Greinasafn fyrir flokkinn: Ferðasögur

Fyrsta ferð B1

Nýliðaþjálfun Flugbjörgunarsveitarinnar skiptist í tvö ár, B1 og B2. Nýliðar á fyrsta ári (B1)

Mynd/Halli - Eins og sjá má var veðrið eiginlega of gott þessa helgi :)

Mynd/Halli – Eins og sjá má var veðrið eiginlega of gott þessa helgi 🙂

héldu í sína fyrstu ferð þann 12. og 13. september.   Auk nýliða mættu nokkrir galvarskir, inngengnir Flubbar – þ.m.t tveir fulltrúar úr stjórn.

Lagt var upp frá Botnsdal í Hvalfirði og gengið upp að hæsta (eða næsthæsta!) fossi landsins, Glym þar sem ófáarmyndir voru teknir og ófáum fötum pakkað þar sem veðrið var eins og best verður kosið á þessum árstíma.

Þaðan lá leiðin norðvestan við Hvalfellið, framhjá Breiðafossi að Hvalvatni þar sem ákveðið var að ganga sunnan megin við vatnið til þess að að freista þess að finna Arneshelli, sem þar ku eiga heimili.  Hellirinn reyndist hinsvegar af heiman þennan dag og því lá leiðin meðfram vatninu, undir Hvalfellinu þar sem nýliðarnir fengu fyrstu reynslu sína í skriðubrölti og grunnáfanga í vaði 101.

Mynd/Halli - Fyrsta uppgangan af fjölmörgum næstu tvö árin.

Mynd/Halli – Fyrsta uppgangan af fjölmörgum næstu tvö árin.

Eftir göngu með fram Hvalvatni (og nokkrar sólbaðsstundir) lá leiðin að fallegum  náttstað við Krókatjarnir þar sem tjöldum var slegið upp og prímusarnir mundaðir.

Á sunnudagsmorgni voru teknar léttar Mullersæfingar við morgunskúri en um leið og lagt var af stað var blessuð sólin aftur mætt og skyggni því rúmlega ágætt þegar hópurinn rölti sem leið lá yfir Gagnheiði, meðfram Súlnabergi Botnssúla í suðurátt að Svartagili.  Þegar á Þingvelli var komið, beið fagurgræn rúta eftir mannskapnum og ferðjaði í bæinn.

 

 

Mynd/Halli - Náttstaðurinn við Krókatjarnir.

Mynd/Halli – Náttstaðurinn við Krókatjarnir.

Um kvöldið fór hersingin á HamborgaraFabrikkuna og fékk sér hamborgara í félagsskaps B2, sem komu syndandi.

Mynd/Halli - Farastjórinn sjálfur, Halli Kristins.

Mynd/Halli – Fararstjórinn sjálfur, Halli Kristins.

 

Kilimanjaro toppað

Kilimanjaro

Guðjón Benfield, Bjarni Jóhannesson og Birgir Valdimarsson

Í byrjun September fóru 3 meðlimir úr FBSR til Tanzaníu í Afríku og gengu þar á tvö fjöll.

Kilimanjaro - jökullinn á Kibo tindi

Kilimanjaro – jökullinn á Kibo tindi

Mount Meru og Kilimanjaro.  Þetta er þriðja árið í röð sem þeir félagar leggja land undir fót og fara saman í fjallaferð (2014: Mount Rainier og 2013: Mont Blanc).

Ferðin hófst á 3 daga göngu upp Mount Meru sem er nokkuð stæðilegt 4566 metra hátt virkt eldfjall og er staðsett 70km vestur af Kilimanjaro.  Neðri hluti fjallsins er heimkynni mikils fjölda villtra dýra þannig að til öryggis fylgdi vopnaður landvörður hópnum upp í efstu búðir sem eru í 3500m hæð og beið eftir þeim þar, á meðan fjallið var toppað að næturlagi.

