Leit að eldri manni

Í nótt klukkan 1:20 voru björgunarsveitir á Höfuðborgarsvæðinu kallaðar út til leitar innanbæjar að eldri manni með Alzheimer sem hafði horfið af dvalarheimili í borginni. Fimm sérhæfðir leitarmenn, þrír björgunarmenn ásamt bílstjórum á tveimur bílum fóru frá okkur til leitar. Aðeins um hálftíma eftir að leit var hafin fannst maðurinn. Hann var þá á gangi í borginni og amaði ekkert að honum.

Óveðursútkall


Enn einn óveðurshvellurinn skall á síðdegis 21. desember með miklu hvassviðri og rigningu. Beðið um aðstoð við að festa fjúkandi hluti og bjarga verðmætum frá skemmdum. Að þessu sinni var aðeins beðið um einn hóp frá hverri sveit og var einn bíll frá okkur með fjögurra manna áhöfn að við hin ýmsu verkefni það kvöld.

Óveðursútkall


Að kvöldi níunda desember fór djúp lægð hratt yfir landið með tilheyrandi óveðurshvelli. Allir bílar okkar með alls 12 manns í áhöfn voru á ferðinni innan bæjar sem utan við að bjarga verðmætum og hjálpa fólki í ófærðinni. Hellisheiði var lokað vegna veðurofsans og voru "44 jepparnir sendir þangað til að sækja fólk í bíla sem sátu þar fastir. Kallað var út klukkan 19:30 og stóðu aðgerðir til um klukkan tvö um nóttina.

Tvær stúlkur í sjálfheldu

Um hádegisbil annars desember var kallað út á hæsta forgangi, Forgangur 1 – Rauður, vegna tveggja stúlkna sem lent höfðu í sjálfheldu í felli austan við Hafravatn. Um var að ræða hóp unglinga sem höfðu verið á gangi þegar
tvær stúlkur misstu fótanna og runnu fram af fellinu. Þar sátu þær í
sjálfheldu.

Beðið var sérstaklega um fjallbjörgunarmenn. Svo heppilega vildi til að
nægur mannskapur var í húsi hjá okkur enda undirbúningur fyrir
jólatrjáasölu að hefjast.Viðbragstíminn var því afar stuttur. Þegar okkar menn voru á leið að Hafravatni tóku þeir eftir fólki á gangi í nágrenninu nokkuð frá slysstaðnum. 

Þegar aðgerðir voru ný hafnar við að koma stúlkunum tveimur niður kom í ljós að hluti af hópnum hafði villst og var undirbúið að hefja leit að þeim. Okkar menn tilkynntu þá að þeir hefðu séð fyrrgreint fólk á gangi á svæðinu. Sexhjól var sent þangað sem fólkið hafði sést og kom þá í ljós að það voru ungmennin sem höfðu villst af leið og var þeim komið til bjargar. Björgun stúlknanna tveggja úr sjálfheldunni gekk einnig giftusamlega.

Jósep Gíslason

 

Fullt nafn:
Jósep Gíslason

Gælunafn:
Jobbi

Aldur:
42

Gekk inn í sveitina árið:
1998 ef ég man rétt

Atvinna/nám:
Eigandi og hönnunarstjóri hjá Fjölva. Tónlistarmaður

Fjölskylduhagir:
Einhleypur tveggja barna faðir

Gæludýr:
Engin

Hópastarf og annað starf innan sveitarinnar:
Leitarhópur og sjúkrahópur

Áhugamál:
Útivist, ferðalög, tónlist

Uppáhalds staður á landinu:
Hornstrandir

Uppáhalds matur:
Flest sem að kjafti kemur en grjónagrautur klikkar aldrei

Mesti viðbjóður sem þú hefur smakkað:
Kjötstappa (svipað og plokkfiskur nema bara kjöt)

Ef þú ættir eina ósk, hver yrði hún (bannað að óska sér fleiri óska)?
Halda heilsu

Æðsta markmið:
Góð heilsa

Eftirminnilegasta augnablikið úr starfinu:
Að horfa á eftir félaga mínum detta ofan í sprungu og fótbrjóta sig.

 


Í Himalaya. Andrea, Gummi og ég


Tjaldbúðir í Himalaya


Á flugslysaæfingu við Reykjarvíkurflugvöll. Stumrað yfir „sjúklingi“ sem „brotlenti“ úti í skógi.


Fararstjórn á Krít 2006


Fjallið og Múhameð


Baksvipur


Dóni á fjöllum


Gummi og Ég á niðurleið í Himalaya


Handaband í 5000m eftir eltingaleik. Gummi og ég.


Íþróttaálfurinn á Pachnes á Krít 2400m.


Ég á kajak


Jósep túristi við Taj Mahal.


Ekkert jafnast á við að glugga í góðar bókrullur.


Kajak á Krít 2006


Kajakkennsla

 

 

 

Leit að kajakræðara

Laust eftir miðnætti aðfararnótt mánudagsins 27. nóvember var sérhæfður leitarhópur kallaður til leitar að kajakræðara sem saknað var. Hann hafði haldið til róðrar í Hvalfirði þá fyrr um daginn en ekki skilað sér.

Leitarhópum var stefnt í Hvammsvík þar sem leit átti að hefjast. Stuttu eftir komuna þangað fann þyrla Landhelgisgæslunnar bátinn og stuttu seinna manninn sem þá var látinn.

