Greinasafn fyrir flokkinn: Nýliðastarf

Fjallamennska á Skarðsheiði

Báðir nýliðhópar (B1 og B2) FBSR héldu á Skarðsheiði helgina 8. til 9. febrúar til að sækja námskeiðin Fjallamennska 1 og 2.  Hér eftir koma frásagnir frá hvorum hóp.

B1 á Skarðsheiði

Kjúklingarnir í B1 héldu í sína fyrstu alvöru vetrarferð 8-9. febrúar þegar þeir tóku námskeið í fjallamennsku 1. Föstudagskvöldi, 7. feb, var eytt í húsi þar sem farið var yfir grunnatriðin, liðið látið síga o.fl.
Snemma á laugardagsmorgni var haldið á Skessuhorn, nánar tiltekið í Katlana undir Skessuhorni. Það var strax hafist handa við æfingar í broddagöngu, ísaxarbremsu, göngu í línu o.fl. Ýmsar snjótryggingar voru gerðar og var flestum hægt að treysta þokkalega, fyrir utan Mars-súkkulaði og ófylltum vettling. Eitthvað var um rifið gore-tex þessa helgi en enginn felldi tár, enda búið að finna upp bætur og hið ómissandi duct-tape.
Á laugardagskvöldi var haldið partý að hætti B1. Sveinbjörn dróg upp (óáfengt) Flinstones-freyðivín og fagnaði stórafmæli. Menn hafa komist að því í vetur að það jafnast ekkert á við að halda upp á afmælið sitt á fjöllum með B1.
Bakpokarnir voru flestir þyngri en í síðustu ferðum, enda þyngri búnaður með i för. B1-liðar eru þekktir fyrir að leggja metnað í góðan mat og huggulegheit, á kostnað nokkurra gramma/kílóa og var þessi ferð engin undantekning.
Það kom í ljós á þessu námskeiði að uppáhalds litur B1 er grænn! „Heiða og hrútarnir“ héldu fast í einu grænu linuna á laugardegi og byrjun sunnudags en töpuðu henni til „Stebba og stelpnanna“, þegar þær sáu leik á borði og gripu langþráðu grænu línuna. Þessi barátta um grænu línuna skapaði töluverða frústrasjón í hita leiksins en gleymdist um leið og línuleiknum lauk. „Logi og lýðurinn“ er grunaður um að vera haldinn litblindu.

skardsheidi-b1

Stebbi og stelpurnar. Mynd: Lilja Steinunn Jónsdóttir

Það var mál manna að námskeiðið hefði heppnast prýðilega undir leiðsögn góðra manna/kvenna. Greinilega vant fólk á ferð sem sá um kennslu. B1 hlakkar mikið til næstu fjallaferða!

Fyrir hönd B1, Elísabet Vilmarsdottir

B2 á Skessuhorn

Snemma að morgni laugardagsins 8. febrúar 2014 mættu nýliðar FBSR ásamt vel völdum inngengnum á Flugvallarveginn, hlóðu bakpokum og sér sjálfum inn í FBSR 7 og héldu af stað út í myrkrið. Áfangastaðurinn var Skarðsheiði hvar ætlunin var að fara Norðausturleiðina á Skessuhorn. 

Eftir um klukkustundarlanga keyrslu var numið staðar við bæinn Horn og arkað af stað upp á heiðina. Gengið var að Kötlum hvar tjöld, svefnpokar og annar útilegubúnaður var grafinn niður og þegar allir voru búnir að setja á sig broddana, reyra hjálmana, binda sig í línu og munda ísaxirnar var haldið af stað upp Skessuna.

Mynd: Kári Hreinsson

Mynd: Kári Hreinsson

Nýliðalínurnar voru þrjár og fyrir þeim gengu risaelðurnar Guðjón Örn og Óli Haukur auk Jóns Smára nýliðaþjálfara og einnig voru tvær línur inngenginna með í för. Eftir að hafa gengið upp norðurhlíðina um hríð kom að því að klífa fyrsta haftið. Tryggingar voru settar niður og haldið af stað og í raun ekki stoppað fyrr en tindinum var náð, um 4-5 klst síðar. Prílið tók í á köflum og óhætt að segja að lærdómurinn hafi verið mikill hjá nýliðunum, a.m.k. undirritaðri, en allt gekk þetta áfallalaust fyrir sig og var alveg þrælskemmtilegt. Veðrið var ekki með besta móti, lágskýjað, strekkingur og úrkoma á köflum svo útsýnið var því miður ekki upp á marga fiska. Því var stoppað stutt á toppnum og haldið af stað gangandi niður hrygginn í suðurátt. Töluvert af nýföllnum snjó var yfir öllu og því nokkur snjóflóðahætta og haga þurfti niðurferðinni eftir því. Hún gekk þó eins og í sögu og allir komust klakklaust niður í Katla þar sem tjöldum var slegið upp og magar fylltir fyrir svefninn.

