Á gönguskíðum norðan Mýrdalsjökuls – Frá Hvanngili í Strútslaug fyrstu helgina í apríl 2006

Að venju var lagt af stað upp úr kl. 20 á föstudeginum. Þess var
freistað að koma mannskapnum í snjó einhverstaðar nálægt
Hvanngili.  Það tókst eftir smá streð og þá vorum við komin inn
undir Stórusúlu. Þar var tjöldum slegið upp og "bívökum". Frostið var
passlegt eða um 12 gráður. Þegar við vöknuðum morguninn eftir var
heiður himinn og þannig var veðrið það sem eftir lifði ferðar.

Í för voru B2 og B1 ásamt nokkrum harðsvíruðum olíumaurum, sem fengu
aldeilis útrás í þessari ferð. Fóru meðal annars í tvígang á
Eyjafjallajökul. Ákveðið var að skipta hópnum upp og sá Halli Kristins
um B1 en ég og Sigurgeir, ásamt sinni ekta kvinnu Guðmundu, fórum með
B2. Skíðafærið var gott báða dagana, dálítið hart en það kom ekki að
sök. Dálítið vorum við sein fyrir þegar vð komum að Strútslaug þannig
að baðið var látið bíða til næsta dags.

Daginn eftir skelltu svo þau allra hörðustu sér í bað og létu vel að
því hvernig hafði tekist að tempra hitan í lauginni. Á sunnudeginum var
svo skíðað eftir Hólmsárlóni og við endann á því var hópnum skipt og
ákveðið að kanna hvor leiðin væri fljótfarnari, annars vegar sú sem lá
niður með Hólmsá og suður eftir Svartafellstanga, og hins vegar suður
eftir Svartafelli og það niður á Mælifellssand. B1 fór fyrnefndu
leiðina og voru á undan í bílana, en það var ekkert að marka.

Ferðin niður á þjóðveg sóttist nokkuð vel. Ekki var mikið um að
bílar festust en þegar við komum að síðustu brekkunni var það mikill
snjór á slóðanum að ekki var annað þorandi en að láta mannskapinn moka
rás í veginn til að koma í veg fyrir að bílarnir rynnu í hliðarhalla
niður í lítið gil. Eftir þetta var leiðin greið, eins og segir í
kvæðinu, allt þar til að við komum á þjóðveg 1, að nýjasta tækið í
flotanum neitaði að beygja til hægri. Enga skýringu kann ég á þessu,
nema að þetta hafi verið eitthvað pólitískt.

Allavega þá komumst við í Vík. Þar var vertinn í sjoppunni að ganga
frá eftir fermingaveislu og taldi það ekki eftir sér að hita pylsur
ofan í mannskapinn. Svo var hópnum þjappað í þá tvo bíla sem eftir voru
og ekið í bæinn, hvar við komum svo rúmlega 01:00. Eins og sjá má hér
að neðan þá voru sumir ansi þreytulegir.

Myndir og texti Matti Zig

 


Komið í náttstað og tjöldum slegið upp

 


Vaknað að værum bívak blundi


Gott alrými í þessu eldhúsi


Mía, Ólöf, Evvi, Ragna og Sigurgeir

 

 

 

 

 

 
Maggi Andrésar

 

 

 
Tekist á við hliðarhallann

 

 

 

Skildu eftir svar