Breytingar á húsnæði

Í haust munu verða gerðar talsverðar breytingar á húsnæðinu okkar.
Laugardaginn 26. ágúst verður vinnudagur þar sem þessar breytingar
verða undirbúnar. Félagar eru beðnir um að rýma skápana sína fyrir þann
dag!

Í haust verða gerðar talsverðar breytingar á húsnæðinu okkar.
Ætlunin er að rífa veggi og skápa á milliloftunum inni í bílasal. Öðru
megin verður komið upp félagsaðstöðu og nýju stjórnarherbergi en hinu
megin verður komið fyrir skápum fyrir einstaklingsbúnað. ÞAU SEM EIGA DÓT Í SKÁPUM VERÐA AÐ RÝMA ÞÁ FYRIR 26 ÁGÚST!

Til þess að hægt verði að byrja á þessari vinnu þá ætlum við að koma
saman á laugardaginn 26. ágúst til að henda út gömlu dóti og drasli,
sem safnast hefur upp í skúmaskotum yfir árin, og henda því sem ekki
telst til verðmæta. Ef nægur mannskapur fæst þá verður eflaust hægt að
byrja á niðurrifsstarfseminni. Í lok dags verður grillið fírað upp og
sitthvað fleira skemmtilegt gert. Nýr vefur fbsr.is verður kynntur og vel gengur, þá verður nýr bíll kominn í hús og verður hann þá vitaskuld til sýnis.

 

Flubbi á Mt. Ararat

Jón Þorgrímsson, fjallaleiðsögumaður og rennismiður með meiru, gerði
sér lítið fyrir á dögunum og kleif Araratfjall í Tyrklandi (5137 m.)

Jón Þorgríms kleif á dögunum Araratfjall í Tyrklandi (5137 m.), þar
sem Nói strandaði á sínum tíma. Myndir og frásögn af ferðinni munu
birtast hér á vefnum síðar, þegar Jón er búinn að dusta ferðarykið af
myndavélinni. Þess má geta að Jón liggur yfir kortunum þessa dagana og
er að skipuleggja haustferðina, sem hafa ætíð verið vel heppnaðar hjá
honum.

 

Meðfygjandi mynd af Jóni er tekin við annað tækifæri

 

Leit að manni í Skaftafelli

Í
gærkvöldi var óskað eftir liðsauka vegna leitar að manni austur í
Skaftafelli en hans hafði þá verið saknað frá aðfararnótt
mánudags. 

Um 170 björgunarsveitarmenn auk leitarhunda og þyrlu LHG leituðu í
gær og í nótt að manni sem hafði síðast sést í Skaftafelli á
aðfararnótt mánudags. Flugbjörgunarsveitin útvegaði einn bíl með fjórum
leitarmönnum og einum bílstjóra sem voru við leit í nótt. Það var rétt
fyrir klukkan 8 í morgun að maðurinn fannst heill á söndunum sunnan við
þjóðveginn heill á húfi.  

Leitarhópur kemur til baka að lokinni leit, Stefán, Einar og Steinar.

Vakt á hálendinu

Slysavarnarfélagið Landsbjörg gengst fyrir verkefninu Björgunarsveitir
á hálendinu. Flugbjörgunarsveitin tekur þátt í þessu verkefni núna í
næstu viku, 21. til 28. júlí en tililgangurinn er að vera til taks
fyrir ferðamenn.

Á föstudaginn heldur hópur frá okkur upp á hálendið til að vera á vaktinni í verkefninu Björgunarsveitir á hálendinu,
sem Landsbjörg stendur núna fyrir. Tilgangurinn er að vera ferðamönnum
innan handar með neyðaraðstoð, hjálp og upplýsingagjöf þegar á þarf að
halda. Einnig verða settar niður merkingar frá Vegagerðinni samkvæmt
tillögum umferðarfulltrúa Landsbjargar frá í fyrra.

Landsbjörg hefur látið útbúa kassa með búnaði sem við komum til með
að nota og margvíslegum skýrslum og upplýsingum um vegi, skála og
hálendið almennt. Hálendinu hefur verið skipt í fjögur svæði og verður
ein sveit með hvert svæði viku í senn. Okkar svæði mun verða
Fjallabaksleiðirnar en önnur svæði eru Kjalvegur og nágrenni,
Sprengisandsleið og svæðið norðan Vatnajökuls. Vaktirnar standa allt
frá 30. júní til 18. ágúst.

Myndin er tekin að Fjallabaki í fyrra. Hattfell í baksýn.

 

Leit að eldri konu í Kópavogi

Í
gær, þriðja júlí, voru leitarhópar kallaðir út til leitar að eldri
konu sem saknað var. Leitin gekk giftusamlega og komst konan í
leitirnar fyrir tilstilli árvökuls leigubílstjóra.

