Greinasafn fyrir flokkinn: Tilkynningar

Nýliðakynningar 2023

Flugbjörgunarsveitin Reykjavík verður með tvær nýliðakynningar í ár, klukkan 20 mánudaginn 28. ágúst og þriðjudaginn 29. ágúst. Kynningarnar fara fram í húsnæði sveitarinnar við Flugvallarveg 7. Frekari upplýsingar verða settar á Facebook síðu FBSR þegar nær dregur.

Tilgangur nýliðaþjálfunar FBSR er að þjálfa upp einstaklinga til að vera fullgildir útkallsfélagar í FBSR og SL. Nýliðaþjálfun hefst að hausti og lýkur á aðalfundi að vori, um nítján mánuðum síðar. Nýliðaþjálfun er skipt í tvö þjálfunartímabil: B1 sem er fyrra ár og B2 sem er seinna ár. Hvort ár eru tvær annir en þó ein samfelld dagskrá.

Til að geta gerst nýliði í FBSR þarf að uppfylla eftirtalinn skilyrði:

  • Að verða að minnsta 18 ára á því ári sem þjálfun byrjar.
  • Að hafa hreint og óflekkað mannorð.
  • Að vera líkamlega og andlega heilbrigður.
  • Að hafa kynnt sér starfsreglur FBSR svo og siðareglur SL.
  • Hafa þekkingu á íslensku máli og geta bjargað sér á því við daglegar aðstæður og í fjarskiptum við inntöku í sveitina.
  • Að vilja starfa í anda gilda FBSR sem eru liðsheild, traust og hæfni.

Krafist er 100% mætingar á skyldunámskeið og að jafnaði 80% mætingar á hvort þjálfunartímabil fyrir sig (B1 og B2) skv. samræmdu skráningarkerfi nýliðaráðs. Frávik frá þessu eru háð samþykki nýliðaráðs (og að endingu stjórnar FBSR). Sumum námskeiðum lýkur með prófi þar sem tekið er tillit til bæði bóklegrar og verklegrar færni. Öðrum námskeiðum lýkur með námsmati leiðbeinanda. Standast þarf þessar kröfur. Nýliði fær tækifæri til að endurtaka próf samkvæmt reglum Björgunarskóla
SL. Á hvoru ári er ætlast til að nýliðar taki þátt í fjáröflunum sveitarinnar.

Hópurinn sem hefur þjálfun í haust verður á námskeiðum og æfingum annan hvorn þriðjudag og aðra hverja helgi næstu tvo vetur. Dagskráin hefst þriðjudaginn 5. september.

Aðalfundur FBSR 2023

Á aðalfundi Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík í maí síðastliðnum var samþykkt innganga 27 nýrra félaga. Við óskum bæði þeim og sveitinni til hamingju með þessi tímamót!

Á aðalfundi var einnig kjörin ný stjórn og hana skipa nú Magnús Viðar Sigurðsson (formaður), Erla Rún Guðmundsdóttir (varaformaður), Ingvi Stígsson (gjaldkeri), Þóra Margrét Ólafsdóttir (ritari), Anna Finnbogadóttir, Gyða Dröfn Jónudóttir Hjaltadóttir og Ólafur Magnússon.

Meðfylgjandi eru myndir af stærstum hluta nýinngenginna og nýrri stjórn. Gaman er að segja frá því þetta er í fyrsta sinn sem konur eru í meirihluta í stjórn Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík.

Aðalfundur FBSR 2020

Aðalfundur Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík var haldinn með pompi, prakt og tveggja metra sætisbili þann 10. september sl. Í venjulegu árferði er aðalfundur sveitarinnar haldinn að vori en vegna sóttvarnaaðgerða síðastliðið vor var ákveðið að fresta honum til hausts.

Aðalfundurinn var haldinn á Hótel Natura, til móts við bækistöðvar FBSR í Öskjuhlíðinni, og þangað mættu ríflega 130 félagar. Að venju var farið yfir skýrslu stjórnar og ársreikninga áður en komið var skemmtilegasta dagskrárliðnum, inntöku nýrra félaga. Árgangurinn var sérstaklega stór og öflugur í ár og inn gengu 28 nýir Flubbar. Hamingjuóskir fá bæði þau nýinngengnu og sveitin öll með frábæra viðbót við hópinn!

Nýinngengir ásamt nýliðaþjálfurum og fráfarandi formanni stjórnar (Mynd: Jón Svavarsson).

