Stefán Þór Þórsson


Fullt nafn: Stefán Þór Þórsson

Gælunafn: Hr. Stefán Þór Þórsson

Aldur: 26

Gekk inn í sveitina árið: 2000

Atvinna/nám: Er verkfræðingur og vinn við innri endurskoðun
hjá Glitni.

Fjölskylduhagir: Hagi fjölskyldunar er í Hvammi við
Dýrafjörð.

Gæludýr: Átti páfagauk en hann fraus.

Hópastarf og annað starf innan sveitarinnar: Nýliðaþjálfari
B2 og eitthvað viðloðandi leitarhóp.

Áhugamál: FBSR og Lada Niva.

Uppáhalds staður á landinu: Hverasvæðið fyrir sunnan
Hrafntinnusker.

Uppáhalds matur:  Knorr Napolitana og vanillubúðingur

Ef þú ættir eina ósk, hver yrði hún (bannað að óska sér fleiri óska)? Að breytingarnar á húsnæðinu væru búnar og Tindjallasel tilbúið og
næsti patti kominn og og og

Æðsta markmið:  Deyja sáttur.

Eftirminnilegasta augnablikið úr starfinu:  Þegar við vorum
veðurteppt í Landmannalaugum og J.K. var að segja mis viðeigandi sögur af
foreldrum sínum.


Á góðri stund með nillunum mínum í Tindfjallaseli hinu gamla


Hér er ég við byggingu á Tindfjallaseli. Takið eftir pósunni.

 

 

Kemst þú ekki inn?

Núna
er nýja lyklakerfið komið í gagnið og búið er að skipta um læsingar á
útihurðum.  Nýju lyklaspjöldin, sem einnig  þjóna sem
félagsskírteini, eru orðin virk og ekki er hægt að opna húsið nema með
þeim. Ef þú ert ekki ennþá komin(n) með lyklaspjald þá þarftu að hafa
samband við Himma eða Gerard.

Ef þú ert ekki heldur búin(n) að sækja um lyklaspjald þá þarftu að
senda  mynd í tölvupósti til gjaldkeri <hjá> fbsr. is eða
koma henni með öðrum leiðum til Himma. Upplýsingar gefa Himmi í síma
863 6566 eða Gerard í síma 552 8063.

Þriðjudagar í vetur!

Hvað er þú að gera í vetur? Taktu frá alla þriðjudaga og hafðu þá sem Flubba-daga. Þéttskipuð dagskrá í allann vetur, fullt af lífi og mannskap og það vantar bara þig. 

Hlaup hefjast klukkan 19, skemmtiskokk og lengra. Klukkan 20 verður stjórn með verkefnalista yfir það sem þarf að gera í vetur varðandi húsnæði, skemmtanir, fjáraflanir, æfingar og annað.

Sjáumst næsta þriðjudag og alla þriðjudaga í vetur!

 

Fylgist með dagskránni!

Rétt
er að taka fram að nýliðar sem og félagar geta alltaf kynnt sér
viðburði framundan í dagskránni hér á vefnum. Undir hverjum og einum
dagskrárlið er að finna nánari upplýsingar um þá og þar eiga vera svör
við flestum þeim
spurningum sem kunna að vakna þegar fara á að undirbúa þátttöku í
viðburði. Það er því ekki vitlaust t.d.

 

fyrir þá sem eru að fara um
helgina
að kynna sér hvað er að
gerast og hvað þarf að hafa með. Þegar smellt er á viðburð í dagskránni þá birtist lítill gluggi og
iðulega er þar að finna nánari upplýsingar, líkt og sjá má hér.

 

Búnaðarkaup

Núna stendur til að endurnýja þann einstaklingsbúnað sem sveitin á, eða "útkallsbúnaðinn", eins og hann er kannski oftast kallaður. Nýliðum og félögum gefst kostur á að hoppa á vagninn og versla sér búnað með magnafslætti. Panta verður í síðasta lagi 29. september!

Búnaðurinn sem stendur til að kaupa eru ýlar, skóflur, hjálmar, snjóflóðastangir, klifurbelti, gönguaxir, blikkljós, ísskrúfur og liðbroddar. Einnig á að athuga með að kaupa tjöld. Sem fyrr er þessi búnaður ætlaður sem varabúnaður þegar fólki vantar eitthvað upp á sinn búnað í útköllum.

Félögum og nýliðum gefst kostur á að vera með í magninnkaupunum. Hægt er að kaupa allan pakkann sem var hér upp talinn eða hluta af honum.  Þá er einnig hægt að biðja um ýmsa hluti sem ekki eru á listanum, svo sem línur, karabínur eða áttur. Tegund búnaðarins liggur ekki á hreinu fyrr búið er að velja birgjann en væntanlega verður í mörgum tilvikum hægt að velja úr einhverjum tegundum. 

