B1 í Tindfjöll

Tíu nýliðar í B1 fóru í Tindfjöll helgina 4.-7. apríl.  Fylgdarliðið voru harðgerir jaxlar af fjalla-og bílasviði.  Á föstudagskvöldi var tjaldhópunum hent út á handahófskenndum stöðum í Fljótshlíðinni með kort og áttavita og voru allir komnir á áfangastað um kl. 3.  Göngufærið síðari hluta göngunnar var ekkert til að hrópa húrra yfir, drulla, bleyta og snjór.  Nýliðunum var boðið upp á soðið vatn áður en skriðið var inn í tjald.

Mynd: Stefán Þórarinsson

Mynd: Stefán Þórarinsson

Plan laugardagsins var að fara á Ými og Ýmu á Tindfjallajökli.  Lagt var af stað á laugardagsmorgni en okkur miðaði frekar hægt, töluverður snjór og farið að hvessa.  Þegar komið var að Saxa, við rætur Tindfjallajökuls, ákváðu fararstjórarnir að snúa við vegna veðurs.  Fengum þó að festa á okkur brodda og í línu og prílaði helmingur hópsins upp á Haka áður en haldið var til baka.  Þegar komið var að Ísalp skálanum hafði einn úr hópnum „fótbrotnað“.  Nýliðarnir þurftu að hlúa að honum og koma heilum og höldnum niður að gamla FBSR skála.  Að æfingu lokinni biðu okkar grillaðar pylsur í tugatali, bornar fram á bleikum Hello Kitty diskum!  Það eina sem skyggði á daginn var að eitt tjald inngenginna, með hluta af innbúi, fauk í rokinu og fannst ekki aftur þessa helgi.

Mynd: Stefán Þórarinsson

Mynd: Stefán Þórarinsson

Allt of snemma á sunnudagsmorgni vorum við vakin upp með látum.  Skömmu síðar hófst æfing í snjóflóðaleit.  Að henni lokinni var borðað, pakkað saman og rölt af stað niður í Fljótshlíð.  Markmið göngunnar var að komast þurrum fótum niður.  Gangan gekk hratt og vel og á leiðarenda fengu tjaldhóparnir að keppa sín á milli í æsispennandi tímatöku!  Verkefnið var að tjalda, sjóða 1L af vatni og koma sér inn í tjald og ofan í svefnpoka.  Tjaldhópur 1 (Guðjón, Sveinbjörn, Þorkell) sigraði naumlega í fyrstu umferð á 11 mínútum.  Í annarri umferð átti einungis að tjalda og sigraði þá tjaldhópur 2 (Elísabet, Franz, Kristveig, Svana) örugglega á tímanum 5:25.  Tjaldhópur 3 (Björgvin, Helena, Linda) hafa eitthvað að stefna að.  Lagt var af stað í bæinn en eftir smá akstur komum við að bíl utan vegar frá Björgunarsveit Hafnarfjarðar.  Hófst þá lærdómsrík skyndihjálparæfing sem var síðasta æfing helgarinnar.

Mynd: Stefán Þórarinsson

Mynd: Stefán Þórarinsson

– Elísabet Vilmarsdóttir