Greinasafn fyrir flokkinn: Uncategorized

Verklegt ísklifurnámskeið

Helgina sjöunda til níunda október 2005 fóru nýliðar í B2 í verklegt námskeið í ísklifri í Sólheimajökli

Myndir og frásögn – Matti Zig

Ferðin hófst á föstudeginum þegar lagt var af stað upp úr kl. 20. Það var ákveðið að tjalda til að laugardagurinn myndi nýtast sem best og svo er líka svo gott að sofa í tjaldi.

Það var vaknað um kl. 7:30, nesti útbúið fyrir daginn og morgunverður snæddur. Námskeiðskennararnir mættu svo klukkan níu, en það voru hinir fræknu spotta- og klifurfræðingar Bjarni, Haukur og Hilmar.

Veðrið var ágætt, sólin braust fram úr skýjunum og allt leit út fyrir að þetta yrði fínn dagur. Þegar á jökulinn var komið voru broddarnir spenntir undir skóna og undirstöðuatriði í jöklagöngu æfð.

Eins og alltaf þegar fólk prófar í fyrsta skiptið að ganga á broddum voru skrefin dálítið skrýtin, en þegar allir ímynduðu sér að þeir væru með fílaveikina fóru skrefin að vera fagmannlegri.
Þegar við höfðum þrammað dágóða stund inn á jökulinn fundum við ákjósanlegan stað til að æfa innsetningu á tryggingum. Hópnum var skipt í tvennt og allir æfðu handtökin. Þá var komið að því að klifra.

Óhræddir létu nillarnir slaka sér niður í hyldýFyrsta leiðin var nú kannski erfið en áður en við héldum niður af jöklinum var línan færð og nillarnir fengu að spreyta sig á mun erfiðari leið.

Allir komust  þeir nú upp en mikið voru þau nú þreytt. Svo var arkað niður, tjöldin tekin saman og brunað í bæinn.

 

Haustferðin 2005

23. til 25. september

Þau voru öll á sama máli um að þetta hafi verið frábærlega vel heppnuð ferð. Gengið í sól og undir björtum himni leið sem í upphafi átti að vera öðruvísi, en svo reyndist kortið ekki gefa rétta mynd af landslaginu.

Að þessu sinni voru það Renni- Jón Þorgríms og Guðjón Örn sem skipulögðu haustferðina. Eftir nokkrar kortaflettingar var ákveðið var að ganga frá Landmannalaugum í Strútslaug á laugardegi, um 20 Km. leið, og á sunnudeginum niður í Strútsskála.

Komið var síðla kvölds í Landmannalaugar, tjaldað og slappað af í lauginni. Það kom á óvart hversu mikill snjór var kominn á hálendið þetta snemma að hausti, en það var þæfingsferð á Fjallabaksleið. Eftir morgunmat var lagt af stað kl. 9 á laugardagsmorguninn og Jökulgilið skoðað. Áin reyndist vera nokkuð vatnsmikil ennþá og því ekki kostur að ganga upp gilið. Því var farið upp á ásinn meðfram gilinu og inn á stíginn sem liggur þar yfir að Strút. Meiningin var að fara norður fyrir Torfajökul, en landslagið þar bauð ekki upp á mikla útúrdúra, eins og göngumenn komust að!

Eftir talsvert mikið brölt upp og niður lá leiðin upp á Torfajökul og gengið var með sporðinum yfir á Laugarháls og þaðan niður að Strútslaug. Þar á tjaldsvæðinu voru fyrir nokkur tjöld og reyndust þar vera fjölskyldufólk sem að mestu voru HSSR skátar á ferð á eigin vegum. Við tjölduðum hjá þeim og hvíldumst vel fram á morgun enda ekki löng leið framundan á sunnudeginum. Þá var rölt yfir að Strútsskála þar sem bílstjórarnir sóttu okkur um hádegisbil.

Eins og áður sagði þurfti talsvert að víkja út frá upphaflegri áætlun enda reyndist landslagið vera nokkuð öðruvísi en kortið gaf í fyrstu til kynna. Rauða strikið sýnir áætlunina eins og búið var að setja hana niður á korti en rauðu punktarnir eru GPS punktar sem Gaui tók á leiðinni. Eins og sjá má er það ekki alveg sama leiðin. Reyndar var ákveðið í upphafi ferðar að fara niður í Strútsskála í lok leiðar í stað þess að fara niður með Hólmsárlóni og að Brytalækjum.

