Greinasafn fyrir flokkinn: Uncategorized

Flugeldaslútt

Sælt veri fólkið og velkomin á árið 2008 😀

Nú er komið að okkar árlega SLÚTT- Partýi ! Jeii gaman saman !

Fjörið fer fram n.k laugardag þann 12 jan

Gleðin hefst kl 20:00 og verðum við öll mætt stundvíslega enda erum við professionals í því að vera á réttum tíma á réttum stað ! Þemað í partýinu verður Áramót enda hafa sennilega mörg okkar annað hvort misst af komu nýja ársins eða verið út á þekju vegna svefnleysis síðustu daga desembermánaðar 2007. Þetta verður að sjálfsögðu alvöru áramótargleði þar sem allir mæta í sínu fínasta pússi, hattar og tilheyrandi verða á staðnum og skálað verður fyrir ,,nýju” ári kl 00.

Aðstoð á Arnarvatnsheiði

Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík var kölluð út 28. desember til aðstoðar Rannsóknarnefnd Flugslysa en lítilli flugvél hafði hlekkst á á Arnarvatnsheiði fyrr um daginn.  Fór sveitin með rannsóknarmann frá RNF upp að vélinni og heppnaðist ferðin vel þrátt fyrir slæmt færi.

Leit að pilti í Reykjavík

Leit hefur staðið yfir síðan kl. 21.00 á nýársdag að 19 ára gömlum pilti sem skilaði sér ekki heim af dansleik á Broadway.

Um 100 björgunarsveitarmenn hafa leitað piltsins í nótt, þar af þrír bílar og um 15 leitarmenn frá Flugbjörgunarsveitinni. Leitin er nú komin í aðra lotu og kom nýr mannskapur í birtingu í dag.

Seinast er vitað um ferðir Jakobs Hrafns Höskuldssonar um kl. 5:30 að morgni nýársdags við Broadway í Ármúla. Jakob er 188 cm á hæð, stuttklipptur, grannvaxinn og var klæddur í dökkar buxur, svarta hettupeysu og með svarta derhúfu. Þeir sem telja sig hafa orðið varir við ferðir Jakobs eru hvattir til að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000.

Óveðursútkall

Um klukkan 2 í nótt var pípt út F3-Grænn á Höfuðborgarsvæðinu vegna lægðar sem var að ganga yfir.  Verkefni höfðu verið að berast síðan um miðnætti en viðbúið var að veðrið færi versnandi og því allar sveitir settar í viðbragðsstöðu.  Rúmum hálftíma síðar var svo heildarútkall á höfuðborgarsvæðinu og sendur allar sveitir út menn.  Rétt eftir fimm var svo síðustu verkefnum lokið. 

Peppfundur

Peppfundurinn verður haldinn annaðkvöld, fimmtudagskvöldið 13. desember!!

Hvetjum alla félaga sem og nýliða til að mæta niðrí sveit og koma sér í gírinn fyrir söluvertíðina sem er framundan.

Við byrjum kl. 20.00 – pizzur og fleira góðgæti í boði. Vonumst til að sjá sem flesta!

Óveðursútkall

Að kvöldi mánudagsins 10. desember var sveitin kölluð út vegna óveðurs í Reykjavík.  Tveir bílar fóru úr húsi ásamt áhöfn og voru að frammá nótt.  Mikill fjöldi útkalla var í borginni og í nógu að snúast fyrir sveitirnar á svæðinu en yfir 50 manns voru í verkefnum á hverjum tíma.

Starfsmaður flugeldanefndar

Flugeldanefnd Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík auglýsir, lausa til umsóknar, stöðu starfsmanns nefndarinnar.

Í starfinu felst umsjón með flugeldavertíðinni sem framundan er, undir stjórn Flugeldanefndar. Um er að ræða markaðssetningu, öflun tilskilinna leyfa, gerð samninga og margt fleira.

Reynsla á sviði rekstrar og/eða markaðsmála er æskileg en þó ekki skilyrði.

Laun eru skv. samkomulagi, mögulega árangurstengd.

Áhugasamir hafi samband.

Fyrir hönd Flugeldanefndar

Vilberg Sigurjónsson
GSM: 696-3305
e-mail: [email protected]

 

Dagskrá vikunnar, Hellweekend

Dagskrá vikunnar er þéttskipuð að vanda.  Í kvöld, þriðjudaginn 20.11. klukkan 20 verður fyrirlesturinn Björgunarmaður í Aðgerðum haldin í húsnæði Landsbjargar í Skógarhlíð.  Það er hann Jónas okkar Guðmundsson sem sér um fræðsluna en einkum er stílað inná B1 og B2. 

Þá ætla fjallabjörgunarsinnaðir félagar að hittast og fara yfir fræðin á bakvið kerfin.  Upplagt fyrir þá sem ekki hafa kynnt sér þetta áður að kíkja og sjá hvaða hugsun er á bakvið aðgerðirnar og uppsetningu kerfanna.
Miðvikudaginn 21.11 verður samæfing undanfarahópa á Höfuðborgarsvæðinu en lýsingin að þessu sinni er "Vatnasull".
Fimmtudaginn 22.11 klukkan 18:15 er æfing að venju.  Byrjum á að hlaupa í ca. 40 mínutur og tökum svo ýmsar æfingar í hálftíma í viðbót.  Allt undir styrkri stjórn Egils en við viljum endilega hvetja alla félaga til að mæta og njóta stemmningarinnar.
Föstudaginn 23.11 klukkan 18:00 byrjar svo Hellweekend hjá B2 en B1 fer í göngu á Hengilsvæðinu klukkan 19.  Talsverður fjöldi félaga hefur boðið sig fram í umsjón Hellweekend en eins og allir félagar þekkja þá er þetta hápunktur þjálfunarinnar og mjög gaman að taka þátt í því með nýliðunum.