Fjölskyldudagur FBSR

Fjölskyldudagur FBSR var haldinn um helgina þar sem fullt af ævintýrum var í boði fyrir stóra sem smáa. Þetta er skemmtileg hefð innan sveitarinnar sem gefur meðlimum og fjölskyldum þeirra tækifæri á að kynnast og gera sér glaðan dag saman. Í þetta sinn var farið á Úlfljótsvatn þar sem m.a. var farið í bogfimi, klifur í turni og farið í skemmtilega leiki á túninu. Grillaðar voru pylsur og á leiðinni til baka var farið í hellaskoðun í Djúpahelli.

Ljósmyndir: Magnús V. Sigurðsson og Þórdís Guðnadóttir.

14 manns gengu inn á aðalfundi FBSR 2024. Hér má sjá hópinn ásamt nýliðaþjálfurum.

Aðalfundur 2024

Aðalfundur FBSR fór fram þriðjudagskvöldið 28. maí síðastliðinn þar sem 14 manns gengu inn í sveitina eftir 2ja ára nýliðaþjálfun.

Eftirfarandi kosningar í stöður innan FBSR fóru fram á aðalfundi:

Kosning stjórnar:
Formaður: Magnús Viðar Sigurðsson (endurkjörinn)
Varaformaður: Erla Rún Guðmundsdóttir (er á miðju kjörtímabili)
Gjaldkeri: Ingvi Stígsson (endurkjörinn)
Meðstjórnandi: Eyþór Kári Eðvaldsson kosinn til 2ja ára
Meðstjórnandi: Stefán Már Ágústsson kosinn til 2ja ára
Meðstjórnendur sem eru á miðju kjörtímabili eru Anna Finnbogadóttir og Þóra Margrét Ólafsdóttir.

Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga:
Haukur Eggertsson og Birgir Valdimarsson.

Kosning tveggja í uppstillingarnefnd:
Þorsteinn Ásgrímsson og Ragna Lára Ellertsdóttir.

Kosning tveggja trúnaðarmanna:
Bjarney Haraldsdóttir og Áslaug Þórsdóttir

Kosning í siðanefnd til tveggja ára:
Agnes Svansdóttir og Anna Marín Þórsdóttir.

Ljósmynd: Jón Svavarsson.

Aðalfundur Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík 2024

Kæru félagar,

Aðalfundur Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík verður haldinn þriðjudaginn 28. maí á Flugvallarvegi 7 og hefst fundurinn kl. 20:00.

Formaður FBSR ásamt aðstoðarfólki mun grilla pylsur frá kl. 19:00. Kaffi og með því í hléinu (Endilega skráið ykkur á D4H til að vita fjöldann).

Samkvæmt lögum FBSR skal á þessum fundi kjósa formann, gjaldkera og tvo meðstjórnendur auk eins félaga í siðanefnd, tveggja til skoðunarmanna reikninga, tveggja í uppstillingarnefnd og tvo trúnaðarmenn nú í ár. Hægt er að hafa samband við uppstillingarnefnd FBSR vilji fólk bjóða sig fram í embætti en einnig má bjóða sig fram á fundinum sjálfum. Í uppstillingarnefnd eru Þorsteinn Ásgrímsson og Ragna Lára Ellertsdóttir. 

Dagskrá aðalfundar, sbr. lög FBSR:

1. Formaður setur fundinn, en fundurinn kýs sér fundarstjóra og fundarritara.

2. Fundarritari fer yfir helstu mál frá síðasta aðalfundi og athugasemdir ef einhverjar eru.

3. Skýrsla stjórnar.

4. Ársreikningur lagður fram til samþykktar.

5. Inntaka nýrra félaga.

Hlé.

6. Lagabreytingar (engar tillögur bárust).

7. Tillögur sem borist hafa kynntar og bornar undir atkvæði (ein tillaga barst, sjá neðar).

8. Kosning stjórnar.

9. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.

10. Kosning tveggja í uppstillingarnefnd.

11. Kosning tveggja trúnaðarmanna sem starfa skulu sjálfstætt.

12. Kosning eins félaga í siðanefnd til tveggja ára og stjórn kynnir val sitt á oddamanni (félagi eða utan sveitar). 

13. Önnur mál.

