B1 á Heiðinni háu

Helgina 21. – 23. september 2012 var farin fyrsta ferð í nýliðanna í B1. Fyrir ferðina höfðum við fengið fyrirlestra um hvernig við áttum klæða okkur, haga búnaði, hvað skynsamlegt nesti innihélt og hvernig átti að tala í talstöð. Talstöðvarnar voru það fyrsta til að koma mér á óvart, því það að tala í talstöðvar hljómar mjög einfalt en það reyndist hægara sagt en gert að muna hvað átti að segja og hvernig.  „FBSR æfingastjórn, FBSR hópur 2 kallar.“ Ofsalega einfalt en ofsalega auðvelt að klúðra uppi á fjalli í roki. Búnaðarfyrirlestrarnir voru auðveldari að meðtaka en þeim fylgdu líka verslunarferðir í allar útivistarbúðirnar á höfuðborgarsvæðinu í leit að rétta jakkanum, rétta föðurlandinu og fullkomna matarílátinu.

Við mættum upp í hús FBSR á föstudagskvöldi klukkan 7 eins og venja er fyrir allar ferðir. Þá vorum við búin að skipta okkur niður á tjöld og tjaldfélagarnir búnir að ákveða innbyrðis hver kæmi með prímus og pott. Það var spenningur í hópnum þegar allir voru búnir að koma sér upp í bílana og lagt á stað stundvíslega klukkan átta.

Ferðinni var heitið á Heiðina háu í tveggja daga gönguferð. Þegar við komum á fyrsta áfangastað á föstudagskvöldinu blasti við okkur ekki neitt, einfaldlega vegna þess að það var kolniðamyrkur. Sem betur hafði verið haft vit fyrir okkur og allir látnir hafa höfuðljósin sín við höndina áður en lagt var á stað. Ljósin voru sett upp og leit var hafin af góðu undirlagi fyrir nætursvefninn.

Á laugardagsmorguninn vöknuðum við snemma, sumir eftir nótt í hryggspennu en aðrir eftir að hafa sofið eins og grjót. Við tókum niður tjöldin og spenntum bakpokana á bakið og gengum af stað. Við fengum tækifæri til að efla keppnisandann yfir daginn þegar hópnum var smalað saman til þessa að tjaldhóparnir gætu keppt í að vera fyrstir til að tjalda. Keppnin var  hnífjöfn og svo hörkuspennandi  að jafnaðist á við spennandi leik í handbolta eða tafli.

Við komum síðdegis á áfangastað laugardagsins og slógum upp tjöldum. Því næst var hópnum skipt í tvennt og sendur upp á sitthvora hæðina vopnuð VHF og tetra talstöðvum. Þar skiptumst við á að kalla á hvert annað  og kepptumst við að vera sniðug. Spennan náði þó hámarki þegar annar hópurinn manaði hinn í keppni aftur niður á tjaldstæðið og fylgdist svo með boðunum komast til skila þegar hinn hópurinn tók á rás. Það fer tvennum sögum af hvor hópurinn sigraði en samveru kvöldsins lauk með teygjuhring sem fór þannig fram að hver og einn sagði hvað hann hét og kom svo með teygju fyrir hópinn. Þetta kvöld var farið að sofa löngu fyrir tíufréttir og var það líklega í fyrsta sinn hjá flestum frá því í barnæsku.

Á sunnudagsmorgninum var enn og aftur pakkað tjöldunum ofan í bakpokann og gengið af stað. Gangan á sunnudeginum einkenndist af því að ganga yfir mosahraunbreiður. Tjalduppsetningarkeppnin var endurtekin en nú þurfti líka að sjóða hálfan lítra að vatni. Eftir keppnina fannst foringjunum tilvalið að við myndum skottast upp á Helgafell og á toppnum var tekin hópmynd. Bílarnir komu svo að sækja okkur rétt hjá Helgarfelli og þaðan var brunað í bæinn.

Eftir ferðirnar hengjum við tjöldin upp til þerris og þrífum bílana. Þegar það var búið fórum við heim og líklegast skelltu allir sér í góða sturtu. Við hittumst svo á velvöldum hamborgarastað ásamt B2 og fylltum á orkutankinn með sveittum borgara.

Þessi ferð tókst mjög vel og kenndi manni ýmislegt um eigin búnað, þá aðallega hvað manni vantaði. Við fengum íslenskan skammt af rigningu en það kom ekki að sök því enginn skildi pollagallann eftir heima.

Texti: Silja Ægisdóttir

Myndir: Arianne Gaehwiller og Karl Birkir Flosason