Aðalfundarboð FBSR

Aðalfundur FBSR verður haldinn 20. maí 2015 klukkan 20:00 í húsakynnum FBSR að Flugvallarvegi.

Dagskrá aðalfundar:

  1. Formaður setur fund.
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  3. Skýrsla stjórnar og umræður um hana.
  4. Endurskoðaður rekstrar- og efnahagsreikningur 2014-2015, samþykktur af félagslega kjörnum endurskoðendum og umræður um hann.
  5. Inntaka nýrra félaga.
  6. Hlé – Kaffiveitingar á vegum Kvennadeildar FBSR, kr. 1.500 (í reiðufé).
  7. Lagabreytingar, umræða og kosning.
  8. Kosning stjórnar.
  9. Kosning tveggja endurskoðenda og eins til vara.
  10. Kosning þriggja félaga í valnefnd heiðursveitinga.
  11. Önnur mál.

Breytingartillögur á lögum Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík

Tillögur að lagabreytingum bárust frá stjórn FBSR. Tillögunum má skipta í tvennt:

  1. Í fyrsta lagi leggur stjórn til nýja uppsetningu á lögum FBSR þar sem ekki verður um neina innihaldsbreytingu á lögum FBSR að ræða. Ástæða þessa er til að einfalda og skerpa á uppsetningu núgildandi laga m.a. með því að sameina greinar sem eiga saman og einfalda orðalag. Heildarendurskoðun má finna hér.
  2. Í öðru lagi leggur stjórn FBSR til ýmsar breytingar á lögum sveitarinnar sem bæði taka til nýrra lagagreina og breytinga á fyrri lagagreinum. Auk þess er sérstaklega lögð fram breytingartillaga um fjölgun stjórnarmanna. Breytingartillögurnar má finna hér og sérstaka tillögu um fjölgun stjórnarmanna hér.

Núgildandi lög FBSR má finna hér. Lög FBSR.
Kynningu á heildarendurskoðun og breytingartillögum má finna hér. 

Sveitarfundur

Sveitarfundur verður haldinn 13. maí n.k. klukkan 20:00 í húsakynnum FBSR við Flugvallarveg þar sem m.a. verður farið nánar yfir innihald lagabreytingartillagnanna. Það er von stjórnar að þeir sem vilja kynna sér breytingatillögurnar sjái sér fært að mæta og að umræðan sem þar skapast geti flýtt fyrir afgreiðslu á aðalfundi.

Boðun á aðalfundi

Stjórn FBSR vekur athygli á því að á síðasta aðalfundi FBSR var samþykkt breyting á lögum þess efnis að aðalfundur er löglega boðaður ef boðað er til hans með tölvupósti, og með tilkynningu á heimasíðu FBSR með minnst 5 daga fyrirvara.

Framvegis verður aðalfundur FBSR boðaður í samræmi við þessa breytingu og því verður ekki sendur bréfpóstur á félaga FBSR nema þeir sérstaklega óski eftir því. Óskir um bréfpóst vegna boðunar aðalfundar svo og upplýsingar um tölvupóstföng, sem senda skal fundarboð á, skulu berast stjórn á tölvupóstfangið [email protected].

Við hvetjum félaga til að mæta á aðalfundinn og hafa áhrif á þær ákvarðanir sem þar verða teknar.

Stjórnin.