Fyrsta nýliðaferðin

Fyrsta nýliðaferð B1 hópsins var farinn um helgina, en 39 nýliðar fóru, ásamt fimm inngengnum og bílstjórum. Haldið var á Heiðina háu og gengið frá Selvogi norður að Draugahlíðum þaðan sem farið var að Kistufelli. Gist var í gígnum og daginn eftir haldið að Fagradal og þaðan að Kaldárseli.

Gott veður var á hópinn fyrri daginn, en það gekk svo yfir með skilum seinni partinn og gustaði vel um hópinn áður en tjaldað var. Þegar búið var að elda kvöldmat og koma sér í tjald kom svo heljarinnar rigning í bland við slagveðrið og reyndi vel á tjöld hópsins. Eitt tjaldið endaði með að fjúka stutta leið eftir hetjulega tilraun tjaldbúa til að halda því föstu og þurfti því að troða í önnur tjöld. Að öðru leiti gekk ferðin að óskum og var góður rómur gerður að ferðinni í lokin, þrátt fyrir að sumum hafi ekki litist á blikuna í upphafi.

Næsta ferð nýliðahópsins verður eftir tæplega tvær vikur, en hún verður kynnt síðar.
Meðfylgjandi má sjá myndskeið sem einn meðlimur hópsins, Gísli Jóhannesson, tók og setti saman: