Fjallamennska á Skarðsheiði

Báðir nýliðhópar (B1 og B2) FBSR héldu á Skarðsheiði helgina 8. til 9. febrúar til að sækja námskeiðin Fjallamennska 1 og 2.  Hér eftir koma frásagnir frá hvorum hóp.

B1 á Skarðsheiði

Kjúklingarnir í B1 héldu í sína fyrstu alvöru vetrarferð 8-9. febrúar þegar þeir tóku námskeið í fjallamennsku 1. Föstudagskvöldi, 7. feb, var eytt í húsi þar sem farið var yfir grunnatriðin, liðið látið síga o.fl.
Snemma á laugardagsmorgni var haldið á Skessuhorn, nánar tiltekið í Katlana undir Skessuhorni. Það var strax hafist handa við æfingar í broddagöngu, ísaxarbremsu, göngu í línu o.fl. Ýmsar snjótryggingar voru gerðar og var flestum hægt að treysta þokkalega, fyrir utan Mars-súkkulaði og ófylltum vettling. Eitthvað var um rifið gore-tex þessa helgi en enginn felldi tár, enda búið að finna upp bætur og hið ómissandi duct-tape.
Á laugardagskvöldi var haldið partý að hætti B1. Sveinbjörn dróg upp (óáfengt) Flinstones-freyðivín og fagnaði stórafmæli. Menn hafa komist að því í vetur að það jafnast ekkert á við að halda upp á afmælið sitt á fjöllum með B1.
Bakpokarnir voru flestir þyngri en í síðustu ferðum, enda þyngri búnaður með i för. B1-liðar eru þekktir fyrir að leggja metnað í góðan mat og huggulegheit, á kostnað nokkurra gramma/kílóa og var þessi ferð engin undantekning.
Það kom í ljós á þessu námskeiði að uppáhalds litur B1 er grænn! „Heiða og hrútarnir“ héldu fast í einu grænu linuna á laugardegi og byrjun sunnudags en töpuðu henni til „Stebba og stelpnanna“, þegar þær sáu leik á borði og gripu langþráðu grænu línuna. Þessi barátta um grænu línuna skapaði töluverða frústrasjón í hita leiksins en gleymdist um leið og línuleiknum lauk. „Logi og lýðurinn“ er grunaður um að vera haldinn litblindu.

skardsheidi-b1

Stebbi og stelpurnar. Mynd: Lilja Steinunn Jónsdóttir

Það var mál manna að námskeiðið hefði heppnast prýðilega undir leiðsögn góðra manna/kvenna. Greinilega vant fólk á ferð sem sá um kennslu. B1 hlakkar mikið til næstu fjallaferða!

Fyrir hönd B1, Elísabet Vilmarsdottir

B2 á Skessuhorn

Snemma að morgni laugardagsins 8. febrúar 2014 mættu nýliðar FBSR ásamt vel völdum inngengnum á Flugvallarveginn, hlóðu bakpokum og sér sjálfum inn í FBSR 7 og héldu af stað út í myrkrið. Áfangastaðurinn var Skarðsheiði hvar ætlunin var að fara Norðausturleiðina á Skessuhorn. 

Eftir um klukkustundarlanga keyrslu var numið staðar við bæinn Horn og arkað af stað upp á heiðina. Gengið var að Kötlum hvar tjöld, svefnpokar og annar útilegubúnaður var grafinn niður og þegar allir voru búnir að setja á sig broddana, reyra hjálmana, binda sig í línu og munda ísaxirnar var haldið af stað upp Skessuna.

Mynd: Kári Hreinsson

Mynd: Kári Hreinsson

Nýliðalínurnar voru þrjár og fyrir þeim gengu risaelðurnar Guðjón Örn og Óli Haukur auk Jóns Smára nýliðaþjálfara og einnig voru tvær línur inngenginna með í för. Eftir að hafa gengið upp norðurhlíðina um hríð kom að því að klífa fyrsta haftið. Tryggingar voru settar niður og haldið af stað og í raun ekki stoppað fyrr en tindinum var náð, um 4-5 klst síðar. Prílið tók í á köflum og óhætt að segja að lærdómurinn hafi verið mikill hjá nýliðunum, a.m.k. undirritaðri, en allt gekk þetta áfallalaust fyrir sig og var alveg þrælskemmtilegt. Veðrið var ekki með besta móti, lágskýjað, strekkingur og úrkoma á köflum svo útsýnið var því miður ekki upp á marga fiska. Því var stoppað stutt á toppnum og haldið af stað gangandi niður hrygginn í suðurátt. Töluvert af nýföllnum snjó var yfir öllu og því nokkur snjóflóðahætta og haga þurfti niðurferðinni eftir því. Hún gekk þó eins og í sögu og allir komust klakklaust niður í Katla þar sem tjöldum var slegið upp og magar fylltir fyrir svefninn.

Mynd: Kári Hreinsson

Mynd: Kári Hreinsson

Mynd: Arianne Gaehwiller

Toppi náð. Mynd: Arianne Gaehwiller

Sunnudagsmorgunn rann upp bjartur og fagur og þegar búið var að matast og taka niður tjöld var aftur haldið að hlíðum Skessurnar þar sem risaeðlurnar, Jón Smári og Matti skratti voru með kennslu í að að gera snjó- og bergtryggingar. Einnig fengum nýliðar að spreyta sig í að leiða línu upp hlíð, finna staði fyrir og setja niður tryggingar og síga svo niður að því loknu.

Mynd: Arianne Gaehwiller

Hangið í bergtryggingum. Mynd: Arianne Gaehwiller

Um kl 15 var svo haldið af stað niður af heiðinni þar sem FBSR 7 var með áætlaðan brottfarartíma kl 16. Glaðir og reifir B2 liðar sáu sér gott til glóðarinnar að vera mættir tímanlega í rútuna en þegar nokkur hundruð metrar voru eftir var tilkynnt að Egill B2 liði hefði fótbrotnað á báðum fótum og það þyrfti að undirbúa hann fyrir flutning. Til að forðast allan misskilning skal það tekið fram að þetta var spuni frá Matta skratta – Egill kenndi sér einskis meins. SAM spelkurnar og Saga skráning voru rifnar fram og ansi skrautlegar börur útbúnar úr ísöxum og snjópollum. Á þeim var Egill borinn að rútunni og um kl 17 renndi FBSR 7 af stað til höfuðborgarinnar.

Fyrir hönd B2, Ásdís Sveinsdóttir