Loks voru kjörnir nýir fulltrúar í nokkrar stöður í stjórn, m.a. formannsembættið, og er stjórn FBSR starfsárið 2020-2021 skipuð eftirfarandi:

  • Formaður: Viktor Örn Guðlaugsson
  • Varaformaður: Sveinn Hákon Harðarson
  • Gjaldkeri: Ingvi Stígsson
  • Meðstjórnendur:
    • Andrea Burgherr
    • Ásta Ægisdóttir
    • Leó Gunnar Víðisson
    • Ólafur Magnússon
Stjórn FBSR 2020-2021 (Mynd: Jón Svavarsson)

Um leið og við óskum nýjum stjórnarmeðlimum til hamingju með kjörið viljum við þakka fráfarandi stjórnarfólki fyrir vel unnin störf. Sérstakar þakkir fær Hjalti Björnsson, formaður FBSR 2017-2020, fyrir sitt stóra framlag í þágu sveitarinnar.

Ljósmyndir tók Jón Svavarsson.

Fjarkynning FBSR um nýliðastarf haustið 2020

Undanfarnar vikur hafa okkur borist fjölmargar fyrirspurnir um upphaf og fyrirkomulag á nýliðaþjálfun sveitarinnar í haust. Okkur þykir alltaf gaman að heyra af áhuga á starfinu en þar sem okkar margrómaða nýliðaþjálfun krefst mikillar nándar (t.d. í tjaldferðum og við æfingar á fyrstu hjálp) hefur verið ákveðið að bíða með að hefja nýliðaþjálfun formlega þar til COVID-19 lætur sig hverfa.

Í millitíðinni bjóðum við áhugasömum að hita upp fyrir alvöru þjálfun og kynnast starfinu á röð fjarfunda í haust. Meðal efnis á fjarfundaröðinni verður umfjöllun um ferðamennsku, rötun, alls konar græjur og margt fleira sem tengist björgunarsveitarstarfinu.

Fjarkynning á upphitunarprógramminu verður á morgun, þriðjudaginn 8. september kl. 20. Kynningin fer fram yfir netið og verður hlekkur settur á Facebook viðburðinn þegar nær dregur. Fjarfundaröðin er frábært tækifæri fyrir fólk til að kynnast starfi FBSR án skuldbindinga eða tilkostnaðar og hvetjum við öll áhugasöm að fylgjast með kynningunni á morgun.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins kveður Flugvallarveg

Frá í mars hefur húsnæði Flugbjörgunarsveitarinnar við Flugvallarveg verið bráðabirgðastöð Slökkviliðs höfuborgarsvæðisins. Áhafnir sjúkrabíls hafa haft þar aðsetur til að hindra smit á milli áhafna sjúkrabifreiða.

Í gær kvaddi slökkviliðið og þakkaði kærlega fyrir sig. Er ánægjulegt að hafa getað lagt lið með þessum hætti.

Guðbjörn Ólsen og Bergur Máni af C vaktinni sáu um síðustu vaktina á Flugvallarvegi. Mynd: Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins.

Nýliðakynningar 28. og 30. ágúst

Kynning á nýliðaþjálfun FBSR verður haldin kl. 20 þann 28. ágúst og endurtekin kl. 20 þann 30. ágúst. Kynningin verður í höfuðstöðvum FBSR að Flugvallarvegi 7.

Þjálfunin tekur tvo vetur, sept.-maí 2018-2020. Nýliðar læra á þeim tíma að bjarga sjálfum sér og öðrum við ýmsar aðstæður. Meðal námsgreina eru ferðamennska, rötun, GPS, fyrsta hjálp, fjarskipti, fjallamennska, fjallabjörgun, snjóflóð, straumvatnsbjörgun, leitartækni og jeppamennska. Að auki taka nýliðar virkan þátt í ýmsu öðru starfi sveitarinnar, svo sem fjáröflunum.

Kíkið í heimsókn ef þið hafið áhuga á fjölbreyttu og gefandi starfi með björgunarsveit!

Facebook viðburður fyrri kynningar.

Facebook viðburður seinni kynningar.

Nýliðakynningar haustið 2017

Við erum að leita að öflugu fólki sem hefur áhuga á að starfa í björgunarsveit, hvort sem áhuginn liggur í fjallamennsku, jeppum, björgunarskipulagi, fyrstu hjálp, nýstárlegum leitaraðgerðum eins og drónum eða öðrum sviðum björgunarstarfs. Þann 29. og 31 ágúst verða haldnar nýliðakynningar þar sem áhugasamir einstaklingar geta kynnt sér nýliðastarf sveitarinnar, þá þekkingu og reynslu sem byggð er upp, kröfur auk félagslega þáttarins.

Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík var stofnuð árið 1950 og hefur alla tíð horft til þess að vera leiðandi á sviði björgunarstarfa hér á landi. Sveitin sérhæfir sig í björgun á landi og má rekja stofnun hennar til þess að bæta þurfti úr sérhæfðri fjallabjörgun hérlendis.

Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, sveitin þróast og í dag er hún byggð upp af fjölmörgum öflugum björgunarflokkum. Meðal þeirra eru fjallaflokkur, leitarflokkur, sleðaflokkur, fallhlífaflokkur, bílaflokkur auk almenns björgunarflokks.