Mynd: Kári Hreinsson

Mynd: Kári Hreinsson

Mynd: Arianne Gaehwiller

Toppi náð. Mynd: Arianne Gaehwiller

Sunnudagsmorgunn rann upp bjartur og fagur og þegar búið var að matast og taka niður tjöld var aftur haldið að hlíðum Skessurnar þar sem risaeðlurnar, Jón Smári og Matti skratti voru með kennslu í að að gera snjó- og bergtryggingar. Einnig fengum nýliðar að spreyta sig í að leiða línu upp hlíð, finna staði fyrir og setja niður tryggingar og síga svo niður að því loknu.

Mynd: Arianne Gaehwiller

Hangið í bergtryggingum. Mynd: Arianne Gaehwiller

Um kl 15 var svo haldið af stað niður af heiðinni þar sem FBSR 7 var með áætlaðan brottfarartíma kl 16. Glaðir og reifir B2 liðar sáu sér gott til glóðarinnar að vera mættir tímanlega í rútuna en þegar nokkur hundruð metrar voru eftir var tilkynnt að Egill B2 liði hefði fótbrotnað á báðum fótum og það þyrfti að undirbúa hann fyrir flutning. Til að forðast allan misskilning skal það tekið fram að þetta var spuni frá Matta skratta – Egill kenndi sér einskis meins. SAM spelkurnar og Saga skráning voru rifnar fram og ansi skrautlegar börur útbúnar úr ísöxum og snjópollum. Á þeim var Egill borinn að rútunni og um kl 17 renndi FBSR 7 af stað til höfuðborgarinnar.

Fyrir hönd B2, Ásdís Sveinsdóttir

Fyrsta hjálp og félagabjörgun

Þessa helgi eru báðir nýliðahóparnir á fullu í þjálfun, en fyrra árið situr námskeið í fyrstu hjálp undir leiðsögn sjúkrahópsins og fulltrúar fjallasviðs fara yfir félagbjörgun á Sólheimajökli með seinna árinu.

Í heild eru um þrjátíu nýliðar í húsi í fyrstu hjálparæfingum, en auk þess koma þó nokkrir inngengnir að þjálfuninni. Þegar kíkt var niður í hús áðan var meðal annars verið að fara yfir hjartahnoð, hjartastuðtæki og þríhyrningana.

20131019_153434

Nýliðar á Esjunni

Nýliðar á fyrsta ári héldu á Esjuna síðustu helgi og fóru meðal annars um Laufskörð og upp á Hátind.
Meðfylgjandi er myndband frá ferðinni og leiðarlýsing frá Hauki Eggertssyni.

Við byrjuðum ferðina við Fossá í Hvalfirði og gengum upp eftir henni, inn Seljadal til móts við samnefnt eyðibýli hvar við tjölduðum um nóttina. Daginn eftir héldum við suður yfir hálsinn og ofan í Kjós við Vindáshlíð. Héldum stutta leitaræfingu í sumarbústaðarhverfinu í minni Svínadals áður en haldið var upp á Möðruvallaháls, og hann síðan genginn til suður um Höggin og upp á Trönu, þaðan upp á austasta (og hæsta) Móskarðshnúkinn og síðan niður hjá hjá Bláhnúki og tjaldað undir honum. Á sunnudag fórum við aftur upp hjá Bláhnúki og upp á hrygginn á milli 2. og 3. Móskarðshnúks (talið frá austri), vestur eftir hryggnum, yfir Laufaskörð og sem leið liggur upp á Hátind og þaðan niður í Grafardal, yfir Þverárkotsháls hvar FBSR 7 beið okkar við vaðið yfir Skarðsá.

Fyrsta nýliðaferðin

Fyrsta nýliðaferð B1 hópsins var farinn um helgina, en 39 nýliðar fóru, ásamt fimm inngengnum og bílstjórum. Haldið var á Heiðina háu og gengið frá Selvogi norður að Draugahlíðum þaðan sem farið var að Kistufelli. Gist var í gígnum og daginn eftir haldið að Fagradal og þaðan að Kaldárseli.