Tillögur sem hafa borist og verða bornar undir atkvæði:
Ein tillaga barst. Hún varðar framtíð húsnæðismála sveitarinnar og byggir á niðurstöðum könnunar sem lögð var fyrir félaga á Innri síðu fyrr í mánuðinum. Niðurstöður könnunarinnar voru afgerandi og benda til þess að mikill meirihluti félaga vill að farið verði í stækkun húsnæðisins. Niðurstöður verða kynntar nánar á fundinum og eftirfarandi tillaga borin upp til atkvæðagreiðslu.

 „Aðalfundur Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík 2024 samþykkir að ráðist verði í stækkun á húsnæði sveitarinnar við Flugvallarveg 7. Stjórn FBSR er falið að vinna að stækkuninni.“

Kynning húsnæðisnefndar frá því í mars sl. má finna inni á D4H.

Endilega skráið ykkur á fundinn á D4H til að auðvelda skipulagningu.

Hundaflokkur að standa sig vel

Í allskonar veðri og mismiklum vindi voru fjögur hundateymi frá FBSR á árlegu 5 daga námskeiði/úttekt Björgunahundasveit Íslands á snjóflóðahundum, í þetta sinn á Mýrdalsjökli. Uppskeran var aldeilis stórfín. Í A snjóflóðateymis-hópinn (sem er efsta gráða) bættust Lúna&Ármann og Norður&Gabríela til viðbótar við að Mirra&Þóra tóku sitt annað A-endurmat í snjóflóðum.

Þóra & Mirra

Staðan hjá FBSR er þá að við höfum nú þrjú A snjóflóðaleitarhundateymi og þrjú víðavangsleitarhundateymi (eitt A+tvö B).

Gabriela & Norður
Ármann & Lúna
Þórdís & Týra

Þinn stuðningur skiptir máli

Þú getur hjálpað Flugbjörgunarsveitinnni að viðhalda þeim búnaði og þjálfun sem þarf til að halda úti öflugri björgunarsveit.

Til að styrkja sveitina er m.a. hægt að gerast Traustur félagi, senda heilla- eða minningarkort til styrktar sveitinni eða leggja beint inná bankareikning sveitarinnar. Eins er hægt að styrkja með greiðslukorti á vef LandsbjargarBakverðir Landsbjargar styrkja allar björgunarsveitir landsins.

Bankareikingur

FLUGBJÖRGUNARSVEITIN REYKJAVÍK
Kennitala:550169-6149
Banki:0513-04-251892

Framlög eru frádráttarbær frá skatti

Fjárframlög einstaklinga til Flugbjörgunarsveitarinnar eru frádráttabær frá skatti (Sbr. 7. tölul. A-liður 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.) Á það við hvort sem um er að ræða einstakar gjafir til félagsins eða reglulegan stuðning Traustra félaga.

Styrktaraðilinn þarf ekkert að aðhafast. Flugbjörgunarsveitin kemur upplýsingum um frádráttabæra styrki (kaup á vöru og þjónustu skapa ekki rétt til frádráttar) til Skattsins og við það lækkar skattstofn styrktaraðilans á viðkomandi almanaksári. Afslátturinn nemur tekjuskatthlutfalli þess sem veitir styrkinn en hlutfallið er breytilegt eftir tekjum. Styrkveitingar koma því fram á skattframtali hvers og eins.

Einstaklingar geta fengið skattaafsláttinn þegar samanlögð styrkupphæð til félaga á almannaheillaskrá Skattsins er á bilinu 10.000 (lágmark) til 350.000 krónur (hámark) á almanaksári. Nánari upplýsingar má finna á skatturinn.is.

Nýliðakynningar 2023

Flugbjörgunarsveitin Reykjavík verður með tvær nýliðakynningar í ár, klukkan 20 mánudaginn 28. ágúst og þriðjudaginn 29. ágúst. Kynningarnar fara fram í húsnæði sveitarinnar við Flugvallarveg 7. Frekari upplýsingar verða settar á Facebook síðu FBSR þegar nær dregur.

