Gönguskíðaferð í Landmannalaugar

Hin margrómaða gönguskíðaferð í Landmannalaugar var farin helgina 7-9. mars. Að þessu sinni fóru allir saman en um 50 manns voru skráðir í ferðina. Flestir gengu inn í Landmannalaugar á gönguskíðum en jeppar og vélsleðar voru einnig til taks. Jepparnir þurftu moka sig lausa nokkrum sinnum enda snjóþungt.

Ferðin hófst við Sigöldu rétt fyrir miðnætti á föstudagskvöldi. Gengið var í fínasta veðri undir stjörnubjörtum himni að Dyngjuskarði. Veðurspá laugardags lofaði ekki góðu (stormviðvörun) og var því ákveðið að ganga um nóttina þar til menn yrðu eitthvað „undarlegir“. Eftir tæplega fjögurra tíma göngu var komið að Dyngjuskarði. Tjaldbúðum var komið upp og reynt að ná einhverjum svefni. Heyrst hefur að lengsti lúrinn hafi varað í tvo tíma.

Mynd: Dana Ježková

Mynd: Dana Ježková

Á laugardagsmorgni var farið að hvessa og átti eingöngu eftir að bæta í vind. Fengum él sem varð að slyddu þegar leið á daginn. Skyggni var ekkert alla dagleiðina og þurfti að nota ímyndunaraflið til að sjá fyrir sér náttúrufegurðina. Það var vonlaust að finna skjól til að snæða hádegismat svo að hópurinn gróf sig í fönn í klettaskarði. Upp úr hádegi voru vindhviðurnar orðnar ansi öflugar og felldu mann og annan. Ein hviðan var sérstaklega öflug og felldi alla, nema fjóra, í einu vetfangi. Ferðinni miðaði hægt en hópurinn náði inn í Landmannalaugar fyrir kvöldmat. Frá skálanum barst ómótstæðilegur ilmur af grilluðu lambakjöti en slegið var í sameiginlegan kvöldverð sem nokkrir inngengnir sáu um. Hópurinn sló upp tjaldbúðum við skálann og barðist við mikla munnvatnsframleiðslu. Eftir dýrindis kvöldmat fóru þeir hörðustu í heitu laugina, með glimmer baðbombu!

Mynd: Dana Ježková

Mynd: Dana Ježková

Sunnudagsmorgun hófst á því að trítla yfir vatnslitla og volga á. Flestir bleyttu skóna en nokkrir höfðu vit á því að fara berfættir yfir. Þegar líða tók á daginn voru einhverjir orðnir sárfættir og vélsleðarnir tilbúnir að sækja fólk og farangur. Um hádegi glitti í himininn og svo brast á með blíðu og góðu skyggni í hálftíma. Ferðin gekk vel og fórum við yfir álíka vegalengd og hina tvo dagana samanlagt. Við Frostastaðavatn fór efsta snjóalagið að falla niður með tilheyrandi brestum þegar gönguskíðahópurinn fór yfir. Í lok dags var svo fagnað þegar sást í rútuna sem beið eftir okkur.

Ferðin var prýðilega vel heppnuð, þrátt fyrir leiðinlegt veður og ekkert skyggni. Hún reyndi á þolrif þeirra sem drógu púlku, reyndi á stöðugleika í vindhviðum, úthald, hælsærisplástra og ýmislegt fleira.

Mynd: David Karnå

Mynd: David Karnå

– Elísabet og Ásdís