 

 

Konunnar var saknað af dvalarheimili og voru
leitarhópar vart lagðir af stað þegar tilkynning barst um að árvökull
leigubílstjóri hefði komið auga á konuna og lét vita. Þegar staðfest
var að um réttu manneskjuna væri að ræða var leitin afturkölluð, þá
aðeins tveimur klukkustundum eftir að útkallið barst.

 

 

Leitarhópur á æfingu

Björgunarsveitir undanþegnar olíugjaldi

Alþingi samþykkti í dag breytingartillögu við frumvarp um olíugjald og þurfa björgunarsveitir ekki að greiða sérstakt kílómetragjald af bílum í þeirra eigu eins og upphaflega stóð til. Slysavarnafélagið Landsbjörg stóð fyrir mótmælum við Alþingishúsið í morgun vegna frumvarpsins eins og það lá þá fyrir Alþingi.

Alþingi samþykkti í dag breytingartillögu við frumvarp um olíugjald og þurfa björgunarsveitir ekki að greiða sérstakt kílómetragjald af bílum í þeirra eigu eins og upphaflega stóð til. Slysavarnafélagið Landsbjörg stóð fyrir mótmælum við Alþingishúsið í morgun vegna frumvarpsins eins og það lá þá fyrir Alþingi.

Þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi lögðu breytingartillöguna fram nú síðdegis við þriðju umræðu um málið. Upphaflega gerði frumvarpið ráð fyrir því, að nota mætti litaða dísilolíu á bíla björgunarsveita en en akstursmælar yrðu settir í bílana og innheimt gjald fyrir hvern ekinn kílómetra.

Fram kom að með þessari breytingu væri verið að viðurkenna sérstöðu björgunarsveita en breytingartillagan var samþykkt með 48 atkvæðum gegn atkvæði Péturs H. Blöndal, þingmanns Sjálfstæðisflokks.

Þessi frétt er af vef MBL www.mbl.is  

Kristbjörg Pálsdóttir

 

 

 

Fullt nafn:  Kristbjörg Pálsdóttir

Gælunafn: Kitta

Aldur: 41

Gekk inn í sveitina árið:  Vorið 1998

Atvinna/nám: Útskrifast sem kennari núna í júní

Fjölskylduhagir: Gift og barn á leiðinni

Gæludýr:  Engin

Hópastarf og annað starf innan sveitarinnar:  Ég starfaði
sem spjaldskrárritari í nokkur ár, starfa í sjúkrahóp en var einnig flokkstjóri
þar í u.þ.b. eitt ár. Er leiðbeinandi í skyndihjálp síðan árið 2000, hef kennt
ásamt öðrum leiðbeinendum, nýliðum sveitarinnar skyndihjálp. Er núna í
Heimastjórn.

Áhugamál: Útivera, lestur og samverustundir með fjölskyldu
og vinum.

Uppáhalds staður á landinu: Suðureyri við Tálknafjörð

Uppáhalds matur:  Sjávarréttapannan hjá honum Svenna mínum
er alveg fyrsta flokks. Annars borða ég eiginlega allt nema hafragraut.

Ef þú ættir eina ósk, hver yrði hún (bannað að óska sér fleiri
óska)?
Óska mér og mínum góðrar heilsu í komandi framtíð.

Æðsta markmið: Tja… að takast vel til í barnauppeldinu og
njóta lífsins.

Eftirminnilegasta augnablikið úr starfinu: Nýliðaárin voru
einstaklega skemmtileg, annars hef ég bara átt góðar og eftirminnilegar stundir
í félagsskap þessa frábæra fólks sem ég hef kynnst þarna.

 


Þarna var ég búin að vaða tvisvar yfir á. Mér var ískalt en þetta var hrikalega
gaman.


Það var alltaf stuð hjá þessum hópi og þarna erum við í Sjöunni á heimleið eftir
helgarferð, ég, Arnaldur og Bárður og auðvitað hinir líka. Það sést aðeins í
Huldu á bak við Bárð.


Það var svokölluð toppaferð í gangi hjá sveitinni 1997 eða 1998 og stór hluti af
okkar nýliðahóp fór uppá Heklu.

 

 

 

 

Þetta var nú eitt af því sem reyndist mér frekar erfitt, lofthræðsla háði mér
nokkuð og ég átti það til að reka hnén í. En þetta var líka mjög skemmtilegt

 

 

 

 

 

 


Þetta er í einni af haustferðum Jóns Þorgrímssonar. Farið var yfir mikla sanda
upp frá Veiðivötnum. Ég kallaði þetta sandkassaferðina því ég hafði bara aldrei
áður séð svona mikið flæmi af endalausum sandi. Frábær upplifun á óþekktu svæði,
rústaði reyndar þremur tánöglum og tognaði í nára báðumegin. En hvað gerir það
til – svona eftir á.