Námskeið í Finse


Að venju sendir Flugbjörgunarsveitin nokkra félaga á árlegt námskeið í snjóflóðabjörgun og stjórnun aðgerða í Finse í Noregi. Að þessu sinni er það haldið 3. til 11. mars næstkomandi. Það geta fimm farið út og nú þegar eru tvö sæti úthlutuð.  

Umsækjendur þurfa að vera í það minnsta slarkfærir í norðurlandatungumálum og á skíðum, en námskeiðið er á norsku og hluti af verklegu kennslunni fer fram á skíðum.

Námskeiðið er á vegum Norska Rauða krossins og innifalið er matur og gisting. Flugbjörgunarsveitin og SL veita styrk  fyrir flugfargjald og lestarmiða. Skila þarf inn skýrslu um ferðina.

Umsóknum skal skila til gjaldkeri <hjá> fbsr. is.  

Upplýsingar um námskeiðið: www.redcross.no/finsekursene 
Upplýsingar og myndir af svæðinu: www.finse.com

Leit að eldri manni

Rétt fyrir klukkan níu að morgni þriðjudagsins síðastliðins var kallað út til leitar að eldri manni sem var saknað. Hann hafði síðast sést um kl. 22 kvöldið áður og óttast var um afdrif hans.

Grunur lék á að hann hefði farið eitthvert á bílnum sínum og var því beitt slóðaleit. Fjórir menn á tveimur bílum frá okkur fóru til leitar á slóðum í kringum borgarsvæðið. Maðurinn kom svo í leitirnar af sjálfsdáðum stuttu eftir að leitin hófst.

Nýliðaferð 4×4 2006

Símon og Steinar á FBSR-5 í Nýliðaferð 4×4

Símon og ég skelltum okkur í nýliðaferð Ferðaklúbbsins 4×4 á splúnkunýja patrólnum, FBSR-5. Við vorum smá smeykir að fara í svona ferð á algjörlega óreyndum bíl, en þær áhyggjur voru óþarfar því bíllinn reyndist frábær. Það var ekkert út á hann að setja eftir þessa ferð.

Hópurinn hittist á ónefndri bensínstöð hér við bæjarmörkin, alls 11 bílar, allir sæmilega búnir, nokkrir 44" og nokkrir 38". Þaðan var keyrt inn í Hrauneyjar, þar sem þeir sem höfðu ekki jafn marga aukatanka og við þurftu að tanka, s.s. allir aðrir. Eftir ágætis hamborgara á línuna var haldið inn í Jökulheima. Færið var grjóthart, enda var bara grjót og einstaka klakaskafl í veginum alla leið inn í Jökulheima. Í Jökulheimum var gist í þeim tveimur ágætu skálum sem þar eru. Á laugardagsmorgni var ræs um átta og brottför á slaginu níu í gaddafrosti, tæpar tuttugu gráður ef ég man rétt og fóru bílar misauðveldlega í gang við þær aðstæður. Allir komust þó af stað og upp á jökul í leit að snjó. Færið var hart uppi á jökli og brunuðum við því áfram, þar til einn bíllinn varð eitthvað móður í kuldanum og missti allt afl. Bíllinn var því skilinn eftir en mannskapnum hent í annan bíl og brunað upp á Grímsfjall. Stoppið var ekki langt á Grímsfjalli, enda -29°C, allir röltu þó um og dáðust að útsýninu. Eftir Grímsfjall renndum við jeppunum niður austurhlíðina og í sveig niður á Grímsvötn að virða fyrir sér gíginn og 30 stiga frostið sem þar var. Ég held ég geti fullyrt það að enginn í hópnum hafi áður upplifað jafn mikinn kulda. Það merkilega var samt að vegna þess hve mikið blankalogn var þarna, var í góðu lagi að vera á peysunni einni (eða tveim, þrem). Frá Grímsfjalli var ekið beinustu leið upp á Þórðarhyrnu og brölt upp á hana á broddum eða í sporunum sem Símon hjó með brunamannaöxinni. Ég ætla nú ekki að reyna að lýsa útsýninu þaðan. Þaðan var ekið, með stuttri viðkomu hjá Pálsfjalli, heim í skála og dýrindis grill. Fólk lá svo á meltunni fram eftir kvöldi og spjallaði um dekk, smurolíur og drif.

Þetta var s.s. alveg ljómandi ferð í frábæru veðri, en engum snjó. Þ.e.a.s. ekki fyrr en við komum í bæinn. Í bænum var eins og margir kannast við ófært um allt og ófærðarútkall í gangi.

Takk fyrir ferðina,

Steinar Sig.

Hér eru svo nokkrar myndir

 

Stór jeppaferð sveita á svæði 1


Nú um helgina 24. til 26. nóvember stefna bílahópar björgunarsveita á svæði 1 upp á hálendið
í stóra reisu. Tilgangurinn, auk þess að hafa gaman að, er að þjappa
hópunum meira saman og auka samstarfið. Farið verður í Veiðivötn á
föstudagskvöldið og síðan tekinn stór og góður hringur um helgina.
 

Bílahópar HSSR, HSSG og HSSK munu fara með okkur í þessari ferð. Þessa
stundina er verið að fletta í sundur kortunum og ákveða nánar rúntinn
sem á að taka en í öllu falli er markmiðið að gera þetta að
skemmtilegri og krefjandi ferð þannig að menn fái sem mest út úr
henni. 

Skráning og allar nánari upplýsingar eru hjá Ásgeiri í síma 861 2998