Við tók svo 6 daga ganga á Kilimanjaro hæsta fjall Afríku (5895m) sem rís um 4600 metra yfir nánasta umhverfi sitt

Mount Meru – mynd tekin frá tind litla Meru (3800m) Gígurinn á fjallinu er gríðarstór

Mount Meru – mynd tekin frá tind litla Meru (3800m)
Gígurinn á fjallinu er gríðarstór

og býður upp á mikið útsýni og fjölbreytt vistkerfi.  Fyrir valinu varð Machame leiðin einnig nefnd Viskíleiðin.  Gist var i tjöldum á leiðinni upp og gekk ferðin vel.  Uhuru peak hæsti tindur fjallsins var toppaður á fimmta degi eða við sólarupprás þann 7 September.

 

Tjaldbúðir á 3 degi á Kilimanjaro – Allar næturnar á fjallinu var stjörnubjart – Útsýni yfir borgina Moshi

Tjaldbúðir á 3 degi á Kilimanjaro – Allar næturnar á fjallinu var stjörnubjart – Útsýni yfir borgina Moshi

Landmannalaugar 2015

Rúmlega 50 manna hópur frá Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík hélt í árlega Landmannalaugaferð síðustu helgi. Stór hluti fór á gönguskíðum, en einnig voru þrír sleðar með í ferð og fjórir jeppar. Farið var úr húsi föstudagskvöldið og lagði skíðagöngufólkið af stað frá veginum austan af Sultartangastöð. Var skíðað austur fyrir Tagl þar sem tjaldbúðir voru settar upp, en nokkur hríð var um kvöldið. Jeppa- og sleðafólk hélt á meðan inn í Laugar.

Á laugardaginn var fullt af allskonar hjá öllum. Gönguskíðafólk hélt áfram og var stefnan sett á Laugar, meðan jeppa- og sleðafólk keyrði um Fjallabak þvert og endilangt. Nokkrir tóku sig svo til og gengu upp og skíðuðu svo niður Bláhnúk. Slegið var upp veislu um kvöldið og grillað í mannskapinn og að vanda var svo fjölmennt í lauginni eftir matinn. Á sunnudaginn var haldið í átt að Sigöldu og keyrt í bæinn.

Allt í allt frábær ferð þar sem margir prófuðu gönguskíði í fyrsta skipti í lengri ferð, ökumenn fengu góða æfingu og hægt var að njóta Fjallabaksins stóran hluta ferðarinnar vegna prýðisskyggnis og góðs skíðafæris.

Myndir: Magnús Andrésson og Ingvar Hlynsson

B1 í Tindfjöll

Tíu nýliðar í B1 fóru í Tindfjöll helgina 4.-7. apríl.  Fylgdarliðið voru harðgerir jaxlar af fjalla-og bílasviði.  Á föstudagskvöldi var tjaldhópunum hent út á handahófskenndum stöðum í Fljótshlíðinni með kort og áttavita og voru allir komnir á áfangastað um kl. 3.  Göngufærið síðari hluta göngunnar var ekkert til að hrópa húrra yfir, drulla, bleyta og snjór.  Nýliðunum var boðið upp á soðið vatn áður en skriðið var inn í tjald.

Mynd: Stefán Þórarinsson

Mynd: Stefán Þórarinsson

Plan laugardagsins var að fara á Ými og Ýmu á Tindfjallajökli.  Lagt var af stað á laugardagsmorgni en okkur miðaði frekar hægt, töluverður snjór og farið að hvessa.  Þegar komið var að Saxa, við rætur Tindfjallajökuls, ákváðu fararstjórarnir að snúa við vegna veðurs.  Fengum þó að festa á okkur brodda og í línu og prílaði helmingur hópsins upp á Haka áður en haldið var til baka.  Þegar komið var að Ísalp skálanum hafði einn úr hópnum „fótbrotnað“.  Nýliðarnir þurftu að hlúa að honum og koma heilum og höldnum niður að gamla FBSR skála.  Að æfingu lokinni biðu okkar grillaðar pylsur í tugatali, bornar fram á bleikum Hello Kitty diskum!  Það eina sem skyggði á daginn var að eitt tjald inngenginna, með hluta af innbúi, fauk í rokinu og fannst ekki aftur þessa helgi.

