Greinasafn fyrir flokkinn: Fréttir

Aðalfundur FBSR 2013

Aðalfundur Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík verður haldinn þann 8. maí 2013 kl. 20:00 í húsi sveitarinnar að Flugvallarvegi.

Dagskrá fundarins:
1.    Formaður setur fund.
2.    Kosning fundarstjóra og fundarritara
3.    Skýrsla stjórnar og umræður um hana.
4.    Endurskoðaður rekstrar og efnahagsreikningur 2012, samþykktur af félagslega kjörnum endurskoðendum og umræður um hann.
5.    Inntaka nýrra félaga.
6.    Hlé – Kaffiveitingar á vegum kvennadeildarinnar, kr. 1.500 (í reiðufé)
7.    Kosning formanns (til eins árs).
8.    Kosning tveggja meðstjórnenda (árlega til tveggja ára).
8.a  Kosning meðstjórnanda til eins árs í stað fráfarandi stjórnarmanns
9.    Kosning tveggja varastjórnenda (til eins árs).
10.  Kosning tveggja endurskoðenda og eins til vara.
11.  Tillaga að lagabreytingu, umræða og kosning
12.  Önnur mál

Lagabreytingatillaga hefur löglega borist stjórn og er svo hljóðandi:
„Við undirritaðir Marteinn Sigurðsson og Stefán Þórarinsson gerum það að tillögu okkar að 1. Lið í 3. Grein laga FBSR sem hljóðar svo „Að verða minnsta kosti 17 ára á því ári sem þjálfun byrjar“ verði breytt og mun hljóða svo „Að vera 19 ára þegar þjálfun hefst en undanþágu má gera hafi viðkomandi orðið 18 ára á árinu sem þjálfun hefst“.

Við hvetjum alla félaga til að mæta á aðalfundinn og hafa áhrif á þær ákvarðanir sem þar verða teknar.

FBSR á Sumarhátíð í Bústaðahverfi 2013

Sumardagurinn fyrsti var haldinn hátíðlegur í Víkinni eins og venja hefur verið. Byrjað var á grilli við Grímsbæ og síðan var haldið í skrúðgöngu að Bústaðakirkju. Eftir kirkju hófst svo dagskráin í Víkinni þar sem krakkarnir gátu skemmt sér í hoppukastala, farið í ratleik, fengið andlitsmálun og margt fleira skemmtilegt á meðan hljómsveitin Yellow Void og fleiri skemmtu með söngatriðum.

Gestir hátíðarinnar gátu einnig látið reyna á krafta sína með því að draga Patrol frá Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík. Nokkrir meðlimir FBSR höfðu útbúið doubblunina 9:1 og 5:1 þannig að lítil kríli gátu dregið jeppann fram og tilbaka. Krakkarnir fengu líka að kíkja inn í bílinn, skoða tæki og tól og svo var heilmikil ýlaleit í gangi á sama tíma. Sumardagurinn fyrsti bauð uppá snjókomu og sól þess á milli en ungir sem aldnir skemmtu sér og sáum við jafnvel efni í tilvonandi flubba.

no images were found

Texti og myndir: Salbjörg Guðjónsdóttir

Skíðaferð á Eyjafjallajökul

Þann 20. apríl (21. apríl til vara) fer FBSR í dagsferð á Eyjafjallajökul og stefnt er að því að toppa jökulinn úr norðvestri og suðri.

Skúli Magg mun fara fyrir hóp sem gengur  á skíðum upp Skerin, á Hámund, niður á Fimmvörðuháls og þaðan í Skóga. Fólki er frjálst að vera á gönguskíðum eða fjallaskíðum en skíðin þurfa helst að vera með skinn. Ef ekki þarf fólk að vera undir það búið að labba upp jökulinn með skíðin á bakinu.

Matti mun leiða gönguhóp upp klassísku leiðina eða frá Seljavöllum og niður aftur.

Skráning og frekar upplýsingar má finna á innra svæði D4H.

Framboð til stjórnar FBSR

Senn líður að aðalfundi Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík en gert er ráð fyrir að hann verði haldinn fyrri hluta maímánaðar. Á aðalfundi verður kosið í embætti formanns, tveggja meðstjórnenda og tveggja varamanna og er hér með auglýst eftir framboðum í þessi embætti. Öllum fullgildum félögum í FBSR er frjálst að gefa kost á sér til stjórnarstarfa. Tengiliður uppstillingarnefndar er Vilberg Sigurjónsson (vilberg.sigurjonsson <hjá> is.aga.com, sími 696 3305) og veitir hann framboðum móttöku og gefur frekari upplýsingar.