Vetrarfjallamennska á hefðbundunum stað. Það var leiðindaveður um nóttina og
tjaldið mitt féll saman en það eyðilagðist ekki eins og sumir vildu nú halda
fram.

 

 

Snjóflóð við Hvannadalshnjúk

Fimm manns lentu í snjóflóði núna laust eftir hádegi í dag á milli Dyrhamars og Hvannadalshnjúks. Þrír þeirra eru lemstraðir og brotnir en allir á lífi. Fallhlífahópur FBSR lenti við slysstað kl. 16:03 og er þetta í fyrsta skiptið sem björgunarstökk er stokkið hér á Íslandi. Þyrla LHG gat ekki lent á slysstað sökum lélegs skyggnis.

Núna eru félagar okkar úr fallhlífahópi staddir á slysstað við Hvannadalshnjúk. Þeir stukku úr TF-SYN Fokker flugvél Landhelgisgæslunnar klukkan 16:03, en laust um klukkan 14 í dag barst neyðarkall frá fimm fjallgöngumönnum sem höfðu lent í snjóflóði á milli Dyrhamars og hnjúksins í u.þ.b. 1950 metra hæð. Þeir eru allir á lífi en þrír þeirra eru nokkuð slasaðir. Þetta er í fyrsta skiptið 55 ára sögu Flugbjörgunarsveitarinnar sem stokkið er björgunarstökk. Þyrla LHG gat ekki athafnað sig við slysstað sökum lélegs skyggnis en hún hefur verið að flytja björgunarmenn nær vettvangi. Við bíðum núna átekta frétta frá slysstað.

Frækileg frammistaða fallhlífahóps

 

Í dag var brotið blað í 55 ára sögu Flugbjörgunarsveitarinnar, og þar með íslandssögunnar, þegar fimm félagar úr fallhlífahópi stukku fyrsta björgunarstökkið. Björgunin gekk í alla staði mjög vel enda vanir menn á ferð. Það liðu aðeins tvær klukkustundir frá því að útkallið barst þar til þeir stóðu á jöklinum aðeins 1,8 Km. frá slysstað.

Það var klukkan 16:03 í dag sem fimm björgunarstökkvarar úr fallhlífahópi Flugbjörgunarsveitarinnar stukku í 1000 feta hæð yfir Hvannadalshnjúki til að verða fjallgöngumönnum sem lent höfðu í snjóflóði til bjargar. Þá voru aðeins liðnar tvær klukkustundir frá útkallinum og á þeim tíma hafði vélin þurft að hringsóla góða stund yfir jöklinum til að leita að heppilegum stökkstað. Stokkið var í T-10 björgunarfallhlífum í static-línu, en það eru kringlóttar og belgmiklar fallhlífar sem opnast um leið og stokkið er út. Stökkið tókst mjög vel og lentu stökkvararnir aðeins 1,8 km. frá slysstaðnum, sem verður að teljast gott við þessar aðstæður en mjög blint var á jöklinum og skýjaflákar birgðu sýn. Auk þess er erfiðara að stýra T-10 fallhlífum heldur en ferköntuðum fallhlífum sem venjulegast eru notaðar í frístundastökki.

Í þann mund sem félagarnir lentu var TF-LÍF komin yfir hnjúkinn með tvo björgunarmenn frá HSSK og Víkverja í Vík sem stukku úr þyrlunni í tveggja metra hæð rétt ofan við hina slösuðu og komu þeir í sömu mund á slysstað. LÍF hafði þá árangurslaust reynt að athafna sig yfir slysstaðnum en ekki reyndist hægt að láta menn síga þar sökum blindu. Skömmu síðar rofaði til og greip þá áhöfn Lífar tækifærið, stakk sér niður og náðu að taka hina þrjá slösuðu um borð.

Hinir tveir sem ekki voru slasaðir voru svo ferjaðir niður af björgunarsveitarmönnum HSSK og björgunarsveitinni í Víkverja og okkar menn voru fluttir niður á vélsleðum frá Björgunarfélagi Hornafjarðar, sem voru einstaklega hjálplegir og atorkusamir og vilja stökkvararnir koma á framfæri sérstöku þakklæti til þeirra.

Stökkvararnir voru þeir Atli Þór Þorgeirsson nýkjörinn formaður FBSR, Magnús Aðalmundsson, Ottó Eðvarð Guðjónsson, Óli Haukur Ólafsson og Þórður Bergsson. Stökkstjórar voru Snorri Hrafnkelsson og Pétur Kristjánsson.