Mynd: Stefán Þórarinsson

Mynd: Stefán Þórarinsson

Allt of snemma á sunnudagsmorgni vorum við vakin upp með látum.  Skömmu síðar hófst æfing í snjóflóðaleit.  Að henni lokinni var borðað, pakkað saman og rölt af stað niður í Fljótshlíð.  Markmið göngunnar var að komast þurrum fótum niður.  Gangan gekk hratt og vel og á leiðarenda fengu tjaldhóparnir að keppa sín á milli í æsispennandi tímatöku!  Verkefnið var að tjalda, sjóða 1L af vatni og koma sér inn í tjald og ofan í svefnpoka.  Tjaldhópur 1 (Guðjón, Sveinbjörn, Þorkell) sigraði naumlega í fyrstu umferð á 11 mínútum.  Í annarri umferð átti einungis að tjalda og sigraði þá tjaldhópur 2 (Elísabet, Franz, Kristveig, Svana) örugglega á tímanum 5:25.  Tjaldhópur 3 (Björgvin, Helena, Linda) hafa eitthvað að stefna að.  Lagt var af stað í bæinn en eftir smá akstur komum við að bíl utan vegar frá Björgunarsveit Hafnarfjarðar.  Hófst þá lærdómsrík skyndihjálparæfing sem var síðasta æfing helgarinnar.

Mynd: Stefán Þórarinsson

Mynd: Stefán Þórarinsson

– Elísabet Vilmarsdóttir

Gönguskíðaferð í Landmannalaugar

Hin margrómaða gönguskíðaferð í Landmannalaugar var farin helgina 7-9. mars. Að þessu sinni fóru allir saman en um 50 manns voru skráðir í ferðina. Flestir gengu inn í Landmannalaugar á gönguskíðum en jeppar og vélsleðar voru einnig til taks. Jepparnir þurftu moka sig lausa nokkrum sinnum enda snjóþungt.

Ferðin hófst við Sigöldu rétt fyrir miðnætti á föstudagskvöldi. Gengið var í fínasta veðri undir stjörnubjörtum himni að Dyngjuskarði. Veðurspá laugardags lofaði ekki góðu (stormviðvörun) og var því ákveðið að ganga um nóttina þar til menn yrðu eitthvað „undarlegir“. Eftir tæplega fjögurra tíma göngu var komið að Dyngjuskarði. Tjaldbúðum var komið upp og reynt að ná einhverjum svefni. Heyrst hefur að lengsti lúrinn hafi varað í tvo tíma.

Mynd: Dana Ježková

Mynd: Dana Ježková

Á laugardagsmorgni var farið að hvessa og átti eingöngu eftir að bæta í vind. Fengum él sem varð að slyddu þegar leið á daginn. Skyggni var ekkert alla dagleiðina og þurfti að nota ímyndunaraflið til að sjá fyrir sér náttúrufegurðina. Það var vonlaust að finna skjól til að snæða hádegismat svo að hópurinn gróf sig í fönn í klettaskarði. Upp úr hádegi voru vindhviðurnar orðnar ansi öflugar og felldu mann og annan. Ein hviðan var sérstaklega öflug og felldi alla, nema fjóra, í einu vetfangi. Ferðinni miðaði hægt en hópurinn náði inn í Landmannalaugar fyrir kvöldmat. Frá skálanum barst ómótstæðilegur ilmur af grilluðu lambakjöti en slegið var í sameiginlegan kvöldverð sem nokkrir inngengnir sáu um. Hópurinn sló upp tjaldbúðum við skálann og barðist við mikla munnvatnsframleiðslu. Eftir dýrindis kvöldmat fóru þeir hörðustu í heitu laugina, með glimmer baðbombu!

