Vetrarfjallamennska, febrúar 2005

B-hóparnir fóru í verkleg námskeið í vetrarfjallamennsku 5. og 6. febrúar 2005 á Skarðsheiðina. Allir komu þeir aftur og enginn þeirra dó, eins og segir í laginu. Samt gekk á ýmsu, eins og gengur þegar ferðast er um fjöllin um hávetur, og ferðin reyndist vera prýðis þjálfun fyrir nýliðana. Matti Zig sendi þessar myndir ásamt stuttri ferðasögu.

B1 fór yfir grunnatriðin á meðan B2 klifu Skessuhorn. Aðstæður voru nokkuð góðar til að framkvæma ísaxarbremsu og setja niður tryggingar. Það var farið yfir leiðarval í fjalllendi og hvað ber að varast í þeim efnum. Það var meiningin að bivaka í Kötlunum en um kl.18 var veðrið farið að versna til muna og þar sem allir skaflar þarna höfðu fengið sinn skammt af rigningu vikuna á undan og svo frost ofan í það var ekki viðlit að krafla einhverjar holur til að fá skjól. Því tókum B1 það til ráðs að hörfa undan veðrinu og enduðum við undir hlöðuvegg á bænum Horni. Eitthvað lentu B2 í basli á leiðinni niður og seinkaði þeim eitthvað.
Þau höfðu slegið upp tjöldum áður en þau héldu á Skessuna, en ekki betur en svo að eitt tjaldið lét undan veðrinu og þegar einn meðlimur úr B2 var að bjarga því sem bjargað varð, fauk einn svefnpoki út í veður og vind. Þau ákváðu því að taka saman og enduðu hjá okkur undir hlöðuveggnum. Þetta var því hin besta æfing fyrir hópana og ekki annað að sjá en þau geti bjargað sér við flestar aðstæður, með réttan búnað.

 

Skildu eftir svar