Sigið í Þríhnjúkagíg – maí 2006

Eins og dagskráin gerði ráð fyrir þá fóru B2 og nokkrir inngengnir á
laugardaginn í Þríhnjúkahelli, eða Þríhnjúkagíg eins og hann er kannski
oftar kallaður. Lagt var af stað kl. 10 og var fyrsti maður kominn
niður kl.13:20 svo komu hinir niður koll af kolli, samtals átta manns.
Þegar allir voru komnir niður var ákveðið að klöngrast alla leið niður
á botn.

Að vísu þurftum við aðeins að leita að réttu leiðinni en hún fannst
að lokum og allir gátu barið augum strompinn, sem er þó engin strompur
því hann nær ekki upp á yfirborð. Ekki hef ég jarðfræðilega skýringu á
þessu fyrirbrigði en þetta er eins og einhver hafi ætlað að bora gat
upp á yfirborðið en hætt í miðjum klíðum. Þríhnjúkagígur er af
jarðfræðingum talinn vera stærsta hraunhvelfing í heimi og er 130
metrar á dýpt. Hallgrímskirkjuturn er 74,5 metrar á hæð, þannig að hæð
þessa hellis slagar hátt í tvöfalda þá hæð.

Svo tók við ferðin upp og þar gekk á ýmsu. Fyrstir fóru Hjörtur og
Magnús (snjóbílakall) og á eftir þeim fóru Viddi og Heiða Jóns, 
Hjörtur lenti í einhverju basli með handjúmmaran sinn og fyrir vikið
þurfti Viddi að húka á línunni fyrir neðan hann í smá tíma. Þegar tveir
fyrstu voru kominr upp fóru systurnar á sitt hvora línuna og þá fyrst
fór að færast spenningur í ferðina. Þegar Ólöf var komin í  svona
20 metra hæð, opnaðist brjóstjúmmarinn hennar og gat hún með engu móti
komið línunni aftur í. Það fór aðeins um mannskapinn sem beið niðri á
botni. Ég var að leggja af stað til að hjálpa henni þegar hún kallaði
og sagðist vera búinn að koma prússik á línuna og hefði tekist að koma
línunni aftur í brjóstjúmmaran. Það var nú mikill léttir.

Nú var Evvi kominn á hina línuna og var að ná Ólöfu þegar hún, með
einhverri óútskýranlegri kænsku tekst að flækja prússikbandi í
brjóstjúmmarann og getur ekki losað það. Í sameiningu reyna þau að losa
flækjuna en tekst ekki. Var þá brugðið á það ráð að fá brjóstjúmmara,
karabínu og sling að ofan og skipti Ólöf um línu og skildi sinn júmmara
eftir á hinni línunni. Þá var bara einn eftir og var sá kominn upp um
kl. 21 og hafði verið niðri síðan kl. 13:20. Mikið var nú gott að
komast upp úr þessari holu og lofar undirritaður, sem hefur farið
þrisvar í hellinn, að þetta hafi verið í síðasta skipti sem hann fer
þarna niður.

Svo var gengið frá og brunað á "Stælinn" og slafrað í sig feitum
hamborgurum og nautasteikum og að lokum var farið niður í sveit það sem
gengið var frá búnaði. Einhverjir jaxlar í hópnum létu sig hafa það og
mættu í partý hjá B1 og hafa ábyggilega uppskorið aðdáun þeirra fyrir
afrek dagsins.

Myndir og texti Matti Zig

 

 


Hópurinn, að undanskildum undirrituðum: Ragna, Heiða, Ólöf, Viddi, Halldór, Evvi
og Hjörtur.


Opið er eins og kattarglyrna þegar niður er komið

 


Heiðu farið að leiðast þófið


Áður fyrr trúðu menn því að Þríhnjúkagígur lægi rakleitt til Vítis. Við vitum nú
að það er haugalygi.

 


Strompurinn frægi

 

 

 

Skildu eftir svar