Hrútsfjallstindar – 7 maí 2005

Þeir Halli Kristins (Hallgrímur Kristinsson) og Doddi dúfa (Þórður Bergsson) félagar í FBSR skelltu sér á Hrútsfjallstinda þann 7 maí 2005.  Hér er stutt myndasaga úr ferðinni.

Það eru örugglega engar ýkjur að segja að Hrútsfjallstindar í Öræfum skipa sér í röð mest krefjandi viðureigna sem fjallamenn geta fundið hér á Fróni. Ari Trausti og Pétur Þorleifsson lýsa þessu svæði ágætlega í bókinni Íslensk fjöll – gönguleiðir á 151 tind, en í þeirri ágætu bók segir m.a. "Allt um kring eru 1000-2000 m há kletta og jökulfjöll, mörg með vígalega falljökla í hlíðum og ísbrýnda hátinda. Hæðarmunur er eins og hæst gerist í Ölpunum og sums staðar í enn hærri fjöllum. En auðvitað er hæð yfir sjó vart í ökklahæð risanna í Andesfjöllum eða Himalaya."*

Myndir

Eftir þetta fór að kyngja niður snjó og aðstæður urðu mun erfiðari.  Eftir dágóða tilraun til að finna leiðina upp á hæstu nípu ákváðum við að snúa við um 100 – 150 metra frá toppnum.  Ekkert skyggni var á staðnum og eftir að ein “fjölbýlishúsasprungan” enn hafði gert tilraun til að gleypa okkur í einum bita ákváðum við að snúa við.  Höfðum við ætlað að fara niður Hafrafellsleiðina en sökum skorts á skyggni (semsagt skyggni “0”) töldum við útilokað að hitta á þá leið.  Því var ákveðið að fara sömu leið niður og við komum upp. Hér sjást myndir sem teknar voru af Halla að búa sig undir að síga niður einn af brattari hluta leiðarinnar og leggja tryggingar fyrir Dodda sem síðan klifraði á eftir. Skyggnið hafði batnað tímabundið þegar þarna niður var komið. Niðurleiðin gekk vonum framar þrátt fyrir að um 30 cm nýfallinn “sykursnjór” lá ofan á snjónum sem gerði allar tryggingar og klifur erfiðara.  Notuð var tryggingaaðferðin “niður-20-metra-og-snjóakkeri-og-niður-20-metra-og-snjóakkeri o.s.frv.” til að koma okkur niður.  Komið var að bílnum aftur kl. 23:00 um kvöldið, eftir 19 tíma ferð.

 

Ferðasaga: Hallgrímur Kristinsson
Myndir: Þórður Bergsson – afritun óheimil án leyfis!

* Heimild: Ari Trausti Guðmundsson og Pétur Þorleifsson. "Íslensk fjöll – gönguleiðir á 151 tind" Mál og Menning, Reykjavík 2004

„“Kröfuganga““ á Eyjafjallajökul

-Ferð með nýliða B1 upp á Eyjafjallajökul 1. maí 2005

Loksins hafðist það að leggja af stað í ferðina. Upphaflega ferðaáætlunin var að leggja af stað á föstudagskvöldi og tjalda við Seljavelli en vegna ýmissa ástæðna var brottför frestað til sunnudagsmorguns. Lagt var af stað kl. 05:00 og þegar við komum á Hvolsvöll sáum við að skýahula var að leggjast yfir jökulinn. Við hinkruðum í hálftíma við sjoppuna Hlíðarenda og fylgdumst með skýafarinu. Ekkert breyttist og voru ferðalangar á því að hætta við. En við svo búið mátti ekki sitja heldur ókum við austur að Seljavöllum, öxluðum bakpokana og lögðum af stað klukkan átta. Meiningin var að byrja á því að fara uppá jökulrönd og taka verðrið þar aftur. Þegar við komum að jökulröndinni var farið að snjóa en annars ekkert að veðrinu svo við héldum áfram eftir stutt nestistopp og fylgdum þar eftir sporum frá ferðalöngum sem höfðu verið þar daginn áður. Ferðin sóttist nokkuð vel og vorum við 4 klst. og 8 mínútur uppá topp (frá "grunnbúðum"). Þar var gert stutt stopp, teknar myndir og síðan arkað niðureftir. Þegar komið var að Seljavallalaug var klukkan orðin 14:35. Fórum í heita pottinn og hugðum okkur gott til glóðarinnar að komast snemma í bæinn. Þegar við vorum við Pöstina hringdi Maggi Andrésar í okkur og bað okkur að hjálpa félaga sínum sem fastur var við lónið við Gígjökul. Það reyndist ekki nóg aflið í Fordinum , enda bíllinn orðinn pikkfastur í jökulleir, og urðum við frá að hverfa. Þegar við yfirgáfum fasta jeppann var von á meiri aðstoð úr bænum. Komum í bæinn klukkan 19:00.

