Páskaferðin 2006 – Mýrdalsjökull – Strútslaug – Landmannalaugar

Páskaferðin 2006

Mýrdalsjökull –
Strútslaug – Landmannalaugar

Undirbúningur fyrir ferðina var alfarið í höndum nillanna í B2. Þetta árið
var ákveðið að vera með þrjá möguleika ef veður skyldi bregðast á upphaflega
ákveðnu leiðinni. Skoðuð voru kort af hálendi sunnan jökla, Drangajökull var
inni í myndinni og svo Tröllaskaginn. Þegar veðurspáin fyrir sunnanvert landið
var birt á þriðjudegi fyrir páska var ákveðið að halda sig við
Suðurlandið og
var ferðaplanið svo hljóðandi:

Fimmtudagur, skírdagur: Ekið að Mýrdalsjökli og gengið fram
til kvölds.
Föstudagurinn langi: Mýrdalsjökull kláraður og
endað við Strútslaug.
Laugardagur: Stefnan tekin á
Landmannalaugar, farið um Muggudali ofan í Sveinsgil og út eftir
Jökulgili.
Sunnudagur, páskadagur: Stefnt á Sigöldu.

Eitt markmið var sett áður en lagt var af stað og það var að komast í tvær
laugar á leiðinni.

Það sem hægt er að segja um þessa ferð er að hún heppnaðist alveg frábærlega.
Nægur snjór var á öllu svæðinu og skíðafærið mjög gott. Veðrið lék við okkur þó
svo að frostið færi niður í -13 gráður. Á fimmtudeginum var ákveðið að ganga til
kl. 18:00 og tjalda og bívaka þá. Evvi og Viddi byrjuðu á því að gera Igloo en
hættu í miðjum klíðum og bívökuðu í hálfkláruðu slotinu. Sólarlagið og ekki
síður tungl uppkoman voru með ólíkindum, tunglið nánast fullt og alveg
appelsínugult, ekki bara gult heldur eins og appelsína. Það var magnað að sofna
við þessa sýn.

Á föstudeginum þykknaði þó upp seinni partinn og snjóaði aðeins en það gekk
yfir áður en kvöldaði og um nóttina var aftur orðið heiðskírt. Það hreyfði ekki
vind á meðan það snjóaði og á tímabili rann allt saman. Eina leiðin til að
komast að Strútslaug var að ganga algjörlega eftir áttavitanum.

Á laugardeginum þurftum við að hafa varann á okkur varðandi snjóflóð og
þurftum því aðeins að breyta fyrirhugaðri leið. Þó svo að laugardagurinn væri
stysti ferðadagurinn á korti, þá reyndist hann vera sá lengsti. Þegar á það
reyndi að komast úr Sveinsgili, meðfram ánni, var það ekki hægt. Við þurftum því
að setja skinnin á skíðin og fara yfir Hrygginn milli gilja og ofan í Þrengslin
og ekki tók betra þar við. Áin hlykkjaðist um allt gilið eins og spastískur
snákur og áður en yfir lauk höfðum við vaðið hana 5 sinnum og þar af einn í
hópnum farið yfir hana fram og til baka 24 sinnum. Við komum í Landmannalaugar
kl. 23 og höfðum verið á ferðinni í tíu og hálfan tíma. Á þeim tímapunkti var
ákveðið að kanna hvort ekki væri gistipláss laust sem og það var. Öll voru kát
með það og tóku hraustlega til matar síns og ekki leið á löngu uns allir voru
sofnaðir.

Daginn eftir var farið í laugina og svo haldið á leið í Sigöldu. Þegar
við vorum að koma að Ballarvaði (Bjallavaði) sáum við hvar Beggi Trucker var
mættur á Fordinum. Hann hafði hitt einhverja jeppakalla sem komu frá
Landmannalaugum og þeir borið honum þær fréttir að enginn snjór væri frá
Ballarvaði (Bjallavaði) og því væri best fyrir hann að fara á móti okkur. Þetta
koma ekki að sök. Hælsæri voru farin að hrjá mannskapinn og allir voru sáttir
við þessa tilhögun. Nú var búnaðinum hlaðið í bílinn og ekið í Hrauneyjar og
ferðalangarnir teknir í r&$$#%&%# í sjoppunni þar (þvílík verðlagning).
Jæja klakklaust komumst við í bæinn og voru allir sáttir við túrinn. Nillarnir
sýndu það í þessari ferð að þeir eru þess verðugir að ganga í sveitina að mánuði
liðnum. Ég þakka krökkunum fyrir frábærar stundir á þessu árum og vona að þau
séu ánægð með þau líka.

Matti Zig

 

 


Ólöf og Viðar


Ragna

 


Evvi í góðum gír

 

 


Igglúið þeirra Evva og Vidda sem varð ekki hærra en réttarveggur

 

 

 


Notalegar vistarverur


Það jafnast ekkert á við það, að skella sér í sjóðheitt bað

 


Snjóflóðahættan verður ekki greinilegri. Ef myndin "prentast" vel má sjá spýjur
í hlíðinni.


Þá var ekkert annað en að líma skinnin á og klífa Hrygginn.

 

 

 

 

Skildu eftir svar