Gönguskíða-nýliðaferð á Tvídægru

Nýliðahóparnir B1 og B2 héldu í fyrstu sameiginlegu ferðina helgina 21.-23. febrúar.  Lagt var af stað skammt  norður af „horninu“ á Holtavörðuheiði í hæglætisveðri.  Eftir smávægilegt strætóbras ákvað gönguskíðafólk að halda af stað í ferðina.  Komið var að skálanum við Skútagil á þriðja tímanum um nóttina.  Nýliðunum var boðin gisting í skálanum sem flestir þáðu en nokkrir úr B1 kusu tjaldið fram yfir skálann.

Mynd: Elísabet Vilmarsdóttir

Mynd: Elísabet Vilmarsdóttir

Laugardagsmorgun hófst með snjóbræðslu fyrir daginn og var síðan haldið í vesturátt að Krókavatnsskála.  Hádegisverður var snæddur og hælar plástraðir í skálanum.  Var svo haldið í SSV-átt, að Kjarrá, í meðvindi og sól.  Ferðinni miðaði vel, svo vel að fararstjórar settu upp óvænta björgunaræfingu fyrir nýliðana á Krókavatni.  Eftir vel heppnaða æfingu var haldið áfram að Kjarrá.  Aftur var sett upp björgunaræfing á leiðinni og tveir nýliðar dregnir af hraustum mönnum um 3-4 km vegalengd á púlkum.

Mynd: Elísabet Vilmarsdóttir

Mynd: Elísabet Vilmarsdóttir

Undir sólsetur var tjaldbúðum komið upp og kvöldverður snæddur.  Um kvöldið kíkti formaður beltaflokks á okkur en hann hafði verið skipaður á bakvakt.  Nýliðarnir skriðu snemma ofan í svefnpoka og sváfu eins og ungabörn þessa nótt.

Mynd: Elísabet Vilmarsdóttir

Mynd: Elísabet Vilmarsdóttir

Sunnudagsmorgun hófst með snjóbræðslu sem gekk misvel hjá fólki.  Gasið þurfti sérstaka ást og alúð í þessu frosti.  Klukkan rúmlega 8 var hópurinn klár í göngu dagsins.  Haldið var suður í meðvindi og blíðskaparveðri eftir Hólmavatni og niður Hallkelsstaðaheiði, uns snjó fór að þrjóta.  Strætóinn beið eftir hópnum við Gilsbakka í Hvítársíðu og sá B2-liði um að aka til byggða.

Í tilefni af konudeginum fengu konurnar í hópnum frí frá frágangi og þrifum og gátu haldið örlítið fyrr heim með bros á vör.

Haukur Eggertsson og Elísabet Vilmarsdóttir