Sleðaferð með Ski-Doo á Vatnajökul maí 2006

Sleðahópur FBSR tók að sér að sjá um öryggismál í árlegri ferð
Ski-Doo umboðsins á Vatnajökul aðra helgina í maí og heppnaðist ferðin
með ágætum.

Lögðu fjórir sleðamenn af stað á fimmtudagskvöldið og bættist svo
fimmti maðurinn, undirritaður, við á föstudagskvöldið en sá þurfti að
halda fyrirtækinu gangandi og vinna í búðinni á föstudag enda
úrvalsmaður þar á ferð.

Farið var í dagsferðir út frá Jöklaseli, skála Íss og ævintýra á
Skálafellsjökli, föstudag og laugardag enda alvöru sleðakallar ekkert
að velta sér upp úr vonbrigðum Íslensku þjóðarinnar á fimmtudagskvöldið
þegar Sylvía Nótt var illa svikin í Júravisjón.

Lögðu 40 sleðar stað frá Jöklaseli klukkan tíu og var keyrt norður
Skálafellsjökul inn á Brókarjökul, að Karli og Kerlingu og niður á
Breiðamerkurjökul. Þaðan var stefnan tekin þvert yfir jökul að
Fingurbjörg í Mávabyggðum og svo í Hermannaskarð og að Þumli. Höfðu
menn á orði að jökullinn væri harður og óslettur eftir norðanátt
undangenginna daga en komu þó kaflar inn á milli þar sem hægt var að
spretta úr spori. Svo harður var hann reyndar að það skemmdist stöng í
búkka á einum flubbasleðanum og var þá gripið í gervihnattasímann góða
og himintunglin nýtt til að panta varahluti úr bænum, enda sleðahópur
með einstaklega góð sambönd í umboðinu og sinn eigin þjónustufulltrúa
sem snarlega skellti sér upp í flugvél og tók meira að segja forstjóra
fyrirtækisins með til að afhenda varahlutina í eigin persónu. Þegar
undirritaður og forstjórinn mættu á svæðið varð fögnuður mikill og
slegið upp veislu í boði umboðsins.

Daginn eftir varð ljóst að veðrið yrði svipað og fyrr eða norðanátt
u.þ.b. 15 m/s og bjart við jaðra jökulsins í suðri en skafrenningur
inni á jökli enda keyrðum við inn í kófið um 10 km inn á jökli. Var þá
ákveðið að halda á sömu slóðir og daginn áður enda víst að þar kæmumst
við örugglega í sól og sumaryl.

Stóðst það og var stefnan tekin í Esjufjöll í hádegisstopp og þaðan
keyrt að Þuríðartindi. Var svo haldið aftur í Mávabyggðir þar sem
brekkusleðarnir voru teknir til kostanna og gáð hver gæti “pissað hæst
á staurinn” enda fullorðnir og vel þroskaðir menn á ferð sem þurftu að
komast að því hver væri mestur og bestur. Var svo haldið heim á leið
enda langt liðið á dag. Áttum við u.þ.b.einn kílómeter eftir að
Brókarjökli þegar veðrið versnaði til muna og þurftu flubbar nú að taka
stjórnina í sínar hendur og smala yfir jökulinn. Var sleðunum stillt
upp í þrefalda röð þar sem Þór og Eddi leiddu hópinn, Tóti og Arnar
ráku lestina og Jói brunaði eins og fjárhundur fram og til baka til að
halda hópnum saman og gæta þess að enginn villtist frá. Gekk vel að
koma mannskapnum niður úr veðrinu þó undirritaður þyrfti að hægja á sér
vegna bilunar og kom ekki niður fyrr en langt á eftir síðustu mönnum.

Þar sem veðurspáin fyrir næsta dag var enn verri en dagana á undan
voru litlar undirtektir fyrir áframhaldi á ferðinni hjá sleðamönnum og
konum enda hópurinn búinn  að keyra hátt í 400 km seinustu 2 daga.
Var flubbum því þakkað kærlega fyrir aðstoðina og héldum við heim á
leið að loknum löngum degi og var komið í bæinn um 03.00 þá um nóttina.

 Eftirtaldir tóku þátt í ferðinni frá FBSR:

Þór, Eddi, Tóti, Arnar, Jói og Þórunn sem kom með á einkasleða.

 Myndir og texti – Arnar Bergmann


Hópurinn samankominn við Jöklasel

 

 


Tveir af okkar sleðum


Undirritaður sagnaritari gægist út um hjálminn


Allt á hvolfi. Var það hér sem sleðinn bilaði…?

 

 

 

 


Við Fingurgbjörg

 

 

 

 

Skildu eftir svar