Saga og myndir Matti Zig.

 

Leitner snjóbíll sóttur á Mýrdalsjökul

Föstudagskvöldið 15. apríl 2005 fór snjóbílaflokkur á Hägglunds snjóbíl og FBSR 2 (Toyota Land Cruiser) til að sækja Leitner snjóbílinn sem hafði verið skilinn þar eftir vegna olíustíflu og með tóma rafgeyma. Leiðangurinn skyldi fara með nýja geyma upp á jökul, koma snjóbílnum í gang og keyra hann til baka.

Farið var af stað frá félagsheimili FBSR um kl. 19 á föstudagskvöldinu og komið að jöklinum við Sólheimaskála um miðnætti. Ákveðið var að halda ferðinni áfram þar sem veðurspá var ótrygg.

Vel gekk að koma snjóbílnum aftur í gang, eftir að hann hafði fengið hreina olíu, sem eru festir framan á tönn snjóbílsins. Ferðin til baka gekk líka vel, þrátt fyrir að færið hafi verið mjög þungt fyrir Toyotuna og hún því dregin nær alla leiðina. Höfðu snjóbílamenn á orði að þeir hafi dregið 12 volta hleðslutæki á eftir sér, svona til öryggis ef þeir myndu tæma geymana á Leitner. Komið var aftur að jökulrönd um tíuleytið um morguninn. Ferðin gekk aö öllu leiti snurðulaust og tóku allir ferðalangar þátt í akstrinum.

 

Fyrsta ferð nýliðaflokks B1

Nú fer hver að verða síðastur til að vera með í nýliðastarfi vetrarins. Fyrsta ferðin er núna um helgina, en ennþá er hægt að hafa samband og skrá sig ef áhugi er fyrir hendi. Að loknum vel heppnuðum kynningarfundum á nýliðastarfi
Flugbjörgunarsveitarinnar, heldur hópurinn af stað í sína fyrstu ferð
helgina 8. til 10. sept .

 

Farið verður í skála skíðadeildar Fram í
Eldborgargili en þar verður farið yfir almenna ferðamennsku á fjöllum.
Fyrir þá sem ætla með er vert að geta þess að brottför er frá húsnæði
sveitarinnar kl 20 á föstudagskvöld. Hvað þarf að hafa meðferðis er
hægt að finna í dagskránni hér vinstra megin á síðunni, með því að smella á ferðina.

Á þriðjudag, 12. sept, verður síðan fyrsti kvöldfundur hópsins haldinn.
Þá er stefnan að fara í gegnum fjarskipti og taka almennilega á móti
þeim sem ekki komust um helgina. Ef einhver hefur einhverjar spurningar
er hægt að hafa samband í tölvupósti á netfangið nylidaflokkur@fbsr.is
og einnig í síma 669 9812.

Framhaldsvinna við Tindfjallasel

Til þess að gera hið nýja Tindfjallsel klárt fyrir veturinn þá þurfum við að loka þakinu og birgja glugga.  Til stóð að fara þessa helgi, en sú helgi virðist ekki henta vel. Frekar ætlum við þá að mæta tvíefld þar næstu helgi, þ.e. 16. og 17. sept.

og klára að loka skálanum okkar. Þau sem ætla að mæta þá eru beðin um að hafa samband við Pétur Kristjáns.

Með tæki á Langjökul, páska 2005 – jómfrúarferð Hägglunds

Það viðraði ekki vel til fjallaferða þessa páska þó svo þeir væru snemma í árinu, eða 24. til 28. mars. Undanfarið höfðu verið mikil hlýjindi á landinu og farið að blota og hlaupa í krapa víðast hvar á hálendinu. Tveir hópar höfðu ráðgert ferðir um páskahelgina. Annars vegar var búið að ráðgera hörku gönguskíðaferð með púlkur frá Fljótshlíð, yfir Tindfjallajökul inn á Fjallabak, þaðan suður Mýrdals- og Eyjafjallajökul. Sá hópur sneri við þegar hann kom upp í Tindfjöll því þar var ekki eitt einasta snjókorn að sjá, nema kannski á jöklinum, og jarðvegurinn farinn að hlaupa í drullu. Ekki gaman að draga púlkur við slíkar aðstæður.

