Björgunarleikar

Björgunarleikar verða haldnir samhliða landsþingi Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Akureyri þann 16. maí.

Leikarnir verða með keppnisfyrirkomulagi og munu byrja kl. 8 eða 9 á laugardagsmorgni. Gert er ráð fyrir að þeim ljúki um kl. 16. Verkefnin verða innanbæjar á Akureyri en gert er ráð fyrir að liðin þurfi að keyra á milli pósta. 6-7 eru í hverju liði og þurfa þau að hafa almennan björgunarbúnað með. Nákvæmari búnaðarlisti verður sendur út þegar nær dregur.

Skipulagning Björgunarleikanna er að þessu sinni í höndum Súlna, Björgunarsveitarinnar á Akureyri. Miðað er við að verkefnin verði sem fjölbreyttust og endurspegli þau verkefni sem björgunarsveitir eru að leysa í dag. Á föstudagskvöldinu fær hvert lið afhenta möppu með dagskrá liðsins fyrir leikana ásamt reglum, korti o.fl. Það er svo á ábyrgð hvers liðs að mæta á réttum tíma í hvert verkefni.

Verkefnin verða 6-7 og miðað við að liðin hafi um klukkustund fyrir hvert verkefni, með ferða- og undirbúningstíma. Hugsanleg verkefni eru: fyrsta hjálp, rötun, leit, björgun, línuvinna, óveðurs- og bátaverkefni.

Markmið Björgunarleikana er skemmtun, reynsla og lærdómur. Við öll verkefnin verða leiðbeinendur sem munu gæta öryggis og leiðbeina hópunum ef þeir lenda í vandræðum með lausn verkefnisins. Hóparnir þurfa því ekki að kunna allt.