Aðalfundur Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík 2024

Kæru félagar,

Aðalfundur Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík verður haldinn þriðjudaginn 28. maí á Flugvallarvegi 7 og hefst fundurinn kl. 20:00.

Formaður FBSR ásamt aðstoðarfólki mun grilla pylsur frá kl. 19:00. Kaffi og með því í hléinu (Endilega skráið ykkur á D4H til að vita fjöldann).

Samkvæmt lögum FBSR skal á þessum fundi kjósa formann, gjaldkera og tvo meðstjórnendur auk eins félaga í siðanefnd, tveggja til skoðunarmanna reikninga, tveggja í uppstillingarnefnd og tvo trúnaðarmenn nú í ár. Hægt er að hafa samband við uppstillingarnefnd FBSR vilji fólk bjóða sig fram í embætti en einnig má bjóða sig fram á fundinum sjálfum. Í uppstillingarnefnd eru Þorsteinn Ásgrímsson og Ragna Lára Ellertsdóttir. 

Dagskrá aðalfundar, sbr. lög FBSR:

1. Formaður setur fundinn, en fundurinn kýs sér fundarstjóra og fundarritara.

2. Fundarritari fer yfir helstu mál frá síðasta aðalfundi og athugasemdir ef einhverjar eru.

3. Skýrsla stjórnar.

4. Ársreikningur lagður fram til samþykktar.

5. Inntaka nýrra félaga.

Hlé.

6. Lagabreytingar (engar tillögur bárust).

7. Tillögur sem borist hafa kynntar og bornar undir atkvæði (ein tillaga barst, sjá neðar).

8. Kosning stjórnar.

9. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.

10. Kosning tveggja í uppstillingarnefnd.

11. Kosning tveggja trúnaðarmanna sem starfa skulu sjálfstætt.

12. Kosning eins félaga í siðanefnd til tveggja ára og stjórn kynnir val sitt á oddamanni (félagi eða utan sveitar). 

13. Önnur mál.

Tillögur sem hafa borist og verða bornar undir atkvæði:
Ein tillaga barst. Hún varðar framtíð húsnæðismála sveitarinnar og byggir á niðurstöðum könnunar sem lögð var fyrir félaga á Innri síðu fyrr í mánuðinum. Niðurstöður könnunarinnar voru afgerandi og benda til þess að mikill meirihluti félaga vill að farið verði í stækkun húsnæðisins. Niðurstöður verða kynntar nánar á fundinum og eftirfarandi tillaga borin upp til atkvæðagreiðslu.

 „Aðalfundur Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík 2024 samþykkir að ráðist verði í stækkun á húsnæði sveitarinnar við Flugvallarveg 7. Stjórn FBSR er falið að vinna að stækkuninni.“

Kynning húsnæðisnefndar frá því í mars sl. má finna inni á D4H.

Endilega skráið ykkur á fundinn á D4H til að auðvelda skipulagningu.

Skildu eftir svar