Sleðaferð með Ski-Doo á Vatnajökul maí 2006

Sleðahópur FBSR tók að sér að sjá um öryggismál í árlegri ferð
Ski-Doo umboðsins á Vatnajökul aðra helgina í maí og heppnaðist ferðin
með ágætum.

Lögðu fjórir sleðamenn af stað á fimmtudagskvöldið og bættist svo
fimmti maðurinn, undirritaður, við á föstudagskvöldið en sá þurfti að
halda fyrirtækinu gangandi og vinna í búðinni á föstudag enda
úrvalsmaður þar á ferð.

Farið var í dagsferðir út frá Jöklaseli, skála Íss og ævintýra á
Skálafellsjökli, föstudag og laugardag enda alvöru sleðakallar ekkert
að velta sér upp úr vonbrigðum Íslensku þjóðarinnar á fimmtudagskvöldið
þegar Sylvía Nótt var illa svikin í Júravisjón.

Lögðu 40 sleðar stað frá Jöklaseli klukkan tíu og var keyrt norður
Skálafellsjökul inn á Brókarjökul, að Karli og Kerlingu og niður á
Breiðamerkurjökul. Þaðan var stefnan tekin þvert yfir jökul að
Fingurbjörg í Mávabyggðum og svo í Hermannaskarð og að Þumli. Höfðu
menn á orði að jökullinn væri harður og óslettur eftir norðanátt
undangenginna daga en komu þó kaflar inn á milli þar sem hægt var að
spretta úr spori. Svo harður var hann reyndar að það skemmdist stöng í
búkka á einum flubbasleðanum og var þá gripið í gervihnattasímann góða
og himintunglin nýtt til að panta varahluti úr bænum, enda sleðahópur
með einstaklega góð sambönd í umboðinu og sinn eigin þjónustufulltrúa
sem snarlega skellti sér upp í flugvél og tók meira að segja forstjóra
fyrirtækisins með til að afhenda varahlutina í eigin persónu. Þegar
undirritaður og forstjórinn mættu á svæðið varð fögnuður mikill og
slegið upp veislu í boði umboðsins.

Daginn eftir varð ljóst að veðrið yrði svipað og fyrr eða norðanátt
u.þ.b. 15 m/s og bjart við jaðra jökulsins í suðri en skafrenningur
inni á jökli enda keyrðum við inn í kófið um 10 km inn á jökli. Var þá
ákveðið að halda á sömu slóðir og daginn áður enda víst að þar kæmumst
við örugglega í sól og sumaryl.

Stóðst það og var stefnan tekin í Esjufjöll í hádegisstopp og þaðan
keyrt að Þuríðartindi. Var svo haldið aftur í Mávabyggðir þar sem
brekkusleðarnir voru teknir til kostanna og gáð hver gæti “pissað hæst
á staurinn” enda fullorðnir og vel þroskaðir menn á ferð sem þurftu að
komast að því hver væri mestur og bestur. Var svo haldið heim á leið
enda langt liðið á dag. Áttum við u.þ.b.einn kílómeter eftir að
Brókarjökli þegar veðrið versnaði til muna og þurftu flubbar nú að taka
stjórnina í sínar hendur og smala yfir jökulinn. Var sleðunum stillt
upp í þrefalda röð þar sem Þór og Eddi leiddu hópinn, Tóti og Arnar
ráku lestina og Jói brunaði eins og fjárhundur fram og til baka til að
halda hópnum saman og gæta þess að enginn villtist frá. Gekk vel að
koma mannskapnum niður úr veðrinu þó undirritaður þyrfti að hægja á sér
vegna bilunar og kom ekki niður fyrr en langt á eftir síðustu mönnum.

Þar sem veðurspáin fyrir næsta dag var enn verri en dagana á undan
voru litlar undirtektir fyrir áframhaldi á ferðinni hjá sleðamönnum og
konum enda hópurinn búinn  að keyra hátt í 400 km seinustu 2 daga.
Var flubbum því þakkað kærlega fyrir aðstoðina og héldum við heim á
leið að loknum löngum degi og var komið í bæinn um 03.00 þá um nóttina.

 Eftirtaldir tóku þátt í ferðinni frá FBSR:

Þór, Eddi, Tóti, Arnar, Jói og Þórunn sem kom með á einkasleða.

 Myndir og texti – Arnar Bergmann


Hópurinn samankominn við Jöklasel

 

 


Tveir af okkar sleðum


Undirritaður sagnaritari gægist út um hjálminn


Allt á hvolfi. Var það hér sem sleðinn bilaði…?

 

 

 

 


Við Fingurgbjörg