Með tæki á Langjökul, páska 2005 – jómfrúarferð Hägglunds

Það viðraði ekki vel til fjallaferða þessa páska þó svo þeir væru snemma í árinu, eða 24. til 28. mars. Undanfarið höfðu verið mikil hlýjindi á landinu og farið að blota og hlaupa í krapa víðast hvar á hálendinu. Tveir hópar höfðu ráðgert ferðir um páskahelgina. Annars vegar var búið að ráðgera hörku gönguskíðaferð með púlkur frá Fljótshlíð, yfir Tindfjallajökul inn á Fjallabak, þaðan suður Mýrdals- og Eyjafjallajökul. Sá hópur sneri við þegar hann kom upp í Tindfjöll því þar var ekki eitt einasta snjókorn að sjá, nema kannski á jöklinum, og jarðvegurinn farinn að hlaupa í drullu. Ekki gaman að draga púlkur við slíkar aðstæður.

Hinn hópurinn er sá sem hér skal sagt frá og ætlaði hann í þriggja daga leiðangur á jeppum og snjóbíl á Vatnajökul. Sögurnar sem leiðangursmenn höfðu heyrt af Vatnajökli voru ekki fallegar, farið að blotna þó svo enn væri hægt að þræða sig áfram víðast hvar. Daginn fyrir brottför sýndi síriti Veðurstofunnar í Jökulheimum að hiti hafði farið upp í 4° yfir daginn og um miðnætti var þar 1° hiti. Það var aðeins ávísun á eitt, blota og krapa. Við vorum þá nýbúin að fá Hägglunds snjóbílinn, en þar sem þetta var jómfrúarferð hans þótti ekki ráðlegt að hætta notuðum bíl sem við þekktum ekki upp á svæði þar sem mjög erfitt yrði að sækja hann ef hann skyldi bila. Því var ákveðið að fara frekar upp á Langjökul, enda var kaldara þar og aðstæður öllu auðveldari.

Hägglunds bíllinn, eða "Högglund" eins og menn kalla hann oftast til að sveigja betur að íslenskri beygingarþörf, var glænýr, ef svo má segja um 25 ára gamlan bíl, og rétt svo búið að gera hann ferðafæran. Ekki var búið að ganga frá flutningabíl fyrir hann heldur var fenginn flatvagn að láni sem var hengdur aftan í sjöuna. Á sjöunni var svo "gamli" Leitner snjóbíllinn á sínum stað. Það tók smá stund að koma Högglundi upp á vagninn enda ekki neinir rampar tiltækir nema sliskjurnar sem notaðar eru til að ferma Leitner á sjöuna. Þær eru í styttri kantinum fyrir Högglund, sem er talsvert mikið lengri en Leitner og getur því ekki klifrað upp jafn hvasst horn. Loksins komumst við af stað en þá tók við tímafrek leit að aftökustað fyrir Högglund. Tvö skilyrði þurfti að uppfylla. Í fyrsta lagi að finna "náttúrulegan" ramp til að bakka upp að svo að stuttu sliskjurnar gætu brúað bilið. Í öðru lagi þurfti að vera hægt að snúa vagninum við án þess að skemma land. Eftir rigningartíðina var erfitt að finna stað þar sem við gætum athafnað okkur með vagninn án þess að skilja eftir för eða festa bílinn, en við fundum þó góðan stað þar sem vegaframkvæmdir stóðu yfir rétt hjá Húsafelli. Það kom í hlut Halla Kristins að bakka Högglundi af vagninum og bruna í gegnum Húsafell og Kaldadal upp að Jaka. Halli skemmti sér mjög við að sjá svipinn á fólki sem hann mætti, sem átti síst von á að mæta snjóbíl úti á þjóðvegi á fullri ferð.
Áfram var haldið á Toyotunni og Sjöunni með Leitner á pallinum. Þegar komið var rétt upp fyrir Lambá á Kaldadal var langur skafl í veginum sem sjöan komst ekki yfir og var ákveðið að freista þess að Leitner gæti þrætt skaflana upp að Jaka. Eftir tvo kílómetra kom í ljós að skaflarnir voru af skornum skammti á leiðinni og auk þess þurftum við að gera ráð fyrir að koma Leitner aftur að sjöunni. Það var því ákveðið að skilja Leitner eftir og halda á jökulinn á Toyotunni og Högglund. Sannaðist þar strax notagildi Högglundar sem er á gúmmíbeltum og getur keyrt á snjólausum vegum.

Við vorum orðnir talsvert seinir. Dagurinn hafði farið í það að breyta plönum og útvega skála á Langjökli, þreifa okkur áfram með flutning á Högglund og tilraunir við að koma Leitner upp að jöklinum. Það var ekki fyrr en um hálf sex leytið að við komum í brekkuna við Jaka. Ferðin sóttist samt mjög vel enda færið á jöklinum ágætt fyrir bæði belti og dekk. Þegar við skriðum upp á hábunguna breyttist rigningin í slyddu og síðan snjókomu og þar með voru allir vegir færir. Hägglunds hélt í kringum 18-20 km. meðalhraða og við komum að Fjallkirkju á góðum tíma.
Föstudagurinn langi heilsaði okkur með blíðviðri en blindaþoku. Skyggnið var á kannski 15 metrar. Við heyrðum í talstöðinni í björgunarsveitarmönnum á ferð við Skálpanes sem sögðu aðstæður þar alveg þær sömu. Ekki ýkja spennandi það. Þar sem Högglundur var líka búinn að súpa vel á bensínbirgðirnar sínar þá var fátt annað í stöðunni en halda aftur niður af jöklinum en við gætum þó kíkt í Þursaborg og íshellana í leiðinni.

Við Þursaborg mættum við félögum okkar úr Flugbjörgunarsveit V- Húnavatnssýslu á vélsleðum og Högglundur hitti þar bróður sinn sem var með þeim í för. Skyggnið var sífellt að skána og útlitið orðið nokkuð betra, eins og myndirnar sýna.

Þetta leist okkur vel á! Frábært skyggni og frábært veður. Nú skyldi haldið að íshellunum og þeir skoðaðir. Ekki vorum við þó fyrr lagðir af stað þegar þokan lagðist aftur yfir, nú þykkari en áður. Þá ákváðum við að halda bara beint niður af jöklinum enda vorum við ekki með GPS track af leiðinni niður að íshellunum og eina sem við myndum gera væri að þreifa okkur áfram þangað í þokunni.
Þrátt fyrir mikinn seinagang og þoku vorum við í það heila sáttir við ferðina enda kom Högglundur einstaklega vel út í sinni fyrstu ferð. Við vorum líka reynslunni ríkari og vissir um að bíllinn er fullkomlega útkallshæfur, þ.e.a.s. um leið og búið er að útvega almennilegan flutningsmáta fyrir hann. Það sem eftir lifði dags var eytt við að grilla í Húsafelli og koma sér heim.

Skildu eftir svar