Mynd: Dana Ježková

Mynd: Dana Ježková

Sunnudagsmorgun hófst á því að trítla yfir vatnslitla og volga á. Flestir bleyttu skóna en nokkrir höfðu vit á því að fara berfættir yfir. Þegar líða tók á daginn voru einhverjir orðnir sárfættir og vélsleðarnir tilbúnir að sækja fólk og farangur. Um hádegi glitti í himininn og svo brast á með blíðu og góðu skyggni í hálftíma. Ferðin gekk vel og fórum við yfir álíka vegalengd og hina tvo dagana samanlagt. Við Frostastaðavatn fór efsta snjóalagið að falla niður með tilheyrandi brestum þegar gönguskíðahópurinn fór yfir. Í lok dags var svo fagnað þegar sást í rútuna sem beið eftir okkur.

Ferðin var prýðilega vel heppnuð, þrátt fyrir leiðinlegt veður og ekkert skyggni. Hún reyndi á þolrif þeirra sem drógu púlku, reyndi á stöðugleika í vindhviðum, úthald, hælsærisplástra og ýmislegt fleira.

Mynd: David Karnå

Mynd: David Karnå

– Elísabet og Ásdís

Gönguskíða-nýliðaferð á Tvídægru

Nýliðahóparnir B1 og B2 héldu í fyrstu sameiginlegu ferðina helgina 21.-23. febrúar.  Lagt var af stað skammt  norður af „horninu“ á Holtavörðuheiði í hæglætisveðri.  Eftir smávægilegt strætóbras ákvað gönguskíðafólk að halda af stað í ferðina.  Komið var að skálanum við Skútagil á þriðja tímanum um nóttina.  Nýliðunum var boðin gisting í skálanum sem flestir þáðu en nokkrir úr B1 kusu tjaldið fram yfir skálann.

Mynd: Elísabet Vilmarsdóttir

Mynd: Elísabet Vilmarsdóttir

Laugardagsmorgun hófst með snjóbræðslu fyrir daginn og var síðan haldið í vesturátt að Krókavatnsskála.  Hádegisverður var snæddur og hælar plástraðir í skálanum.  Var svo haldið í SSV-átt, að Kjarrá, í meðvindi og sól.  Ferðinni miðaði vel, svo vel að fararstjórar settu upp óvænta björgunaræfingu fyrir nýliðana á Krókavatni.  Eftir vel heppnaða æfingu var haldið áfram að Kjarrá.  Aftur var sett upp björgunaræfing á leiðinni og tveir nýliðar dregnir af hraustum mönnum um 3-4 km vegalengd á púlkum.

Mynd: Elísabet Vilmarsdóttir

Mynd: Elísabet Vilmarsdóttir

Undir sólsetur var tjaldbúðum komið upp og kvöldverður snæddur.  Um kvöldið kíkti formaður beltaflokks á okkur en hann hafði verið skipaður á bakvakt.  Nýliðarnir skriðu snemma ofan í svefnpoka og sváfu eins og ungabörn þessa nótt.

Mynd: Elísabet Vilmarsdóttir

Mynd: Elísabet Vilmarsdóttir

Sunnudagsmorgun hófst með snjóbræðslu sem gekk misvel hjá fólki.  Gasið þurfti sérstaka ást og alúð í þessu frosti.  Klukkan rúmlega 8 var hópurinn klár í göngu dagsins.  Haldið var suður í meðvindi og blíðskaparveðri eftir Hólmavatni og niður Hallkelsstaðaheiði, uns snjó fór að þrjóta.  Strætóinn beið eftir hópnum við Gilsbakka í Hvítársíðu og sá B2-liði um að aka til byggða.

Í tilefni af konudeginum fengu konurnar í hópnum frí frá frágangi og þrifum og gátu haldið örlítið fyrr heim með bros á vör.

