Flugbjörgunarsveitin fær gamlan strætisvagn að gjöf

no images were found

Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., afhenti Flugbjörgunarsveitinni gamlan strætisvagn að gjöf síðastliðinn föstudaginn. Baldur Ingi Halldórsson, bílaflokksformaður hjá Flugbjörgunarsveitinni, tók á móti vagninum. Fyrirhugað er að gefa einnig vagna til Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu og Brunavarna Árnessýslu. Baldur Ingi segir að vagninn sem Flugbjörgunarsveitin fékk að gjöf verði meðal annars nýttur við nýliðaþjálfun og æfingar.

„Þá nýtist vagninn einnig sem bækistöð og móttökustaður fyrir sjúklinga og björgunarfólk í stórum aðgerðum. Hann mun því nýtast okkur mjög vel og þessi gjöf einfaldar mér lífið sem bílaflokksformaður.“

Strætó bs. tók tólf nýja vagna í notkun í síðasta mánuði og því losnaði um eldri vagna.

„Einhverjum þeirra verður fargað og aðrir nýttir í varahluti, en það er gott að geta gefið vagna til þeirra sem vinna jafn óeigingjarnt starf og björgunarsveitir og slökkvilið gera.“

sagði Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó, að lokum.