Skila verður inn pöntun á búnaði í síðasta lagi 29. september. Stefán Þór tekur þær niður. Hægt er að hitta á hann flest þriðjudagskvöld niðri í sveit, eða henda til hans línu á stefanthorsson < hjá > gmail. com.

Áætlað er að búnaðurinn verði kominn í hús um miðjan nóvember, en afhendingarhraðinn ræðst af ýmsum þáttum.

Verklegt ísklifurnámskeið

Helgina sjöunda til níunda október 2005 fóru nýliðar í B2 í verklegt námskeið í ísklifri í Sólheimajökli

Myndir og frásögn – Matti Zig

Ferðin hófst á föstudeginum þegar lagt var af stað upp úr kl. 20. Það var ákveðið að tjalda til að laugardagurinn myndi nýtast sem best og svo er líka svo gott að sofa í tjaldi.

Það var vaknað um kl. 7:30, nesti útbúið fyrir daginn og morgunverður snæddur. Námskeiðskennararnir mættu svo klukkan níu, en það voru hinir fræknu spotta- og klifurfræðingar Bjarni, Haukur og Hilmar.

Veðrið var ágætt, sólin braust fram úr skýjunum og allt leit út fyrir að þetta yrði fínn dagur. Þegar á jökulinn var komið voru broddarnir spenntir undir skóna og undirstöðuatriði í jöklagöngu æfð.

Eins og alltaf þegar fólk prófar í fyrsta skiptið að ganga á broddum voru skrefin dálítið skrýtin, en þegar allir ímynduðu sér að þeir væru með fílaveikina fóru skrefin að vera fagmannlegri.
Þegar við höfðum þrammað dágóða stund inn á jökulinn fundum við ákjósanlegan stað til að æfa innsetningu á tryggingum. Hópnum var skipt í tvennt og allir æfðu handtökin. Þá var komið að því að klifra.

Óhræddir létu nillarnir slaka sér niður í hyldýFyrsta leiðin var nú kannski erfið en áður en við héldum niður af jöklinum var línan færð og nillarnir fengu að spreyta sig á mun erfiðari leið.

Allir komust  þeir nú upp en mikið voru þau nú þreytt. Svo var arkað niður, tjöldin tekin saman og brunað í bæinn.

 

Haustferðin 2005

23. til 25. september

Þau voru öll á sama máli um að þetta hafi verið frábærlega vel heppnuð ferð. Gengið í sól og undir björtum himni leið sem í upphafi átti að vera öðruvísi, en svo reyndist kortið ekki gefa rétta mynd af landslaginu.

Að þessu sinni voru það Renni- Jón Þorgríms og Guðjón Örn sem skipulögðu haustferðina. Eftir nokkrar kortaflettingar var ákveðið var að ganga frá Landmannalaugum í Strútslaug á laugardegi, um 20 Km. leið, og á sunnudeginum niður í Strútsskála.

Komið var síðla kvölds í Landmannalaugar, tjaldað og slappað af í lauginni. Það kom á óvart hversu mikill snjór var kominn á hálendið þetta snemma að hausti, en það var þæfingsferð á Fjallabaksleið. Eftir morgunmat var lagt af stað kl. 9 á laugardagsmorguninn og Jökulgilið skoðað. Áin reyndist vera nokkuð vatnsmikil ennþá og því ekki kostur að ganga upp gilið. Því var farið upp á ásinn meðfram gilinu og inn á stíginn sem liggur þar yfir að Strút. Meiningin var að fara norður fyrir Torfajökul, en landslagið þar bauð ekki upp á mikla útúrdúra, eins og göngumenn komust að!

Eftir talsvert mikið brölt upp og niður lá leiðin upp á Torfajökul og gengið var með sporðinum yfir á Laugarháls og þaðan niður að Strútslaug. Þar á tjaldsvæðinu voru fyrir nokkur tjöld og reyndust þar vera fjölskyldufólk sem að mestu voru HSSR skátar á ferð á eigin vegum. Við tjölduðum hjá þeim og hvíldumst vel fram á morgun enda ekki löng leið framundan á sunnudeginum. Þá var rölt yfir að Strútsskála þar sem bílstjórarnir sóttu okkur um hádegisbil.

Eins og áður sagði þurfti talsvert að víkja út frá upphaflegri áætlun enda reyndist landslagið vera nokkuð öðruvísi en kortið gaf í fyrstu til kynna. Rauða strikið sýnir áætlunina eins og búið var að setja hana niður á korti en rauðu punktarnir eru GPS punktar sem Gaui tók á leiðinni. Eins og sjá má er það ekki alveg sama leiðin. Reyndar var ákveðið í upphafi ferðar að fara niður í Strútsskála í lok leiðar í stað þess að fara niður með Hólmsárlóni og að Brytalækjum.