Haukur Eggertsson og Elísabet Vilmarsdóttir

Fjallamennska á Skarðsheiði

Báðir nýliðhópar (B1 og B2) FBSR héldu á Skarðsheiði helgina 8. til 9. febrúar til að sækja námskeiðin Fjallamennska 1 og 2.  Hér eftir koma frásagnir frá hvorum hóp.

B1 á Skarðsheiði

Kjúklingarnir í B1 héldu í sína fyrstu alvöru vetrarferð 8-9. febrúar þegar þeir tóku námskeið í fjallamennsku 1. Föstudagskvöldi, 7. feb, var eytt í húsi þar sem farið var yfir grunnatriðin, liðið látið síga o.fl.
Snemma á laugardagsmorgni var haldið á Skessuhorn, nánar tiltekið í Katlana undir Skessuhorni. Það var strax hafist handa við æfingar í broddagöngu, ísaxarbremsu, göngu í línu o.fl. Ýmsar snjótryggingar voru gerðar og var flestum hægt að treysta þokkalega, fyrir utan Mars-súkkulaði og ófylltum vettling. Eitthvað var um rifið gore-tex þessa helgi en enginn felldi tár, enda búið að finna upp bætur og hið ómissandi duct-tape.
Á laugardagskvöldi var haldið partý að hætti B1. Sveinbjörn dróg upp (óáfengt) Flinstones-freyðivín og fagnaði stórafmæli. Menn hafa komist að því í vetur að það jafnast ekkert á við að halda upp á afmælið sitt á fjöllum með B1.
Bakpokarnir voru flestir þyngri en í síðustu ferðum, enda þyngri búnaður með i för. B1-liðar eru þekktir fyrir að leggja metnað í góðan mat og huggulegheit, á kostnað nokkurra gramma/kílóa og var þessi ferð engin undantekning.
Það kom í ljós á þessu námskeiði að uppáhalds litur B1 er grænn! „Heiða og hrútarnir“ héldu fast í einu grænu linuna á laugardegi og byrjun sunnudags en töpuðu henni til „Stebba og stelpnanna“, þegar þær sáu leik á borði og gripu langþráðu grænu línuna. Þessi barátta um grænu línuna skapaði töluverða frústrasjón í hita leiksins en gleymdist um leið og línuleiknum lauk. „Logi og lýðurinn“ er grunaður um að vera haldinn litblindu.

skardsheidi-b1

Stebbi og stelpurnar. Mynd: Lilja Steinunn Jónsdóttir

Það var mál manna að námskeiðið hefði heppnast prýðilega undir leiðsögn góðra manna/kvenna. Greinilega vant fólk á ferð sem sá um kennslu. B1 hlakkar mikið til næstu fjallaferða!

Fyrir hönd B1, Elísabet Vilmarsdottir

B2 á Skessuhorn

Snemma að morgni laugardagsins 8. febrúar 2014 mættu nýliðar FBSR ásamt vel völdum inngengnum á Flugvallarveginn, hlóðu bakpokum og sér sjálfum inn í FBSR 7 og héldu af stað út í myrkrið. Áfangastaðurinn var Skarðsheiði hvar ætlunin var að fara Norðausturleiðina á Skessuhorn. 

Eftir um klukkustundarlanga keyrslu var numið staðar við bæinn Horn og arkað af stað upp á heiðina. Gengið var að Kötlum hvar tjöld, svefnpokar og annar útilegubúnaður var grafinn niður og þegar allir voru búnir að setja á sig broddana, reyra hjálmana, binda sig í línu og munda ísaxirnar var haldið af stað upp Skessuna.