Nýliðaþjálfunin nær yfir tvo vetur, en á því tímabili lærir fólk helstu atriðin í fjallamennsku, leitartækni, fjallabjörgun, ferðamennsku og rötun, fyrstu hjálp og að geta bjargað sér í íslenskri náttúru í hvaða aðstæðum sem er. Nýliðar sveitarinnar taka einnig fullan þátt í fjáröflunum sveitarinnar og fjölmörgum öðrum viðburðum á þjálfunartímabilinu.

Að þjálfun lokinni verða nýliðar fullgildir meðlimir og fara þar með á útkallsskrá.

Aldurstakmark 18 ára.

Fyrir þá sem hafa áhuga eru hér tenglar á Facebook viðburði fyrir kynningarnar:

Þriðjudagurinn 29. ágúst

Fimmtudagurinn 31. ágúst

Aðalfundur FBSR 2017

Aðalfundur FBSR verður haldinn miðvikudaginn 24. maí 2017 klukkan 20:00 í húsakynnum FBSR að Flugvallarvegi.

Dagskrá aðalfundar:

  1. Formaður setur fundinn og ber fram tillögu um fundarstjóra og fundarritara.
  2. Skýrsla stjórnar 
  3. Ársreikningur lagður fram til samþykktar 
  4. Inntaka nýrra félaga.
  5. Hlé
  6. Lagabreytingar
  7. Tillögur sem borist hafa kynntar og bornar undir atkvæði
  8. Kosning stjórnar 
  9. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga 
  10. Kosning tveggja í uppstillingarnefnd 
  11. Önnur mál

Í hléi býður Kvennadeild FBSR upp á kaffiveitingar og kosta þær 2.000 kr. Greiða þarf fyrir með peningum.

Breytingartillaga á lögum Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík

Frá stjórn FBSR kemur eftirfarandi breytingartillaga:

Breyting á 2. mgr. 12. greinar, sem verður þá eftirfarandi:

Stjórn FBSR skipa sjö menn, formaður og sex meðstjórnendur. Formaður er kosinn til eins árs og meðstjórnendur til tveggja ára. Ár hvert skal formaður kosinn sérstaklega til eins árs. Auk þess skulu kosnir þrír meðstjórnendur til tveggja ára, þannig að sjö manna stjórn verði fullmönnuð. Hættir meðstjórnandi áður en tvö ár eru liðin, skal kosið í hans stöðu til eins árs. Af meðstjórnendum eru varaformaður og gjaldkeri kosnir sérstaklega á sitthvoru árinu. Stjórnin skiptir með sér verkum að öðru leyti og velur ritara.

Ef lagabreytingartillagan er samþykkt, þá er tillaga um eftirfarandi sérákvæði:

Á fundi, maí 2017, verður sérafbrigði þar sem kosnir verða varaformaður og 2 meðstjórnendur til tveggja ára (til aðalfundar 2019) og gjaldkeri og 2 meðstjórnendum kosnum til eins árs (til aðalfundar 2018).

Við hvetjum félaga til að mæta á aðalfundinn og hafa áhrif á þær ákvarðanir sem þar verða teknar.

Stjórnin.

Aðalfundarboð 2016

Kæru félagar.Aðalfundur FBSR verður haldinn miðvikudaginn 25. maí 2016 klukkan 20:00 í húsakynnum FBSR að Flugvallarvegi.

Dagskrá aðalfundar:

  1. Formaður setur fundinn og ber fram tillögu um fundarstjóra og fundarritara.
  2. Skýrsla stjórnar
  3. Ársreikningur lagður fram til samþykktar
  4. Inntaka nýrra félaga.
  5. Hlé
  6. Lagabreytingar
  7. Kosning stjórnar
  8. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
  9. Kosning tveggja í uppstillingarnefnd
  10. Önnur mál

Í hléi býður Kvennadeild FBSR upp á kaffiveitingar og kosta þær 2.000 kr. Greiða þarf fyrir með peningum.Breytingartillögur á lögum Flugbjörgunarsveitarinnar í ReykjavíkTvær tillögur að lagabreytingum bárust frá stjórn FBSR:

  • Við 16. gr. bætist: Allar lántökur félagsins umfram 5 mkr. skulu samþykktar á félagsfundi með meirihluta atkvæða. Stjórn félagsins er þó heimilt að stofna til viðskiptaskulda umfram 5 mkr. þegar um er að ræða innkaup vegna fjáraflana félagsins.
  • Breyting á 10. gr. í stað „janúarlok“ kemur „fyrir lok febrúar“. Setningin hljómar því þannig: Stjórn skal ákveða og auglýsa dagsetningu aðalfundar fyrir lok febrúar ár hvert.

Við hvetjum félaga til að mæta á aðalfundinn og hafa áhrif á þær ákvarðanir sem þar verða teknar.Stjórnin.