Gott veður var á hópinn fyrri daginn, en það gekk svo yfir með skilum seinni partinn og gustaði vel um hópinn áður en tjaldað var. Þegar búið var að elda kvöldmat og koma sér í tjald kom svo heljarinnar rigning í bland við slagveðrið og reyndi vel á tjöld hópsins. Eitt tjaldið endaði með að fjúka stutta leið eftir hetjulega tilraun tjaldbúa til að halda því föstu og þurfti því að troða í önnur tjöld. Að öðru leiti gekk ferðin að óskum og var góður rómur gerður að ferðinni í lokin, þrátt fyrir að sumum hafi ekki litist á blikuna í upphafi.

Næsta ferð nýliðahópsins verður eftir tæplega tvær vikur, en hún verður kynnt síðar.
Meðfylgjandi má sjá myndskeið sem einn meðlimur hópsins, Gísli Jóhannesson, tók og setti saman:

Fjölsóttar nýliðakynningar

Nýliðakynningar Flugbjörgunarsveitarinnar fóru fram í vikunni í húsnæði sveitarinnar við Flugvallaveg og lagði fjöldi manns leið sína á bæði kvöldin. Allt í allt komu tæplega 100 manns samanlagt og var mál manna að tekist hefði vel upp. Haukur Ingi stjórnaði fundunum og fór yfir fyrirkomulag þjálfunarinnar með20130827_205520 11 verðandi nýliðum, en auk þess sagði Auður frá upplifun sinni af síðustu tveimur árum í þjálfuninni. Þá voru nýliðaþjálfararnir kynntir, en þeir eru að þessu sinni Haukur Eggertsson og David Karnå. 

Eftir að Haukur Ingi hafði lokið kynningunni var skipt upp í hópa og fór inngengnir með áhugasama um húsið, en inngengnir fjölmenntu á báða fundina sem var gaman að sjá.

Fyrrgreindir aðilar og þeir sem komu að kynningunni fá þakkir fyrir aðkomu sína að kvöldunum. Einnig verður gaman að sjá nýja nýliða á fyrsta fundi B1, en hann fer fram þriðjudaginn 3. september kl 20:00 í salnum að Flugvallavegi.

Póstur með nánari upplýsingum verður sendur um helgina eða á mánudaginn til þeirra sem skráðu sig. Þess skal getið að fólki er velkomið að mæta þó það hafi ekki komið á kynningarnar.

 

Nýliðakynningar Flugbjörgunarsveitarinnar 2013

Nýliðakynningar Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík verða haldnar þriðjudaginn 27. ágúst og miðvikudaginn 28. ágúst kl. 20.00 í húsnæði sveitarinnar við Flugvallarveg.

Ert þú 18 ára og eldri og gætir þú hugsað þér að fara út í brjálað veður þegar aðrir eru í neyð? Hefðir þú áhuga á að stunda fjalla- eða jeppamennsku, starfa með vélsleða- eða fisflugvélahóp, vera í sérhæfðum leitar- eða sjúkrahóp eða jafnvel fara í fallhlífastökk? Kannski áttu þá erindi til okkar!

Flugbjörgunarsveitin á yfir 60 ára sögu og innan sveitarinnar eru nokkur hundruð félagar. Auk námskeiða og nýliðaferða er fjölbreytt félagsstarfsemi, æfingar og ferðir á vegum sveitarinnar.

Fyrstu nýliðafundirnir verða þriðjudaginn 3. september og fyrsta ferð 6-8. september. Allir sem eru áhugasamir um starfið eru velkomnir á kynningarfundina 27. og 28. ágúst.

Þriðjudagskynningin á Facebook
Miðvikudagskynningin á Facebook 

no images were found

Tröllaskaginn heimsóttur

Um páskahelgina héldu B2-liðar ásamt þremur inngengnum í ferð á Tröllaskaga. Skipulagið var á könnu nýliðahópsins, en slíkt hefur tíðkast með páskaferðir sveitarinnar. Á miðvikudagskvöldið var haldið í Skagafjörð og inn í Hjaltadal. Gist var í tjöldum nálægt bænum Reykjum í fínu veðri. Snjóskortur á láglendinu var þó örlítið áhyggjuefni en skipuleggjendur höfðu gert ráð fyrir aðeins meira snjómagni.

