Gönguskíða- og tækjaferð í Landmannalaugar, mars 2005

Liðlega 20 félagar áttu góða helgi í Landmannalaugum fyrstu helgina í mars. Á dagskrá var ferð á Langjökul en aðstæður þar þóttu ekki góðar og því var ákveðið að fara frekar í Landmannalaugar. Ferðaáætlunin var þannig að ekið var upp í Áfangagil og gist þar í skálanum. Á Laugardag var haldið í Landmannalaugar, gönguskíðamenn á sínum jafnfljótum en tækjamenn fundu sér viðfangsefni í nágrenninu. Á sunnudeginum var haldið línuveginn að Sigöldu.

Lagt af stað klukkan 20 á föstudagskvöld og ekið inn að Áfangagili við Valafell. Bílfært var að skálanum og leist mönnum ekki á blikuna varðandi hvað lítið var af snjó. Allar áhyggjur voru óþarfar því daginn eftir þegar skíðahópurinn hafði borið skíðin upp á Valafell kom í ljós að nægur snjór var á leiðinni og ekki þurfti að taka þau af fyrr en í Landmannalaugar var komið, en þangað var komið rúmlega 19:00 og hafði skíðahópurinn þá verið 11 klst. á leiðinni. Þá var eldað og borðað. Voru sumir orðnir ansi framlágir en höfðu þó kraft til að taka þátt í hinun sérstaka kapphlaupi sem iðulega er blásið til þegar flubbar, bæði inngengnir og nillar, efna til þar sem heitt vatn er að finna. Eins og oft áður var það Maggi Andrésar sem vann og var þetta þriðja skiptið sem hann ber sigur úr býtum. Á sunnudeginum var ræst kl. 06:30 og kl. 08:00 var lagt af stað að Sigöldu. Þangað var komið um klukkan 14 og þá var brunað í bæinn. Þessi ferð tókst vel enda frábært veður og hópurinn mjög kátur. Eitt óhapp varð þó í síðustu brekkuni þegar Ragna datt og sneri sig illa á ökla og er beðið frétta af því máli.

Myndasmiðir eru Matti Zig, Sigurgeir H. og Arnar Bergmann. Ferðasöguna á Matti.

 

Skildu eftir svar