Greinasafn eftir: stjorn

Lokafrágangur

Tiltekt eftir flugeldasölu er árlegur viðburður og hefur vaskur hópur sinnt verkinu undanfarna daga.   Það sem eftir er mætti kalla snurfuss en í því felst að skúra gólf, fægja glugga og flytja til sófasett.  Í kvöld klukkan 18 verður haldið áfram tiltektinni og sjáum við vonandi sem flesta.

Ef þú kannt ekki á kúst þá skaltu hafa samband við Sigurgeir í síma 772-7400 og hann kemur þér í samband við réttu lagermennina en enn á eftir að flokka og telja einhverja kassa af söluvöru.

Leit að tveim mönnum í Skarðsheiði 20.desember 08

Af vef SL:
Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar leituðu á laugardagskvöld tveggja manna sem villtust í slæmu veðri í Skarðsheiði undir kvöldið. Annar mannanna fannst fljótlega heill á húfi en símasamband var við hinn manninn meðan hans var leitað. Hátt í hundrað manns á vegum björgunarsveitanna komu að leitinni.  Skafrenningur og töluverður vindur var á svæðinu og færð þung sem tafði fyrir björgunarmönnum.
Seinni maðurinn fannst um klukkan 22.00, kaldur og hrakinn og sótti þyrla Landhelgisgæslunnar hann.

Var einn fjögurra manna bíll sendur frá sveitinni auk þess sem tveir flubbar fóru með bíl frá hssr.

Óveður á svæði 1

Að kvöldi 11.desember var sveitin kölluð út vegna óveðurs á svæði 1.   14 félagar mættu til leiks og stóðu vaktina til að ganga eitt í nótt.  

Nokkur erill var í aðgerðum og mörgum hefðbundnum verkefnum sinnt á borð við lausar þakplötur og fjúkandi girðingar en einnig verkefni sem ekki eru jafn algeng eins og brotnir ljósastaurar og að huga að landfestum skipa en sjótengd verkefni hafa löngum fallið öðrum sveitum í skaut.

Útkall á Fimmvörðuháls

Um klukkan hálf eitt aðfaranótt fimmtudagsins 11.desember var sveitin kölluð út vegna göngumanna er saknað var á Fimmvörðuhálsi.   Tæpum tíu mínutum síðar voru boðin afturkölluð en þá höfðu mennirnir komið fram í Básum heilir á höldnu.  Boðunin gekk vel og var ekki langt í að fyrsti bíll legði af stað. 

Leit að rjúpnaskyttu

Þann  29. nóvember hófst leit að rjúpnaskyttu við Skáldabúðaheiði.  Leitin stóð í tæpa viku áður en henni var frestað um óákveðin tíma. FBSR var með menn á svæðinu alla dagana utan miðvikudags og fimmtudags en þá fór endurskipulagning leitar fram.

Þriðjudagsatburður – Óveðursútköll

Í kvöld – þriðjudaginn 2.desember – klukkan 20:00 ætla Bubbi & Óli að ræða um óveðursútköll. Titill umræðunnar er "Fyrir hverja? Hvað er gert? Hvar er dótið geymt?" og verður farið yfir helstu atriði sem við þurfum að standa klár á í óveðursútköllum. Hvetjum alla til að mæta!
Eftir áramót verða þriðjudagarnir efldir á ný en til stendur að vera með fyrirlestra, ferðir og ýmislegt sniðugt fyrir inngengna á þriðjudögum til móts við nýliðana.