Hinn hópurinn er sá sem hér skal sagt frá og ætlaði hann í þriggja daga leiðangur á jeppum og snjóbíl á Vatnajökul. Sögurnar sem leiðangursmenn höfðu heyrt af Vatnajökli voru ekki fallegar, farið að blotna þó svo enn væri hægt að þræða sig áfram víðast hvar. Daginn fyrir brottför sýndi síriti Veðurstofunnar í Jökulheimum að hiti hafði farið upp í 4° yfir daginn og um miðnætti var þar 1° hiti. Það var aðeins ávísun á eitt, blota og krapa. Við vorum þá nýbúin að fá Hägglunds snjóbílinn, en þar sem þetta var jómfrúarferð hans þótti ekki ráðlegt að hætta notuðum bíl sem við þekktum ekki upp á svæði þar sem mjög erfitt yrði að sækja hann ef hann skyldi bila. Því var ákveðið að fara frekar upp á Langjökul, enda var kaldara þar og aðstæður öllu auðveldari.

Hägglunds bíllinn, eða "Högglund" eins og menn kalla hann oftast til að sveigja betur að íslenskri beygingarþörf, var glænýr, ef svo má segja um 25 ára gamlan bíl, og rétt svo búið að gera hann ferðafæran. Ekki var búið að ganga frá flutningabíl fyrir hann heldur var fenginn flatvagn að láni sem var hengdur aftan í sjöuna. Á sjöunni var svo "gamli" Leitner snjóbíllinn á sínum stað. Það tók smá stund að koma Högglundi upp á vagninn enda ekki neinir rampar tiltækir nema sliskjurnar sem notaðar eru til að ferma Leitner á sjöuna. Þær eru í styttri kantinum fyrir Högglund, sem er talsvert mikið lengri en Leitner og getur því ekki klifrað upp jafn hvasst horn. Loksins komumst við af stað en þá tók við tímafrek leit að aftökustað fyrir Högglund. Tvö skilyrði þurfti að uppfylla. Í fyrsta lagi að finna "náttúrulegan" ramp til að bakka upp að svo að stuttu sliskjurnar gætu brúað bilið. Í öðru lagi þurfti að vera hægt að snúa vagninum við án þess að skemma land. Eftir rigningartíðina var erfitt að finna stað þar sem við gætum athafnað okkur með vagninn án þess að skilja eftir för eða festa bílinn, en við fundum þó góðan stað þar sem vegaframkvæmdir stóðu yfir rétt hjá Húsafelli. Það kom í hlut Halla Kristins að bakka Högglundi af vagninum og bruna í gegnum Húsafell og Kaldadal upp að Jaka. Halli skemmti sér mjög við að sjá svipinn á fólki sem hann mætti, sem átti síst von á að mæta snjóbíl úti á þjóðvegi á fullri ferð.
Áfram var haldið á Toyotunni og Sjöunni með Leitner á pallinum. Þegar komið var rétt upp fyrir Lambá á Kaldadal var langur skafl í veginum sem sjöan komst ekki yfir og var ákveðið að freista þess að Leitner gæti þrætt skaflana upp að Jaka. Eftir tvo kílómetra kom í ljós að skaflarnir voru af skornum skammti á leiðinni og auk þess þurftum við að gera ráð fyrir að koma Leitner aftur að sjöunni. Það var því ákveðið að skilja Leitner eftir og halda á jökulinn á Toyotunni og Högglund. Sannaðist þar strax notagildi Högglundar sem er á gúmmíbeltum og getur keyrt á snjólausum vegum.

Við vorum orðnir talsvert seinir. Dagurinn hafði farið í það að breyta plönum og útvega skála á Langjökli, þreifa okkur áfram með flutning á Högglund og tilraunir við að koma Leitner upp að jöklinum. Það var ekki fyrr en um hálf sex leytið að við komum í brekkuna við Jaka. Ferðin sóttist samt mjög vel enda færið á jöklinum ágætt fyrir bæði belti og dekk. Þegar við skriðum upp á hábunguna breyttist rigningin í slyddu og síðan snjókomu og þar með voru allir vegir færir. Hägglunds hélt í kringum 18-20 km. meðalhraða og við komum að Fjallkirkju á góðum tíma.
Föstudagurinn langi heilsaði okkur með blíðviðri en blindaþoku. Skyggnið var á kannski 15 metrar. Við heyrðum í talstöðinni í björgunarsveitarmönnum á ferð við Skálpanes sem sögðu aðstæður þar alveg þær sömu. Ekki ýkja spennandi það. Þar sem Högglundur var líka búinn að súpa vel á bensínbirgðirnar sínar þá var fátt annað í stöðunni en halda aftur niður af jöklinum en við gætum þó kíkt í Þursaborg og íshellana í leiðinni.

