Greinasafn fyrir flokkinn: Uncategorized

Stutt myndasaga úr Svissnesku Ölpunum

Flubbarnir Hallgrímur Kristinsson og Skúli Magnússon voru á ferð í Svissnesku Ölpunum um miðjan Júní mánuð í sumar og var ferðinni heitið á fjallið ‘Bishorn’ sem er 4.153 metra hátt.  Bishorn er umkringt tignalegri fjölskyldu og er Weisshorn (þriðja hæsta fjall Sviss) næsti tindur við Bishorn.  Gott útsýni er einnig yfir Maatterhorn af tindi Bishorn.  Því miður var veðrið þó ekki skaplegt á toppadaginn og lítið fór fyrir því stórkostlega útsýni sem Bishorn býður upp á.  Þeir náðu þó á toppinn og hér er stutt ferðasaga. (ca.7MB)

f1
Mynd 008 – Gist var í Zinal dalnum, í um 1.600 metra hæð.  Skúli býr sig undir svefn

f2
010 – fegurðinn yfir dalinn var mikil þegar við vöknuðum.

f3
014 – lagðir af stað í gönguna. Halli pósar fyrir framan tignaleg fjöllin í baksýn. Á myndinn sést vel í Weisshorn (4.506 M), eitt tignalegasta fjallið í Svissnesku ölpunum.

f4
015 – komnir að „trélínu“ og Skúli pósar með fallegan foss í baksýn.

f5
016 – ágætis útsýni yfir Zinal dalinn.

f6
018 – Komnir vel yfir „trélínu“ og landslagið orðið hrjóstugara. Skúli gerir að tilvonandi hælsæri.

f7
021 – sökum þess hversu snemma um sumarið við vorum (miðan Júní), var snjólína nokkuð neðar en ella. Aðal vertíðin opnar ekki fyrr en um mánuði síðar (miðjan Júlí) þegar skálar opna fyrir almenningi. Hérna eru við komnir í snjólínu og Skúli tekur stefnu á skálann sem var í sjónlínu. Ský voru farin að myndast í kringum okkur.

f8
024 – Halli tekur síðustu skrefin upp bratta hlíð sem að hrygg, þar sem skálinn situr.

f9
025 – Hér er Skúli að taka síðustu skrefin upp á hrygginn.

f10
026 – Hér sést skálinn (Cabane de Tacuit) sem áætlað var að gista í um nóttina (3.256m). Tacuit skálinn er með hæstu skálum í Sviss. Glitta má í Skúla sem gengur síðustu þrepin að skálanum.

f11
028 – Skúli eldar kvöldmatinn. Skálinn var einungis með “vetraropnun“ og því aðeins hluti skálans opinn. Engin þjónusta var á staðnum og fátt um manninn.

f12
030 – Klukkan 5 að morgni næsta dags var útsýnið hreint stórkostlegt. Skýjabakkin sem hafði blundað yfir okkur daginn áður hafði „sest“ í nánst sömu hæð og skálinn.

f13
032 – Halli uppáklæddur og tilbúinn í slaginn kl. 05:30. Sólin farin að teygja geisla sína á nálæg fjöll og ekki er hægt að kvarta yfir útsýninu.

f14
034 – Komnir á jökulinn sem liggur að Bishorn og enn lofar veðrið góðu.

f15
036 – skömmu síðar fór að þykkna upp og þá þurfti að taka fram áttavitann og gps til að tryggja að við værum á réttri leið.

f16
037 – Með okkur í skálanum um nóttina voru þrír pólverjar sem einnig voru á leið á Bishorn. Hér sást þeir ganga í sporunum okkar á leið upp jökulinn. Stuttu síðar þykknaði enn frekar upp og við sáum þá ekki aftur fyrr en undir toppnum.

f17
038 – Komnir undir toppinn og skyggnnið nánast ekki neitt. Snjórinn var mjög þungur svona ofarlega og þurftum við að vaða hann upp að hnjám efst í fjallinu. Þá var gott að geta skiptst á að ryðja. Lítið var um myndartökur á þessum tíma en þessi er tekinn að Skúla að undirbúa sig undir síðustu spönnina. Þarna þurfti hann að krossa sprungu til að komast upp á toppinn sem sést að hluta í baksýn. Allt fór þó vel og snjóbrúin gaf sig ekki.

f18
042 – klukkan rétt fyrir 10 um morguninn og Skúli á toppnum og útsýnið ekki neitt!

f19
043 – Halli á toppnum

f20
045 – skyggnið hélt áfram að versna um daginn og snjóaði nánast alla leið niður. Hér er Halli kominn í 1.900 metra og enn snjóar…

f21
046 – Komnir á leiðarenda og loksins niður úr snjókomunni.

