Greinasafn fyrir flokkinn: Atburðir

Búnaðarbazar ÍSALP & FBSR

Áttu fulla geymslu af græjum sem hafa ekki verið
hreyfðar lengi? Vantar þig fjallaskíðaskó í 43? Lumarðu kannski alveg
óvart á þremur prímusum og auka loftdýnu af því þú gast ekki ákveðið
þig á sínum tíma hvað væri best? Viltu gera fáránlega góð kaup á
reyndum fjallagræjum? Ertu að svipast um eftir reyndu göngutjaldi?

Ef þú ert í þessum pælingum þá ættirðu að kíkja á búnaðarbazar ÍSALP og Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík.

Þetta er annað árið í röð sem ÍSALP heldur
búnaðarbazar í samstarfi við FBSR. Mæting var góð í fyrra en við höfum
ríka ástæðu til þess að halda að í ár verði pakkað út úr húsi.

Hvar: Hús Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík við Flugvallarveg

Hvenær: Fimmtudagskvöldið 15. Október kl. 20. Seljendur hvattir til að mæta kl. 19.30

Munið að mæta í prúttstuði með fulla vasa af reiðuféi. Næsti hraðbanki er á Hótel Loftleiðum.

 

Fjallamennska að atvinnu

Miðvikudaginn 18. mars ætlar Jökull Bergmann að snúa aftur til útungunarstöðvar sinnar og segja okkur frá því sem hann hefur verið að bralla síðustu misserin. Hvað felst í því að vera UIAGM-IFMGA fjallaleiðsögumaður og hvernig maður á að bera sig að í náminu og vinnunni.

Hefst klukkan 19:30.

Búnaðarbazar ISALP og FBSR 25. september

Íslenski alpaklúbburinn og Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík halda sameiginlegan búnaðarbazar í húsnæði Flugbjörgunarsveitarinnar við Flugvallarveg, fimmtudaginn 25. september.
Á þessum síðustu og verstu er ekki úr vegi að gramsa í geymslunni og draga fram allt ónotaða glingrið.

Áttu notaða eða nýja gönguskó, tjöld, dýnur, prímusa, skíði, skíðaskó, sólgleraugu, hnébuxur, goretex eða seglklæðnað, stafi, fjallhlífa, kite, svefnpoka, bakpoka, klifurdót sem ekki er komið yfir síðasta söludag, brodda, axir eða eitthvað annað í ætt við þennan lista?
Ef svo er, mættu þá á búnaðarbazarinn og komdu þessu í verð.

Við stefnum að stærsta búnaðarbazar áratugarins. Við hvetjum alla sem vilja gera góð kaup eða fá smá vasapening til að mæta.
Búum til alvöru markað og hittum fjallafólk!

Um kl. 20.30 munu Atli og Ágúst sýna myndir frá ferð sinni um alpana.

Við vonumst til að sjá sem flesta!!

Búnaðarbasar ISALP

Fimmtudaginn 15. nóvember verður ISALP með myndasýningu og búnaðarbasar í klifurhúsinu. ( kort )
Myndasýningin byrjar klukkan 20 og er í umþaðbil hálftíma en þá hefst basarinn.  Nú er um að gera fyrir eldri félaga að losa gamla dótið úr geymslunni og koma því í verð.  Fyrir þá yngri er þetta tilvalið tækifæri til að næla sér í allskonar dót á góðu verði. 

Hvetjum alla til að mæta, sjá flottar myndir og víla-og-díla.

Myndakvöld 1. nóv

Þann 1. nóvember verður haldið myndakvöld í húsnæði FBSR við Flugvallarveg.  Fjöldanum öllum af myndum úr hinum ýmsu ferðum jafnt innan lands og utan verður varpað á vegg og reikna má með skemmtilegum sögum, hvort sem er sönnum eða ekki jafn sönnum, dæmi hver fyrir sig.