Tröllaskaginn heimsóttur

Um páskahelgina héldu B2-liðar ásamt þremur inngengnum í ferð á Tröllaskaga. Skipulagið var á könnu nýliðahópsins, en slíkt hefur tíðkast með páskaferðir sveitarinnar. Á miðvikudagskvöldið var haldið í Skagafjörð og inn í Hjaltadal. Gist var í tjöldum nálægt bænum Reykjum í fínu veðri. Snjóskortur á láglendinu var þó örlítið áhyggjuefni en skipuleggjendur höfðu gert ráð fyrir aðeins meira snjómagni.

Fyrsta dagleið: Frá Reykjum í Hjaltadal að Tungahrygg

16,7 km, 9,5 kst með stoppum

Á skírdagsmorgni var svo haldið af stað eftir að ábúendur að Reykjum höfðu varað skíðagarpana við hestum sem hefðu tilhneigingu til að borða bíla og því væri fín hugmynd að koma þeim í öruggt skjól. Haldið var af stað inn Hjaltadalinn og fljótlega eftir að sólin knúði fram fatastopp, var haldið inn Héðinsdal til austurs. Þar byrjaði klifrið upp á við, en áður en dagurinn var á enda hafði hópurinn hækkað sig um rúmlega tólf hundruð metra. Þegar komið var í Héðinsskarð (1261 m) kom að erfiðasta hluta leiðarinnar, en það var að koma sér niður austanmegin niður á Barkárdalsjökul. Einhverjar fjallaskíðahetjur hefðu vafalaust kallað þetta æðislega brekku, en fyrir gönguskíðafólk sem ekki er með fastan hæl var um erfiða niðurferð að ræða. Frá Barkárdalsjökli var svo haldið upp að Hólamannaskarði (1210 m) og yfir á Tungnahryggsjökull vestari. Þar beið hópsins skálinn á Tungnahrygg þar sem gist var. Þó ákváðu þrjár öflugar stelpur úr hópnum að tjalda fyrir utan og gista þar. Gangan upp tók nokkuð vel í og var færi þungt á köflum.

Lagt var af stað frá bænum Reykjum í Hjaltadal

Dagur 2: Hólamannahnjúkur (Péturshnjúkur) (1406m)

6,6 km, 4 klst með stoppum

Á föstudaginn langa var ákveðið að hafa styttri dag, en þá var haldið upp á Hólamannahnjúk (Péturshnjúk, 1406 m), en farið var langleiðina á skíðum. Efsti parturinn var tekinn á broddum, en nokkuð hvasst var á þessum tíma. Á toppnum voru svo auðvitað myndatökur, þar sem teknar voru hinar ýmsu módel uppstillingar, þrátt fyrir lítið skyggni. Á leiðinni niður þurfti svo að rifja aðeins upp fyrstu hjálpina þegar einn ferðamanna blóðgaðist smávegis. Í skálanum var svo sett nýtt Íslandsmet í hitaeiningaríkri fæðu þar sem sérgerðar kryddpylsur, ostar og pasta voru í aðalhlutverki.

Hópurinn kominn upp í Héðinsskarð. Þaðan lá leiðin niður á Barkárdalsjökul og í gegnum Hólamannaskarð inn á Tungnahryggsjökul.

Þriðjadagleið, Frá Tungnahrygg að Hólum í Hjaltadal

21,7 km, 7,5 kst með stoppum

Á laugardeginum vaknaði hópurinn og fyrsta verkefni var að kíkja til veðurs. Úti var mikil þoka en fljótlega eftir að lagt var af stað birti til og jökullinn og Tröllamúrinn skörtuðu sínu fegursta. Stefnan var sett á Víðines í Hjaltadal og farið var niður svokallaða Hólamannaleið. Þá er farið norður fyrir Tröllamúrinn og yfir Hafliðaháls (1225 m). Svo lá leiðin svo gott sem niður frábæra (göngu)skíðabrekku alla leið að Víðinesi. Fengum gott skíðafæri og nýr snjór var yfir jöklinum. Ferðinni lauk svo með góðu ömmukaffi á Sauðárkróki á leiðinni í bæinn aftur. Skemmtileg ferð var að baki og eftir sitja minningar um góða ferð.

Horft yfir Tungnahryggsjökul í austurátt. Þokan hörfar í gegnum Hólamannaskarðið.

Texti og myndir: Þorsteinn Ásgrímsson Melén

no images were found