Páskaferð FBSR

Sú hefð hefur skapast að nýliðar í B2 skipuleggi páskaferð Flugbjörgunarsveitarinnar. Þetta árið verður haldið norður á Tungnahryggsjökul og gengið á skíðum í hinni stórbrotnu náttúru Tröllaskagans. Ferðin verður þriggja nátta og möguleiki á tveimur nóttum í skála fyrir þá sem fengið hafa nóg af tjaldlegu í vetur. Lagt verður af stað úr húsi FBSR kl. 19:00 miðvikudaginn 27. mars. Þann dag og næsta verður gengið upp á jökulinn. Á föstudeginum verður gengið á tinda í nágrenninu þar sem vonandi fæst útsýni yfir Tröllaskagann. Síðasta daginn verður síðan gengið niður Kolbeinsdal og keyrt í bæinn. Það er næsta víst að þetta verður epísk ferð sem enginn vill missa af enda umhverfið einstakt og félagsskapurinn góður. Skráning fer fram á D4H og frekari upplýsingar fást hjá Ilmi í síma 849 2692.

Á myndinni að ofan er horft yfir jökulinn, eftir Tröllamúrnum til Hólamannaskarðs.

Útkall vegna ófærðar á höfuðborgarsvæðinu

aFlugbjörgunarsveitin tók þátt í að aðstoða íbúa höfuðborgarsvæðisins í óveðrinu sem gekk yfir í gær. Björgunarmenn sveitarinnar sinntu hinum ýmsu verkefnum þar á meðal að losa fasta bíla og festa niður lausar þakplötur. Aðstæður voru á köflum mjög erfiðar. Á Kjalarnesi fóru hviðurnar á tímabili í 35 m/s og varla sást fram fyrir húddið á bílnum. Brugðið var á það ráð að láta björgunarmann ganga í kantinum með bílnum svo bílstjórinn áttaði sig á því hvar hann var staddur miðað við veginn. Dagurinn gekk að flestu leyti nokkuð vel, vegfarendur voru skilningsríkir og samstarf við Lögreglu, Vegagerðina og aðrar björgunarsveitir mjög gott.

no images were found

Fjallasvið heimsækir HSSR

aaFimmtudagskvöldið 28/2 2013 heimsótti fjallasvið FBSR klifurvegginn í húsi Hjálparsveitar Skáta í Reykjavík. Þar tók Danni Landnemi á móti okkur og kunnum við honum bestu þakkir fyrir. Í klifurvegg HSSR er hægt að æfa sig í leiðsluklifri og einnig hafa verið settar upp nokkrar „drytool“ leiðir sem klifraðar eru með ísöxum. Einstaklega vel heppnað æfingakvöld hjá Fjallasviði.

Nýliðaraun hjá B2 lokið

Um helgina fóru hetjurnar í B2 í gegnum hina alræmdu Hell Weekend, nýliðaraun Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík. Flestir sluppu meira eða minna lifandi. Fleygustu orð helgarinnar eru eignuð Birni Bjartmarssyni: „Ég er mjög stoltur….[dramatísk þögn] af að hafa ekki dáið“.

858677_10151253749407130_1717797021_o

Nýliðakynningar 2012

Nýliðakynningar haustið 2012

Verða haldnar dagana 28. ágúst og 30. ágúst klukkan 20:00 í húsnæði FBSR að flugvallavegi.  Vonumst til að sjá sem flesta á kynningunum.  Endilega látið þá aðila sem hafa áhuga vita og jafnvel koma með þeim á kynninguna.

Getur hver sem er sótt um?

Aldurstakmark er 20 ára eða á 20. aldursári, þó eru undanþágur skoðaðar í hverju tilfelli fyrir sig.  Vera við góða andlega og líkamlega heilsu.  Félagar geta gengið inn í sveitina á aðalfundi í maí, tveimur árum eftir að nýliðanámið hefst.  Reynslan sem árin kenna okkur er vissulega dýrmæt og nýtist mjög vel í björgunarstörfum. Björgunarstörf eiga því alls ekkert síður við fólk sem er á „“besta aldri““.

Kveðja Stjórn FBSR.