Mynd: Kári Hreinsson

Mynd: Kári Hreinsson

Nýliðalínurnar voru þrjár og fyrir þeim gengu risaelðurnar Guðjón Örn og Óli Haukur auk Jóns Smára nýliðaþjálfara og einnig voru tvær línur inngenginna með í för. Eftir að hafa gengið upp norðurhlíðina um hríð kom að því að klífa fyrsta haftið. Tryggingar voru settar niður og haldið af stað og í raun ekki stoppað fyrr en tindinum var náð, um 4-5 klst síðar. Prílið tók í á köflum og óhætt að segja að lærdómurinn hafi verið mikill hjá nýliðunum, a.m.k. undirritaðri, en allt gekk þetta áfallalaust fyrir sig og var alveg þrælskemmtilegt. Veðrið var ekki með besta móti, lágskýjað, strekkingur og úrkoma á köflum svo útsýnið var því miður ekki upp á marga fiska. Því var stoppað stutt á toppnum og haldið af stað gangandi niður hrygginn í suðurátt. Töluvert af nýföllnum snjó var yfir öllu og því nokkur snjóflóðahætta og haga þurfti niðurferðinni eftir því. Hún gekk þó eins og í sögu og allir komust klakklaust niður í Katla þar sem tjöldum var slegið upp og magar fylltir fyrir svefninn.

Mynd: Kári Hreinsson

Mynd: Kári Hreinsson

Mynd: Arianne Gaehwiller

Toppi náð. Mynd: Arianne Gaehwiller

Sunnudagsmorgunn rann upp bjartur og fagur og þegar búið var að matast og taka niður tjöld var aftur haldið að hlíðum Skessurnar þar sem risaeðlurnar, Jón Smári og Matti skratti voru með kennslu í að að gera snjó- og bergtryggingar. Einnig fengum nýliðar að spreyta sig í að leiða línu upp hlíð, finna staði fyrir og setja niður tryggingar og síga svo niður að því loknu.

Mynd: Arianne Gaehwiller

Hangið í bergtryggingum. Mynd: Arianne Gaehwiller

Um kl 15 var svo haldið af stað niður af heiðinni þar sem FBSR 7 var með áætlaðan brottfarartíma kl 16. Glaðir og reifir B2 liðar sáu sér gott til glóðarinnar að vera mættir tímanlega í rútuna en þegar nokkur hundruð metrar voru eftir var tilkynnt að Egill B2 liði hefði fótbrotnað á báðum fótum og það þyrfti að undirbúa hann fyrir flutning. Til að forðast allan misskilning skal það tekið fram að þetta var spuni frá Matta skratta – Egill kenndi sér einskis meins. SAM spelkurnar og Saga skráning voru rifnar fram og ansi skrautlegar börur útbúnar úr ísöxum og snjópollum. Á þeim var Egill borinn að rútunni og um kl 17 renndi FBSR 7 af stað til höfuðborgarinnar.

Fyrir hönd B2, Ásdís Sveinsdóttir

Fyrsta nýliðaferðin

Fyrsta nýliðaferð B1 hópsins var farinn um helgina, en 39 nýliðar fóru, ásamt fimm inngengnum og bílstjórum. Haldið var á Heiðina háu og gengið frá Selvogi norður að Draugahlíðum þaðan sem farið var að Kistufelli. Gist var í gígnum og daginn eftir haldið að Fagradal og þaðan að Kaldárseli.

Gott veður var á hópinn fyrri daginn, en það gekk svo yfir með skilum seinni partinn og gustaði vel um hópinn áður en tjaldað var. Þegar búið var að elda kvöldmat og koma sér í tjald kom svo heljarinnar rigning í bland við slagveðrið og reyndi vel á tjöld hópsins. Eitt tjaldið endaði með að fjúka stutta leið eftir hetjulega tilraun tjaldbúa til að halda því föstu og þurfti því að troða í önnur tjöld. Að öðru leiti gekk ferðin að óskum og var góður rómur gerður að ferðinni í lokin, þrátt fyrir að sumum hafi ekki litist á blikuna í upphafi.

Næsta ferð nýliðahópsins verður eftir tæplega tvær vikur, en hún verður kynnt síðar.
Meðfylgjandi má sjá myndskeið sem einn meðlimur hópsins, Gísli Jóhannesson, tók og setti saman:

Aðalfundur FBSR 2013

Aðalfundur Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík verður haldinn þann 8. maí 2013 kl. 20:00 í húsi sveitarinnar að Flugvallarvegi.

