvogi og þar kom fjöldi viðbragðsaðila og annara gesta saman til að heiðra minningu þeirra sem látist hafa í umferðinni. Í ár var sjónum þó beint sérstaklega að aðstandendum.

Sambærilegar athafnir voru haldnar víða um landið á vegum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Á Facebook síðu félagsins kemur fram að  „Þakklæti til viðbragðsaðila, fyrir fórnfýsi og óeigingjarnt starf sitt við björgun og aðhlynningu á vettvangi, [hafi verið] ofarlega í huga þeirra sem fluttu ávörp.“

Guðjón, Ívar og Bergþór, nýliðar í FBSR, sóttu athöfnina ásamt fleiri nýliðum og inngengnum félögum sveitarinnar.

Nýliðakynningar 28. og 30. ágúst

Kynning á nýliðaþjálfun FBSR verður haldin kl. 20 þann 28. ágúst og endurtekin kl. 20 þann 30. ágúst. Kynningin verður í höfuðstöðvum FBSR að Flugvallarvegi 7.

Þjálfunin tekur tvo vetur, sept.-maí 2018-2020. Nýliðar læra á þeim tíma að bjarga sjálfum sér og öðrum við ýmsar aðstæður. Meðal námsgreina eru ferðamennska, rötun, GPS, fyrsta hjálp, fjarskipti, fjallamennska, fjallabjörgun, snjóflóð, straumvatnsbjörgun, leitartækni og jeppamennska. Að auki taka nýliðar virkan þátt í ýmsu öðru starfi sveitarinnar, svo sem fjáröflunum.

Kíkið í heimsókn ef þið hafið áhuga á fjölbreyttu og gefandi starfi með björgunarsveit!

Facebook viðburður fyrri kynningar.

Facebook viðburður seinni kynningar.

13 nýir flubbar

Nýir félagar, teknir inn á aðalfundir í maí 2018, ásamt öðrum nýliðaþjálfaranum þeirra, honum Matta.

Aðalfundur flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík var haldinn á miðvikudaginn síðastliðinn. Meðal reglulegra aðalfundastarfa var inntaka nýrra félaga. Þetta árið voru teknir inn 13 nýir félagar:

  • Arnar Haukur Rúnarsson
  • Birgir Hrafn Sigurðsson
  • Corinna Hoffmann
  • Elísabet Ósk Maríusdóttir
  • Höskuldur Tryggvason
  • Ingibjörg K. Halldórsdóttir
  • Ingvar Júlíus Guðmundsson
  • Magnea Óskarsdóttir
  • Magnús Kári
  • Róbert Már Þorvaldsson
  • Sunna Björg Aðalsteinsdóttir
  • Ásta Þorleifsdóttir
  • Íris Gunnarsdóttir

Óskum við þeim til hamingju og hlökkum til að starfa með þeim í framtíðinni.

Aðalfundur 2018

Kæru félagar.

 

Aðalfundur FBSR verður haldinn miðvikudaginn 23. maí 2018 klukkan 20:00 í húsakynnum FBSR að Flugvallarvegi.

Dagskrá aðalfundar:

  1. Formaður setur fundinn og ber fram tillögu um fundarstjóra og fundarritara.
  2. Skýrsla stjórnar
  3. Ársreikningur lagður fram til samþykktar
  4. Inntaka nýrra félaga.
  5. Hlé
  6. Lagabreytingatillögur ræddar og bornar undir atkvæði
  7. Kosning stjórnar
  8. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
  9. Kosning tveggja í uppstillingarnefnd
  10. Önnur mál

Í hléi býður Kvennadeild FBSR upp á kaffiveitingar og kosta þær 2.000 kr. Greiða þarf fyrir með peningum.

 

Breytingartillögur á lögum Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík

Frá Eysteini Hjálmarssyni barst eftirfarandi breytingartillaga:

Lagt er til að eftirfarandi texti í 10. grein verði felldur úr lögum sveitarinnar:

Sjái félagi sér ekki fært að mæta á aðalfund getur hann gefið öðrum félaga umboð til að fara með atkvæði sitt á fundinum, þó getur einn maður aldrei farið með fleiri en tvö atkvæði þ.e. sitt eigið og eitt samkvæmt umboði. Umboðið skal vera skriflegt og undirritað af tveimur vottum.

 

Frá Birni Jóhanni Gunnarssyni barst eftirfarandi breytingartillaga:

Lagt er til að eftirfarandi texti verði bætt við 12. grein:

Til að geta boðið sig fram í stjórn FBSR þarf viðkomandi að hafa verið fullgildur meðlimur FBSR í hið minnsta 1 ár og á þeim tíma tekið þátt í starfi sveitarinnar til að öðlast þekkingu á starfi FBSR

 

Við hvetjum félaga til að mæta á aðalfundinn og hafa áhrif á þær ákvarðanir sem þar verða teknar.

Stjórnin.

Aukaaðalfundur – fundarboð

Kæru félagar!
 

Stjórn FBSR boðar til aukaaðalfundar þriðjudaginn 12. desember 2017 klukkan 20:00 í húsakynnum FBSR að Flugvallarvegi.

 

Dagskrá aukaaðalfundar:

  1. Formaður setur fundinn og ber fram tillögu um fundarstjóra og fundarritara. 
  2. Ársreikningur lagður fram til samþykktar 
  3. Önnur mál

Við hvetjum alla félaga til að mæta á fundinn og kynna sér ársreikninginn.

 
Stjórnin.

Hálendisvakt 2017 lokið

Í ágúst kláraði 14 manna hópur frá FBSR hálendisvakt þetta árið, en alls voru 13 einstaklingar og 1 erlendur gestur, Andrew James Peacock, frá fjallabjörgunarsveit Patterdale í norður Englandi og tveir bílar frá sveitinni á vaktinni í Nýjadal frá sunnudegi 13. ágúst og fram á aðfaranótt mánudags 21. ágúst þar sem þau fengu útkall eftir hádegi á sunnudegi fyrir heimferð sem dróst fram eftir degi. Nóg var við að vera, sjúkraverkefni, aðstoð við tilkynningar um utanvegaakstur, aðstoð við ferðamenn og allskonar bílaaðstoð. Í heildina voru skráð atvik 78 talsins og það er vel. Samstarf við landverði, skálaverði bæði í Nýjadal og Laugafelli, aðrar björgunarsveitir og lögreglu var til fyrirmyndar og þökkum við þeim vel fyrir.

Eftirtöldum fyrirtækjum er sérstaklega þakkaður stuðningurinn í sumar: Mjólkursamsalan, Grímur Kokkur, Kjarnafæði, Myllan, Ölgerðin, Nesbú og Íslensk Ameríska. Ykkar góði stuðningur gerir okkur kleift að starfa sem sterkur hópur á hálendisvaktinni.