Við leitum að nýju fólki

Hefur þú hugleitt að snjór geti verið eitthvað annað en það sem er fyrir manni í umferðinni? Gætir þú hugsað þér að stunda fjallamennsku, jeppamennsku, vélsleða eða jafnvel fallhlífastökk? Ert þú þessi týpa sem gætir hugsað þér að vera til taks þegar aðrir eru í neyð? Kannski áttu þá erindi til okkar!

Við leitum að nýju fólki sem er til í að takast á við þau ótrúlega fjölbreyttu og skemmtilegu verkefni sem björgunarsveitarfólk þarf að glíma við.

Kynningarfundir fyrir nýliða verða haldnir í húsi okkar við Flugvallarveg (sjá kort hér)  1. og 4. september kl. 20.

Ef þú getur ekki mætt á kynninguna þá getur þú alltaf sent póst á netfangið [email protected] og fengið þar allar upplýsingar.

Á þessari síðu getur þú lesið örlítið um nýliðastarfið og út á hvað það gengur. Við viljum samt eindregið hvetja fólk til að mæta á kynningarfundina til fá upplýsingarnar beint í æð og sjá með eigin augum hvað við erum að gera.

 

 

 

Föstudagurinn 22.ágúst!!

Föstudaginn 22. ágúst ætlum við að hittast niðri í húsi eftir vinnu eða um 5- leytið. Ætlunin er að taka til að þrífa inni og gera fínt í kringum húsið úti. Fólk mætir bara þegar það getur og auðvitað í vinnu gallanum 

Þar sem flestir, ef ekki allir, eru að fara að taka þátt í Glitnismaraþoninu morguninn eftir og styrkja þar með sveitina um leið ætlum við að peppa hvort annað upp eftir tiltektina. Við getum þá deilt Voltaren deap heat, B-vítamíni og reynslusögum af hlaupinu yfir gómsætum kolvetnaríkum pastarétt og Kristal sport. 

Eins og á aðra viðburði sveitarinnar er absolút skyldumæting!

Hjólaferð FBSR helgina 29. – 31.ágúst.

Hjólaferð FBSR verður farin helgina 29. – 31.ágúst. Á föstudagskvöld verður keyrt að skálanum við Sveinstind. Á laugardag verður hjólað um Blautulón meðfram Eldgjá og um jeppaslóða að Álftavötnum. Á sunnudeginum verður hjólað frá Álftavötnum um Strútslaug og endað við skálann Strút og þaðan verður haldið í bæinn.
Þessi ferð er jafnt fyrir inngengna sem nýliða og þarf fólk ekki að vera í brjáluðu hjólaformi þar sem að allur búnaður verður keyrður á milli.
Vinsamlegast tilkynnið þátttöku á spjallsíðu FBSR.

Útkall í Landmannalaugar 5. ágúst 2008

Af vefnum Landsbjorg.is.  Á sjötta tug björgunarsveitamanna leituðu erlends ferðamanns við Landmannalaugar aðfararnótt laugardags. Mun maðurinn hafa farið í gönguferð frá tjaldsvæðinu og ætlaði hann að ganga svokallaðan Skallahring upp frá Laugum. Hann skilaði sér ekki til baka og var þá hafin leit. Maðurinn fannst heill á húfi rétt fyrir klukkan sjö um morguninn. Hann var kaldur og hrakinn en vel á sig kominn að öðru leyti. Farið var með hann í skála í Landmannalaugum.

Básagæsla

Það vantar 10 manns fyrir næstu helgi, Verslunarmannahelgina, í Bása.  Því fleiri sem eru þeim mun minna er að gera.
Endilega taka bara fjölskylduna með,  hún getur þá farið í göngutúr eða skemmt sér á meðan flubbinn sinnir sínu. 
Brottför á föstudag fer eftir hvenær fólk er laust úr vinnu og þess háttar.

Sendið póst á [email protected] til að tilkynna þátttöku.

kv. Stefán Þ.

Útkall í Keflavík

Sunnudaginn 27.júlí var FBSR kölluð út vegna hættuástands á Keflavíkurflugvelli.  Var útkallið afturkallað örfáum mínutum eftir boðun en þá hafði flugvélin lent heil á höldnu með gangtruflanir í hreyfli.

Útkall í Esjuna 24.júlí 2008

Flugbjörgunarsveitin var kölluð út í gær vegna tilkynningar um nakinn mann í hlíðum Esju.  Sést hafði til mannsins um hádegið og voru björgunarsveitir kallaðar út skömmu síðar. 

Voru hópar frá sveitinni að störfum frá hádegi og frammeftir nóttu en í undirbúningi var að koma ferskum fótum á fjallið þegar maðurinn fannst í dag, föstudag.

Útkall í Keflavík

Fimmtudaginn 10. júlí var Flugbjörgunarsveitin kölluð út vegna hættuástands á Keflavíkurvelli en þar var farþegaþota að koma inn til lendingar með dautt á einum af tveimur hreyflum.

Þrettán mínutur liðu frá útkalli að afturköllun en voru þá þrír bílar sveitarinnar að leggja af stað að söfnunarsvæðinu við Straumsvík.