Dagskrá fundarins:
1.    Formaður setur fund.
2.    Kosning fundarstjóra og fundarritara
3.    Skýrsla stjórnar og umræður um hana.
4.    Endurskoðaður rekstrar og efnahagsreikningur 2012, samþykktur af félagslega kjörnum endurskoðendum og umræður um hann.
5.    Inntaka nýrra félaga.
6.    Hlé – Kaffiveitingar á vegum kvennadeildarinnar, kr. 1.500 (í reiðufé)
7.    Kosning formanns (til eins árs).
8.    Kosning tveggja meðstjórnenda (árlega til tveggja ára).
8.a  Kosning meðstjórnanda til eins árs í stað fráfarandi stjórnarmanns
9.    Kosning tveggja varastjórnenda (til eins árs).
10.  Kosning tveggja endurskoðenda og eins til vara.
11.  Tillaga að lagabreytingu, umræða og kosning
12.  Önnur mál

Lagabreytingatillaga hefur löglega borist stjórn og er svo hljóðandi:
„Við undirritaðir Marteinn Sigurðsson og Stefán Þórarinsson gerum það að tillögu okkar að 1. Lið í 3. Grein laga FBSR sem hljóðar svo „Að verða minnsta kosti 17 ára á því ári sem þjálfun byrjar“ verði breytt og mun hljóða svo „Að vera 19 ára þegar þjálfun hefst en undanþágu má gera hafi viðkomandi orðið 18 ára á árinu sem þjálfun hefst“.

Við hvetjum alla félaga til að mæta á aðalfundinn og hafa áhrif á þær ákvarðanir sem þar verða teknar.

Tröllaskaginn heimsóttur

Um páskahelgina héldu B2-liðar ásamt þremur inngengnum í ferð á Tröllaskaga. Skipulagið var á könnu nýliðahópsins, en slíkt hefur tíðkast með páskaferðir sveitarinnar. Á miðvikudagskvöldið var haldið í Skagafjörð og inn í Hjaltadal. Gist var í tjöldum nálægt bænum Reykjum í fínu veðri. Snjóskortur á láglendinu var þó örlítið áhyggjuefni en skipuleggjendur höfðu gert ráð fyrir aðeins meira snjómagni.

Fyrsta dagleið: Frá Reykjum í Hjaltadal að Tungahrygg

16,7 km, 9,5 kst með stoppum

Á skírdagsmorgni var svo haldið af stað eftir að ábúendur að Reykjum höfðu varað skíðagarpana við hestum sem hefðu tilhneigingu til að borða bíla og því væri fín hugmynd að koma þeim í öruggt skjól. Haldið var af stað inn Hjaltadalinn og fljótlega eftir að sólin knúði fram fatastopp, var haldið inn Héðinsdal til austurs. Þar byrjaði klifrið upp á við, en áður en dagurinn var á enda hafði hópurinn hækkað sig um rúmlega tólf hundruð metra. Þegar komið var í Héðinsskarð (1261 m) kom að erfiðasta hluta leiðarinnar, en það var að koma sér niður austanmegin niður á Barkárdalsjökul. Einhverjar fjallaskíðahetjur hefðu vafalaust kallað þetta æðislega brekku, en fyrir gönguskíðafólk sem ekki er með fastan hæl var um erfiða niðurferð að ræða. Frá Barkárdalsjökli var svo haldið upp að Hólamannaskarði (1210 m) og yfir á Tungnahryggsjökull vestari. Þar beið hópsins skálinn á Tungnahrygg þar sem gist var. Þó ákváðu þrjár öflugar stelpur úr hópnum að tjalda fyrir utan og gista þar. Gangan upp tók nokkuð vel í og var færi þungt á köflum.

Lagt var af stað frá bænum Reykjum í Hjaltadal

Halda áfram að lesa