„“Kröfuganga““ á Eyjafjallajökul

-Ferð með nýliða B1 upp á Eyjafjallajökul 1. maí 2005

Loksins hafðist það að leggja af stað í ferðina. Upphaflega ferðaáætlunin var að leggja af stað á föstudagskvöldi og tjalda við Seljavelli en vegna ýmissa ástæðna var brottför frestað til sunnudagsmorguns. Lagt var af stað kl. 05:00 og þegar við komum á Hvolsvöll sáum við að skýahula var að leggjast yfir jökulinn. Við hinkruðum í hálftíma við sjoppuna Hlíðarenda og fylgdumst með skýafarinu. Ekkert breyttist og voru ferðalangar á því að hætta við. En við svo búið mátti ekki sitja heldur ókum við austur að Seljavöllum, öxluðum bakpokana og lögðum af stað klukkan átta. Meiningin var að byrja á því að fara uppá jökulrönd og taka verðrið þar aftur. Þegar við komum að jökulröndinni var farið að snjóa en annars ekkert að veðrinu svo við héldum áfram eftir stutt nestistopp og fylgdum þar eftir sporum frá ferðalöngum sem höfðu verið þar daginn áður. Ferðin sóttist nokkuð vel og vorum við 4 klst. og 8 mínútur uppá topp (frá "grunnbúðum"). Þar var gert stutt stopp, teknar myndir og síðan arkað niðureftir. Þegar komið var að Seljavallalaug var klukkan orðin 14:35. Fórum í heita pottinn og hugðum okkur gott til glóðarinnar að komast snemma í bæinn. Þegar við vorum við Pöstina hringdi Maggi Andrésar í okkur og bað okkur að hjálpa félaga sínum sem fastur var við lónið við Gígjökul. Það reyndist ekki nóg aflið í Fordinum , enda bíllinn orðinn pikkfastur í jökulleir, og urðum við frá að hverfa. Þegar við yfirgáfum fasta jeppann var von á meiri aðstoð úr bænum. Komum í bæinn klukkan 19:00.

Saga og myndir Matti Zig.

 

Skildu eftir svar