Tilgangur nýliðaþjálfunar FBSR er að þjálfa upp einstaklinga til að vera fullgildir útkallsfélagar í FBSR og SL. Nýliðaþjálfun hefst að hausti og lýkur á aðalfundi að vori, um nítján mánuðum síðar. Nýliðaþjálfun er skipt í tvö þjálfunartímabil: B1 sem er fyrra ár og B2 sem er seinna ár. Hvort ár eru tvær annir en þó ein samfelld dagskrá.

Til að geta gerst nýliði í FBSR þarf að uppfylla eftirtalinn skilyrði:

  • Að verða að minnsta 18 ára á því ári sem þjálfun byrjar.
  • Að hafa hreint og óflekkað mannorð.
  • Að vera líkamlega og andlega heilbrigður.
  • Að hafa kynnt sér starfsreglur FBSR svo og siðareglur SL.
  • Hafa þekkingu á íslensku máli og geta bjargað sér á því við daglegar aðstæður og í fjarskiptum við inntöku í sveitina.
  • Að vilja starfa í anda gilda FBSR sem eru liðsheild, traust og hæfni.

Krafist er 100% mætingar á skyldunámskeið og að jafnaði 80% mætingar á hvort þjálfunartímabil fyrir sig (B1 og B2) skv. samræmdu skráningarkerfi nýliðaráðs. Frávik frá þessu eru háð samþykki nýliðaráðs (og að endingu stjórnar FBSR). Sumum námskeiðum lýkur með prófi þar sem tekið er tillit til bæði bóklegrar og verklegrar færni. Öðrum námskeiðum lýkur með námsmati leiðbeinanda. Standast þarf þessar kröfur. Nýliði fær tækifæri til að endurtaka próf samkvæmt reglum Björgunarskóla
SL. Á hvoru ári er ætlast til að nýliðar taki þátt í fjáröflunum sveitarinnar.

Hópurinn sem hefur þjálfun í haust verður á námskeiðum og æfingum annan hvorn þriðjudag og aðra hverja helgi næstu tvo vetur. Dagskráin hefst þriðjudaginn 5. september.

Aðalfundur FBSR 2023

Á aðalfundi Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík í maí síðastliðnum var samþykkt innganga 27 nýrra félaga. Við óskum bæði þeim og sveitinni til hamingju með þessi tímamót!

Á aðalfundi var einnig kjörin ný stjórn og hana skipa nú Magnús Viðar Sigurðsson (formaður), Erla Rún Guðmundsdóttir (varaformaður), Ingvi Stígsson (gjaldkeri), Þóra Margrét Ólafsdóttir (ritari), Anna Finnbogadóttir, Gyða Dröfn Jónudóttir Hjaltadóttir og Ólafur Magnússon.

Meðfylgjandi eru myndir af stærstum hluta nýinngenginna og nýrri stjórn. Gaman er að segja frá því þetta er í fyrsta sinn sem konur eru í meirihluta í stjórn Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík.

Flugeldasala 2022

Flugeldasala Flugbjörgunarsveitarinnar 2022 fer fram 28. desember – 31. desember.

Flugbjörgunarsveitin þakkar öllum sem styrkja starf sveitarinnar.

Sölustaðir eru á Flugvallarvegi 7, við Kringlu, í Mjódd á mót við Frumherja og við Norðlingabraut í Norðlingaholti.

Opnunartímar eru 28.-30. desember frá kl. 10 til kl. 22 og 31. desember frá kl. 9 til kl. 16.

Vefverslun með flugelda er opin frá 27. desember til 31. desember og er hægt að sækja á sölustaði í Mjódd og á Flugvallarvegi frá og með 28. desember.

Mesta aðsóknin er upp úr hádegi á gamlársdag og eru kaupendur hvattir til að koma snemma til að geta gefið sér tíma í næði til að velja sér skotelda.

Að venju eru til sölu blys, stjörnuljós, fjölskyldupakkar, rakettur, kökur, víg og gos.

Flugeldamarkaður björgunarsveitanna
Flugeldamarkaður björgunarsveitanna

Flugeldamarkaðir er ein mikilvægasta fjáröflun björgunarsveita og hjálparsveita.