Fyrsta dagleið: Frá Reykjum í Hjaltadal að Tungahrygg

16,7 km, 9,5 kst með stoppum

Á skírdagsmorgni var svo haldið af stað eftir að ábúendur að Reykjum höfðu varað skíðagarpana við hestum sem hefðu tilhneigingu til að borða bíla og því væri fín hugmynd að koma þeim í öruggt skjól. Haldið var af stað inn Hjaltadalinn og fljótlega eftir að sólin knúði fram fatastopp, var haldið inn Héðinsdal til austurs. Þar byrjaði klifrið upp á við, en áður en dagurinn var á enda hafði hópurinn hækkað sig um rúmlega tólf hundruð metra. Þegar komið var í Héðinsskarð (1261 m) kom að erfiðasta hluta leiðarinnar, en það var að koma sér niður austanmegin niður á Barkárdalsjökul. Einhverjar fjallaskíðahetjur hefðu vafalaust kallað þetta æðislega brekku, en fyrir gönguskíðafólk sem ekki er með fastan hæl var um erfiða niðurferð að ræða. Frá Barkárdalsjökli var svo haldið upp að Hólamannaskarði (1210 m) og yfir á Tungnahryggsjökull vestari. Þar beið hópsins skálinn á Tungnahrygg þar sem gist var. Þó ákváðu þrjár öflugar stelpur úr hópnum að tjalda fyrir utan og gista þar. Gangan upp tók nokkuð vel í og var færi þungt á köflum.

Lagt var af stað frá bænum Reykjum í Hjaltadal

Halda áfram að lesa

B1 á Heiðinni háu

Helgina 21. – 23. september 2012 var farin fyrsta ferð í nýliðanna í B1. Fyrir ferðina höfðum við fengið fyrirlestra um hvernig við áttum klæða okkur, haga búnaði, hvað skynsamlegt nesti innihélt og hvernig átti að tala í talstöð. Talstöðvarnar voru það fyrsta til að koma mér á óvart, því það að tala í talstöðvar hljómar mjög einfalt en það reyndist hægara sagt en gert að muna hvað átti að segja og hvernig.  „FBSR æfingastjórn, FBSR hópur 2 kallar.“ Ofsalega einfalt en ofsalega auðvelt að klúðra uppi á fjalli í roki. Búnaðarfyrirlestrarnir voru auðveldari að meðtaka en þeim fylgdu líka verslunarferðir í allar útivistarbúðirnar á höfuðborgarsvæðinu í leit að rétta jakkanum, rétta föðurlandinu og fullkomna matarílátinu.

Við mættum upp í hús FBSR á föstudagskvöldi klukkan 7 eins og venja er fyrir allar ferðir. Þá vorum við búin að skipta okkur niður á tjöld og tjaldfélagarnir búnir að ákveða innbyrðis hver kæmi með prímus og pott. Það var spenningur í hópnum þegar allir voru búnir að koma sér upp í bílana og lagt á stað stundvíslega klukkan átta. Halda áfram að lesa

Nýliðaraun hjá B2 lokið

Um helgina fóru hetjurnar í B2 í gegnum hina alræmdu Hell Weekend, nýliðaraun Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík. Flestir sluppu meira eða minna lifandi. Fleygustu orð helgarinnar eru eignuð Birni Bjartmarssyni: „Ég er mjög stoltur….[dramatísk þögn] af að hafa ekki dáið“.

858677_10151253749407130_1717797021_o

Nýliðakynningar 2012

Nýliðakynningar haustið 2012

Verða haldnar dagana 28. ágúst og 30. ágúst klukkan 20:00 í húsnæði FBSR að flugvallavegi.  Vonumst til að sjá sem flesta á kynningunum.  Endilega látið þá aðila sem hafa áhuga vita og jafnvel koma með þeim á kynninguna.

Getur hver sem er sótt um?

Aldurstakmark er 20 ára eða á 20. aldursári, þó eru undanþágur skoðaðar í hverju tilfelli fyrir sig.  Vera við góða andlega og líkamlega heilsu.  Félagar geta gengið inn í sveitina á aðalfundi í maí, tveimur árum eftir að nýliðanámið hefst.  Reynslan sem árin kenna okkur er vissulega dýrmæt og nýtist mjög vel í björgunarstörfum. Björgunarstörf eiga því alls ekkert síður við fólk sem er á „“besta aldri““.

Kveðja Stjórn FBSR.