Frækileg frammistaða fallhlífahóps

 

Í dag var brotið blað í 55 ára sögu Flugbjörgunarsveitarinnar, og þar með íslandssögunnar, þegar fimm félagar úr fallhlífahópi stukku fyrsta björgunarstökkið. Björgunin gekk í alla staði mjög vel enda vanir menn á ferð. Það liðu aðeins tvær klukkustundir frá því að útkallið barst þar til þeir stóðu á jöklinum aðeins 1,8 Km. frá slysstað.

Það var klukkan 16:03 í dag sem fimm björgunarstökkvarar úr fallhlífahópi Flugbjörgunarsveitarinnar stukku í 1000 feta hæð yfir Hvannadalshnjúki til að verða fjallgöngumönnum sem lent höfðu í snjóflóði til bjargar. Þá voru aðeins liðnar tvær klukkustundir frá útkallinum og á þeim tíma hafði vélin þurft að hringsóla góða stund yfir jöklinum til að leita að heppilegum stökkstað. Stokkið var í T-10 björgunarfallhlífum í static-línu, en það eru kringlóttar og belgmiklar fallhlífar sem opnast um leið og stokkið er út. Stökkið tókst mjög vel og lentu stökkvararnir aðeins 1,8 km. frá slysstaðnum, sem verður að teljast gott við þessar aðstæður en mjög blint var á jöklinum og skýjaflákar birgðu sýn. Auk þess er erfiðara að stýra T-10 fallhlífum heldur en ferköntuðum fallhlífum sem venjulegast eru notaðar í frístundastökki.

Í þann mund sem félagarnir lentu var TF-LÍF komin yfir hnjúkinn með tvo björgunarmenn frá HSSK og Víkverja í Vík sem stukku úr þyrlunni í tveggja metra hæð rétt ofan við hina slösuðu og komu þeir í sömu mund á slysstað. LÍF hafði þá árangurslaust reynt að athafna sig yfir slysstaðnum en ekki reyndist hægt að láta menn síga þar sökum blindu. Skömmu síðar rofaði til og greip þá áhöfn Lífar tækifærið, stakk sér niður og náðu að taka hina þrjá slösuðu um borð.

Hinir tveir sem ekki voru slasaðir voru svo ferjaðir niður af björgunarsveitarmönnum HSSK og björgunarsveitinni í Víkverja og okkar menn voru fluttir niður á vélsleðum frá Björgunarfélagi Hornafjarðar, sem voru einstaklega hjálplegir og atorkusamir og vilja stökkvararnir koma á framfæri sérstöku þakklæti til þeirra.

Stökkvararnir voru þeir Atli Þór Þorgeirsson nýkjörinn formaður FBSR, Magnús Aðalmundsson, Ottó Eðvarð Guðjónsson, Óli Haukur Ólafsson og Þórður Bergsson. Stökkstjórar voru Snorri Hrafnkelsson og Pétur Kristjánsson.

Skildu eftir svar