Gönguskíða- og tækjaferð, febrúar 2005

Um helgina 18. til 20. febrúar 2005 fóru nillar og inngengnir saman í gönguskíða- og tækjaferð. Lagt var af stað á föstudagskvöldi og stefnan tekin á Hungursfit norðan Tindfjallajökuls.

Færðin var góð og komst sjöan með snjóbílinn að Hafrafelli þar sem hann var tekinn af og sumir gerðu stykki sín þar sem færi gafst. Áfram var haldið á snjóbíl, tvist, þrist og  nýja Troopernum hans Halla Kristins. Þegar örfáir kílómetrar voru eftir urðum við að skilja þristinn eftir, enda færðin farin að þyngjast, og mannskapurinn var selfluttur að skálanum.

Síðustu menn komu að skálanum kl. 04:30. Það var svo ræst kl. 09:30, því dagurinn skyldi notaður til að æfa nillana í því að ferðast með púlku í eftirdragi og jeppa- og snjóbílamenn tóku strikið upp á Tindfjallajökul. Það er skemmst frá því að segja að báðir hópar nutu einmuna veðurblíðu þar sem logn og sólarblíða var viðvarandi megnið af deginum.

Skíðafærið var mjög gott og eyddum við megninu af deginum við ýmsar aðstæður þar sem púlkurnar létu ekki alltaf að stjórn.

Um kvöldið var svo grillað og höfðu sumir fyrir því að bera fram ostafyllta sveppi með aðalréttinum og svo heila melónu í eftirrétt. Síðan var spjallað og sungnir skátasöngvar (eða ekki).

Svo fór þreytan að taka völdin smátt og smátt hjá mannskapnum og að lokum sofnuðu menn og mýs við vinalegt malið í snjóbílnum, þar sem Símon færði allan snjóinn, sem þarna var, frá austri til vesturs. Sunnudagurinn var tekin snemma, ræst kl.07:00. Dísel drekarnir trekktir upp og menn fóru til að koma þeim niður á láglendi á meðan hetjur prikanna mjökuðust í humátt á eftir.

Eftir að hafa komið hetjum prikanna í bíla og snjóbílnum aftur á pallinn var brunað niður á Hvolsvöll þar sem gengilbeinan á Gallery pizza þurfti að standa "pungsveitt" á konudeginum við ofninn og baka flatbökur ofan í glorhungraða Hungursfitsfara.

 

Skildu eftir svar