Hrútsfjallstindar – 7 maí 2005

Þeir Halli Kristins (Hallgrímur Kristinsson) og Doddi dúfa (Þórður Bergsson) félagar í FBSR skelltu sér á Hrútsfjallstinda þann 7 maí 2005.  Hér er stutt myndasaga úr ferðinni.

Það eru örugglega engar ýkjur að segja að Hrútsfjallstindar í Öræfum skipa sér í röð mest krefjandi viðureigna sem fjallamenn geta fundið hér á Fróni. Ari Trausti og Pétur Þorleifsson lýsa þessu svæði ágætlega í bókinni Íslensk fjöll – gönguleiðir á 151 tind, en í þeirri ágætu bók segir m.a. "Allt um kring eru 1000-2000 m há kletta og jökulfjöll, mörg með vígalega falljökla í hlíðum og ísbrýnda hátinda. Hæðarmunur er eins og hæst gerist í Ölpunum og sums staðar í enn hærri fjöllum. En auðvitað er hæð yfir sjó vart í ökklahæð risanna í Andesfjöllum eða Himalaya."*

Myndir

Eftir þetta fór að kyngja niður snjó og aðstæður urðu mun erfiðari.  Eftir dágóða tilraun til að finna leiðina upp á hæstu nípu ákváðum við að snúa við um 100 – 150 metra frá toppnum.  Ekkert skyggni var á staðnum og eftir að ein “fjölbýlishúsasprungan” enn hafði gert tilraun til að gleypa okkur í einum bita ákváðum við að snúa við.  Höfðum við ætlað að fara niður Hafrafellsleiðina en sökum skorts á skyggni (semsagt skyggni “0”) töldum við útilokað að hitta á þá leið.  Því var ákveðið að fara sömu leið niður og við komum upp. Hér sjást myndir sem teknar voru af Halla að búa sig undir að síga niður einn af brattari hluta leiðarinnar og leggja tryggingar fyrir Dodda sem síðan klifraði á eftir. Skyggnið hafði batnað tímabundið þegar þarna niður var komið. Niðurleiðin gekk vonum framar þrátt fyrir að um 30 cm nýfallinn “sykursnjór” lá ofan á snjónum sem gerði allar tryggingar og klifur erfiðara.  Notuð var tryggingaaðferðin “niður-20-metra-og-snjóakkeri-og-niður-20-metra-og-snjóakkeri o.s.frv.” til að koma okkur niður.  Komið var að bílnum aftur kl. 23:00 um kvöldið, eftir 19 tíma ferð.

 

Ferðasaga: Hallgrímur Kristinsson
Myndir: Þórður Bergsson – afritun óheimil án leyfis!

* Heimild: Ari Trausti Guðmundsson og Pétur Þorleifsson. "Íslensk fjöll – gönguleiðir á 151 tind" Mál og Menning, Reykjavík 2004

„“Kröfuganga““ á Eyjafjallajökul

-Ferð með nýliða B1 upp á Eyjafjallajökul 1. maí 2005

Loksins hafðist það að leggja af stað í ferðina. Upphaflega ferðaáætlunin var að leggja af stað á föstudagskvöldi og tjalda við Seljavelli en vegna ýmissa ástæðna var brottför frestað til sunnudagsmorguns. Lagt var af stað kl. 05:00 og þegar við komum á Hvolsvöll sáum við að skýahula var að leggjast yfir jökulinn. Við hinkruðum í hálftíma við sjoppuna Hlíðarenda og fylgdumst með skýafarinu. Ekkert breyttist og voru ferðalangar á því að hætta við. En við svo búið mátti ekki sitja heldur ókum við austur að Seljavöllum, öxluðum bakpokana og lögðum af stað klukkan átta. Meiningin var að byrja á því að fara uppá jökulrönd og taka verðrið þar aftur. Þegar við komum að jökulröndinni var farið að snjóa en annars ekkert að veðrinu svo við héldum áfram eftir stutt nestistopp og fylgdum þar eftir sporum frá ferðalöngum sem höfðu verið þar daginn áður. Ferðin sóttist nokkuð vel og vorum við 4 klst. og 8 mínútur uppá topp (frá "grunnbúðum"). Þar var gert stutt stopp, teknar myndir og síðan arkað niðureftir. Þegar komið var að Seljavallalaug var klukkan orðin 14:35. Fórum í heita pottinn og hugðum okkur gott til glóðarinnar að komast snemma í bæinn. Þegar við vorum við Pöstina hringdi Maggi Andrésar í okkur og bað okkur að hjálpa félaga sínum sem fastur var við lónið við Gígjökul. Það reyndist ekki nóg aflið í Fordinum , enda bíllinn orðinn pikkfastur í jökulleir, og urðum við frá að hverfa. Þegar við yfirgáfum fasta jeppann var von á meiri aðstoð úr bænum. Komum í bæinn klukkan 19:00.

Saga og myndir Matti Zig.