Við Þursaborg mættum við félögum okkar úr Flugbjörgunarsveit V- Húnavatnssýslu á vélsleðum og Högglundur hitti þar bróður sinn sem var með þeim í för. Skyggnið var sífellt að skána og útlitið orðið nokkuð betra, eins og myndirnar sýna.

Þetta leist okkur vel á! Frábært skyggni og frábært veður. Nú skyldi haldið að íshellunum og þeir skoðaðir. Ekki vorum við þó fyrr lagðir af stað þegar þokan lagðist aftur yfir, nú þykkari en áður. Þá ákváðum við að halda bara beint niður af jöklinum enda vorum við ekki með GPS track af leiðinni niður að íshellunum og eina sem við myndum gera væri að þreifa okkur áfram þangað í þokunni.
Þrátt fyrir mikinn seinagang og þoku vorum við í það heila sáttir við ferðina enda kom Högglundur einstaklega vel út í sinni fyrstu ferð. Við vorum líka reynslunni ríkari og vissir um að bíllinn er fullkomlega útkallshæfur, þ.e.a.s. um leið og búið er að útvega almennilegan flutningsmáta fyrir hann. Það sem eftir lifði dags var eytt við að grilla í Húsafelli og koma sér heim.

Nýliðaferð, Þingvellir – Botnsdalur 19. og 20. mars 2005

Matti Zig fór með nýliðana sína í B1 í stutta ferð þar sem tilgangurinn var að tjalda í vetraraðstæðum.

"Að þessu sinni var lagt af stað á laugardegi og ekið að Svartagili við Ármannsfell og fylgdum við Gagnheiðarvegi að Hvalvatni þar sem tjöldum var slegið upp. Eins og venjulega var veðrið gott (of gott) og fóru ferðalangar rólega yfir. Þó nokkuð var af snjó á svæðinu en greinileg merki um að vetur konungur er að slaka á klónni. Það sást greinilega á Glym. Þegar tjöldin voru komin upp var gengið á Skinnhúfuhöfða og þar sem nægur tími var til stefnu var reynt að fjölga í hópnum, með því að skapa þennan myndarlega snjókall sem hafði þó runnið sitt skeið á enda strax um morguninn. Á leiðinni niður í Botnsdal var komið við hjá Glymsgili og efsti hluti fossins barinn augum. Komum að bílastæðinu rúmlega 13:00, þar sem Jón beið eftir okku og keyrði okkur í bæinn".

Matti

 

Gönguskíða- og tækjaferð í Landmannalaugar, mars 2005

Liðlega 20 félagar áttu góða helgi í Landmannalaugum fyrstu helgina í mars. Á dagskrá var ferð á Langjökul en aðstæður þar þóttu ekki góðar og því var ákveðið að fara frekar í Landmannalaugar. Ferðaáætlunin var þannig að ekið var upp í Áfangagil og gist þar í skálanum. Á Laugardag var haldið í Landmannalaugar, gönguskíðamenn á sínum jafnfljótum en tækjamenn fundu sér viðfangsefni í nágrenninu. Á sunnudeginum var haldið línuveginn að Sigöldu.

Lagt af stað klukkan 20 á föstudagskvöld og ekið inn að Áfangagili við Valafell. Bílfært var að skálanum og leist mönnum ekki á blikuna varðandi hvað lítið var af snjó. Allar áhyggjur voru óþarfar því daginn eftir þegar skíðahópurinn hafði borið skíðin upp á Valafell kom í ljós að nægur snjór var á leiðinni og ekki þurfti að taka þau af fyrr en í Landmannalaugar var komið, en þangað var komið rúmlega 19:00 og hafði skíðahópurinn þá verið 11 klst. á leiðinni. Þá var eldað og borðað. Voru sumir orðnir ansi framlágir en höfðu þó kraft til að taka þátt í hinun sérstaka kapphlaupi sem iðulega er blásið til þegar flubbar, bæði inngengnir og nillar, efna til þar sem heitt vatn er að finna. Eins og oft áður var það Maggi Andrésar sem vann og var þetta þriðja skiptið sem hann ber sigur úr býtum. Á sunnudeginum var ræst kl. 06:30 og kl. 08:00 var lagt af stað að Sigöldu. Þangað var komið um klukkan 14 og þá var brunað í bæinn. Þessi ferð tókst vel enda frábært veður og hópurinn mjög kátur. Eitt óhapp varð þó í síðustu brekkuni þegar Ragna datt og sneri sig illa á ökla og er beðið frétta af því máli.

Myndasmiðir eru Matti Zig, Sigurgeir H. og Arnar Bergmann. Ferðasöguna á Matti.