Viðbragðsvaktir FBSR í sumar

Í sumar stóð FBSR tvær viðbragðsvaktir. Þá fyrri í Dreka, norðan Vatnajökuls og þá síðari í Skaftafelli. Um er að ræða samvinnuverkefni björgunarsveita á landinu, sem skipta með sér sumrinu. Vakt FBSR sinnti ýmisskonar aðstoð við ferðalanga en tíminn var einnig nýttur til æfinga og landkönnunar.

Meðal verkefna var aðhlynning eftir lítils háttar meiðsli, aðstoð vegna bilaðra bíla á afskekktum stöðum og vegalokun vegna óveðurs. Að auki var unnið að því með landvörðum að kanna og merkja leiðir og leiðbeina ferðalöngum.

Frítíminn var einnig vel nýttur til bæði æfinga og styttri skemmtiferða. Frá Dreka var gengið á Herðubreið og keyrt í Kverkfjöll, auk þess sem straumvatnsbúnaðurinn var prófaður og -tæknin æfð við fossinn Skínandi í Svartá.

Í Skaftafelli var svo gengið á Kristínartinda og farið inn í Núpsstaðaskóga, auk þess sem ísklifur og jöklaganga var æfð á nærliggjandi jöklum.

Þakkir til styrktaraðila

Sveitin leitar árlega til fyrirtækja í matvælaiðnaði til að fá matarstyrki fyrir vaktirnar. Þó ýmsir sjái sér ekki fært að styðja starfið með þessum hætti eru fjölmörg fyrirtæki sem betur fer aflögufær og sum hver hjálpa jafnvel til ár eftir ár. Fyrir það erum við afskaplega þakklát!

Við viljum því formlega þakka eftirtöldum aðilum kærlega fyrir veittan stuðning við að fæða þátttakendur í viðbragðsvöktum FBSR árið 2020:

  • Bæjarins Beztu Pylsur
  • Mjólkursamsalan
  • Ölgerðin
  • Myllan
  • Ó. Johnson og Kaaber
  • Kaupfélag Skagfirðinga (Vogabær)
  • Innnes
  • Grímur kokkur
  • Þykkvabæjar
  • Ásbjörn Ólafsson ehf.
  • Nesbú
  • Flúðasveppir
  • Vilko
  • Olifa
  • Kjarnafæði

Við viljum einnig nota tækifærið til að þakka Björgunarsveitinni Súlum og Björgunarsveitinni Kára fyrir afnot af aðstöðu þeirra á Akureyri og í Skaftafelli.

Skildu eftir svar