Ferðasaga – Afmælisferð á Bárðarbungu 10.-12.september 2010

Eins og hvert mannsbarn veit, var Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík stofnuð stuttu eftir að Loftleiðavélin Geysir brotlenti á Bárðarbungu haustið 1950. Í tilefni af komandi stórafmæli sveitarinnar var ákveðið að halda í hópferð á söguslóðir. Hluti hópsins gekk á Bunguna og fer hér á eftir sagan af þeim leiðangri.

Göngufólki var skutlað inn að Svarthöfða í Vonarskarði með hjálp bílstjóra úr Kyndli og Kili á föstudagskvöldi, 10. september. Kjötsúpa og franskbrauð með hollum skammti af smjöri runnu ljúflega niður í eldhústjaldinu áður en haldið var í háttinn.

Við birtingu, um klukkan hálf sex á laugardagsmorgni spruttu göngumenn út úr tjöldum sínum – allir útsofnir og eldhressir. Tveimur klukkutímum síðar lögðu 23 Flubbar og 4 nýliðar, af stað upp Köldukvíslarjökul, í humátt á eftir fararstjóra sínum, Jóni Þorgrímssyni, og aðstoðarmönnum hans. Leiðin var greið, svolítill ís sem þó var stamur og því auðveldur til uppgöngu.
Göngumenn þurftu brátt að stikla og stökkva yfir minni sprungur og settu því á sig ísbrodda til að tryggja öryggi sitt. Eftir örfáa kílómetra fór að bera á hælsærum hjá mörgum í hópnum og var því stoppað og hælar plástraðir.

Haldið var áfram í yndislegu veðri, útsýni og góðu færi. Þegar komið var í um 1600 m hæð fór mannskapurinn í línur, enda jökullinn farinn að sýna sínar „dýpstu hliðar“. Þegar upp á sléttuna kom varð gangan heldur tilbreytingarlítil en áfram var haldið í leit að punkti sem sýndi
metrana yfir 2000. Þegar á hæsta punkt kom var lítið skyggni og nett snjókoma! Eftir stutt köku- og myndastopp
 var haldið niður og gekk það snurðulaust.

Á niðurleiðinni gengu menn fram á hræ af dýri en voru ósammála um hvers kyns dýr væri að ræða. Líklega var þetta hreindýrskálfur! Eftir um þrettán klukkustunda og 34 km göngu komu göngumenn sælir af jökli að bílunum sem biðu þeirra. Á meðan göngumennirnir tíndust inn í bílana, einn af öðrum, skyggði og í myrkrinu var haldið inn í Nýjadal þar sem beið lamb á diski og dash af súkkulaðiköku í eftirmat. Seint og síðar meir sofnuðu allir þreyttir og sælir og dreymdi klaka, sprungur og hljóðið í broddum. Göngumenn bíða nú spenntir eftir sjötugsafmælinu.

Takk fyrir okkur

Krunka og hjálpsömu nýliðarnir Sveinn og Védís